Stjórn Öldu Félags um sjálfbærni og lýðræði fordæmir lögbann Sýslumannsins á Höfuðborgarsvæðinu á fréttaflutning Stundarinnar og Reykjavík Media um málefni Bjarna Benediktssonar og þrotabús Glitnis.

Þær upplýsingar sem hér er um ræðir eiga fullt erindi við almenning, enda fjalla þær um viðskipti stjórnmálamanna í æðstu valdastöðum landsins.

Á Íslandi hefur viðskiptum og stjórnmálum oft og iðulega verið blandað saman í gegnum árin, með þeim afleiðingum að ýmsar embættisfærslur ráðherra og annarra kjörinna fulltrúa, hafa orðið vafa undirorpnar.

Kjósendum eru nauðsynlegar upplýsingar um hagsmunatengsl kjörinna fulltrúa og frambjóðenda. Þegar almenningur tekur ákvörðun um val á kjörnum fulltrúum sínum er nauðsynlegt að grundvallarupplýsingar um frambjóðendur séu til staðar.

Traust gagnvart Alþingi og  valdastofnunum landsins er í lágmarki, en fullt gagnsæi um viðskipti og tengsl þeirra sem þar fara með valdatauma er nauðsynleg forsenda fyrir því að traustið aukist. Með auknu trausti verður auðveldara fyrir samfélagið að taka ákvarðanir í sameiningu og gera samfélagið betra.