Stjórn Öldu telur að stjórnmálamenn hafi ekki tekið alvarlega það vantraust sem skapaðist milli þeirra og kjósenda í kjölfar hrunsins, þrátt fyrir fögur fyrirheit. Upp hafa komið mál þar sem kjörnir fulltrúar eru uppvísir að spillingu, hagsmunatengslum og því að segja ósatt án þess að þeir axli ábyrgð. Alda telur rétt að þeir stjórnmálamenn sem uppvísir voru að því að eiga reikninga í skattaskjóli víki til þess að skapa rými til að byggja upp traust. Í ljósi þess að fráfarandi fjármálaráðherra leyndi almenning skýrslu um aflandsfélög í aðdraganda síðustu kosninga er nauðsynlegt að endurskoða upplýsingalög. Í ljósi hins mikla vantrausts í garð Alþingis er rétt að endurskoða fyrirkomulag opinberra úttekta og rannsókna til að tryggja betur traust samfélagsins. Loks er rétt að endurskoða lög og reglur um skattaundanskot. Tryggja þarf virka og ríka aðkomu almennings að öllum þessum verkefnum.

Í kjölfar efnahagshrunsins 2008 komu nokkur veigamikil atriði berlega í ljós sem urðu til þess að traust á Alþingi hrundi. Þar er – því miður – af mörgu að taka. Helst ber þó að nefna að kjörnir fulltrúar almennings vanræktu þá skyldu sína að gæta hagsmuna umbjóðenda sinna. Hagsmunir stjórnmálamanna, og ekki síður tengsl þeirra við fjármálaöfl og fyrirtæki, gegnsýrðu alla ákvarðanatöku. Nýlegar rannsóknir stjórnmálafræðinga (sjá t.d. Gilens og Page, 2014) sýna að hagsmunasamtök hafa meiri áhrif á stefnumótun stjórnvalda en kjósendur. Ísland fellur vel inn í þá mynd þar sem 90% tillagna Viðskiptaráðs Íslands voru teknar upp af stjórnvöldum á árunum fyrir hrun. Eina ráð almennings voru mótmæli. Frá 2008 hafa fjölmörg söguleg mótmæli farið fram í tíð allra ríkisstjórna. Tvær ríkisstjórnir hafa hrökklast frá völdum á þeim tíma. Djúp gjá er milli kjósenda og kjörinna fulltrúa þeirra.

Allt frá hruni hafa stjórnmálamenn allra flokka lofað bót og betrun. Oft er haft á orði að mikilvægasta verkefni stjórnmálanna sé að endurreisa traust og virðingu Alþingis. Þeim orðum hefur ekki verið fylgt eftir í verki. Meira að segja einföldustu atriði, eins og að segja satt og rétt frá og gera skýrt grein fyrir eigin hagsmunum, hefur vafist fyrir ráðamönnum. Þá hefur þeim ekki tekist að sannfæra almenning um að þeir gæti hagsmuna almennings af fullum heilindum. Þvert á móti urðu forsætisráðherra, fjármálaráðherra og innanríkisráðherra uppvís að því að vera með reikninga í skattaskjólum. Í venjulegu árferði er auðvitað rétt að verði kjörinn fulltrúi uppvís að slíku segi sá hinn sami af sér. Þegar djúpt vantraust ríkir á stjórnmálunum almennt er hins vegar algjörlega nauðsynlegt að enginn vafi leiki á um heiðarleika og hagsmuni fulltrúanna – þeim ber að víkja ef staða þeirra er vafa undirorpin.

Fráfarandi fjármálaráðherra hefur svo bætt gráu ofan á svart með því að leyna almenning skýrslu um aflandsfélög í aðdraganda kosninga. Má öllum vera ljóst af verkum hans að hagsmunir almennings í landinu voru honum ekki efst í huga, eins og vera ber, þar sem lítilsvirðing ráðherrans við sjálfsagðar grunnreglur um upplýsingagjöf og gegnsæi kom berlega í ljós.

Sömu stjórnmálaflokkar og voru undir forystu einstaklinga í skattaskjólum, Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn, létu undir höfuð leggjast að gæta hagsmuna kjósenda hvað skattaundanskot varðar. Í skýrslunni, sem fjármálaráðherra leyndi, kemur skýrt fram að miklum fjármunum hefur verið komið undan skatti. Á sama tíma molna stoðir velferðarkerfisins og lítið heyrist um mál sem raunverulega myndu auka lífsgæði almennings í landinu, s.s. styttingu vinnutíma.

Við blasir að stjórnmálamenn hafa ekki staðið við fyrirheit um endurreist traust og virðingu á fulltrúalýðræðinu. Fjölmörg úrlausnarefni sem komu í ljós við hrunið eru óleyst og jafnvel óhreyfð og má þar nefna kerfisbreytingar á fjármálakerfinu, aukna aðkomu almennings að ákvarðanatöku og endurskoðun á starfsemi fjölmiðla og eftirlitsstofnana. Eina úrræði almennings til þess að bregðast við misferlum stjórnmálamanna er að safnast saman á torgum. Alda hefur bent á margvíslegar leiðir til þess að bæta þar úr og er reiðubúin til að koma að frekari vinnu hvað þetta varðar.

Í ljósi framangreinds telur Alda nauðsynlegt að:

  • Formaður og varaformaður Sjálfstæðisflokksins segi af sér opinberum embættum.
  • Upplýsingalög verði endurskoðuð og skýrar reglur um birtingu opinberra gagna settar með ákvæði um að tafarlausa birtingu.
  • Fyrirkomulag opinberra úttekta verði endurskoðað með það að markmiði að tryggja sjálfstæði slíkra rannsókna.
  • Ráðist verði í endurskoðun á lögum um skattaundanskot, þar með talin skattaskjól, þar sem kjósendur eru hafðir með í ráðum.

2 Thoughts to “Ályktun vegna Panamaskjalanna og skýrslu um aflandsfélög”

  1. Árni Gunnarsson

    Mér sýnist þetta vera fullkomlega réttmæt viðbrögð og í samhengi við þann grófa fortíðarvanda í stjórnsýslu okkar sem litað hefur alla stjórnmálaumræðu frá hruni og gerir enn.
    Slæmt að hlusta – á sama tíma og þetta er ritað – á viðtal við stjórnmálafræðing sem talar um slys og klaufaskap í samhengi við þetta mál.

  2. Andrea Ólafs.

    Að mínu mati væri jafnframt gott að leggja til að hannað verði sjálfkrafa afsagnarferli þegar ljóst er að ráðherrar eða þingmenn hafi gerst brotlegir við lög eða siðareglur ráðherra. Mögulega þarf slíkt að faíra gegnum embætti Umboðsmanns Alþingis (sem verður þá líklega bara lagt niður 🙂 ) sem gefur út úrskurð. Úrksurði þarf að vinna hratt og ráðherra að víkja úr embætti tímabundið á meðan. Þegar ljóst er að ráðherra hafi gerst brotlegur, þá sé honum sjálfkrafa sagt upp, hann þarf ekki að ákveða það sjálfur.
    Til viðbótar við í slíkan öryggisventil væri hægt að bæta því við að forseta Íslands beri að fara eftir slíkum reglum líka og megi ekki skipa ráðherra í embætti sem hefur gerst brotlegur við lög eða siðareglur.

Comments are closed.