Öldu barst nýlega beiðni frá Alþingi um að veita umsögn um frumvarp um Þjóðhagsstofnun. Markmið frumvarpsins er að stofnun sé sett á laggirnar sem fylgist með gangi hagkerfis landsins, vinni að hagrannsóknum og veiti almenna ráðgjöf á þessum sviðum til Alþingis og ráðuneyta.

Frumvarpið má finna hér.

***

Umsögn Öldu:

Alda telur afar mikilvægt að bæði fulltrúar almennings, sem og kjósendur hafa aðgang að traustum upplýsingum um horfur í samfélagsmálum, þar á meðal efnahagsmálum. Félagið tekur undir með flutningsmönnum um nauðsyn sjálfstæðra opinberra stofnana sem „dragi ekki taum ákveðinna hagsmunaafla í þjóðfélaginu heldur hafi þjóðarhagsmuni að leiðarljósi“ eins og segir í frumvarpinu. Því styður Alda við markmið frumvarpsins en vill koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum.

 

  1. Í opinberri stefnumótun er oft lögð ofuráhersla á hagræn sjónarmið og sérþekkingu. Félagið telur mikilvægt að við heildstæða stefnumótun, ekki síst fjárlagagerð, sé í meira mæli tekið mið af sérþekkingu annarra vísindagreina einnig.
  2. Ekki er ljóst af efni frumvarpsins hvernig verkaskiptingu skuli háttað milli stofnana og ráðuneyta hvað varðar söfnun upplýsinga, skýrslugerð og framkvæmd spálíkana. Rétt sé að endurskoða frá grunni, sbr. lið 1 að ofan, upplýsingasöfnun og miðlun hins opinbera með tilliti til þarfa ólíkra stofnana og hópa. Talsverð sérþekking er nú þegar til staðar hjá ráðuneytum og stofnunum en í minna mæli hjá Alþingi. Mikilvægt er að tryggja, betur en nú er, aðgengi þingmanna og kjósenda að traustum upplýsingum er varða árangur og framkvæmd laga, sem og framtíðarhorfur. Enda eru upplýsingar undirstaða upplýstrar og árangursríkrar ákvarðanatöku.
  3. Félagið telur að frumvarpið tryggi ekki nægilega vel sjálfstæði Þjóðhagsstofnunar. Þar er mælt fyrir um að forsætisnefnd Alþingis ráði forstjóra til sex ára í senn. Alda telur að betur færi á því að forstjóri væri ráðinn af slembivalinni nefnd kjósenda eða annarri leið er tryggir sjálfstæði viðkomandi stofnunar.

 

PDF útgáfu má finna hér.