Fundur settur á Stofunni kl. 20:00.

Mætt voru: Guðmundur D. Haraldsson (er ritaði fundargerð og stýrði fundi), Björn Reynir Halldórsson, Kristinn Már Ársælsson og Bergljót Gunnlaugsdóttir.

1) Starfsmannamál

a) Stakt verkefni sem þarf að leysa

Guðmundur leggur til að fá íslenskan vef Öldu (www.alda.is) þýddan yfir á ensku (en.alda.is), en eingöngu mikilvægar undirsíður (þá einkum Stjórn, Um Öldu, Lög, Lýðræði, Sjálfbærni og hagkerfi), þannig að vefsíða á ensku verði virk á allra næstu vikum. Þetta er bæði gagnlegt og mikilvægt, til að vekja athygli á félaginu utan Íslands, þannig að hugsanlegir erlendir samstarfsaðilar viti af félaginu og til þess að erlendir styrktaraðilar geti styrkt félagið. Þegar starfsemi félagsins byrjar að vinda upp á sig, þá er mjög gagnlegt að slík vefsíða sé til staðar fyrir.

Guðmundur hefur tiltekinn einstakling í huga, sem hefur áhuga, og getur tekið verkið að sér. Alda myndi greiða fyrir þetta verk, og taxtinn yrði á svipuðum nótum og greitt er fyrir þýðingar almennt.

Stefnt er að hefjast handa við þýðinguna, þegar búið er að endurskrifa þær undirsíður sem snerta á lýðræði og vinnutíma, til að koma í veg fyrir tvíverknað. Þetta verður líklega í janúar.

Málið er samþykkt og Guðmundur gengur í að semja fyrir hönd félagsins um þetta verk. Stjórninni verður gerð grein fyrir kostnaði áður en hafist er handa við verkið.

Rétt er að nefna að ensk síða Öldu virðist hafa horfið í kerfishruni hýsingaraðilans, 1984 ehf, og er ekki víst hvort heildarafrit finnist. Ef engin afrit finnast verður vefsíðan sett upp frá grunni, en afrit er til af sumum af þeim þýðingum sem þar lágu inni, m.a. af tillögum Öldu til Stjórnlagaráðs.

b) Staða til lengri tíma

Á fyrri fundum stjórnarinnar hefur verið rætt um að ráða starfsmann til Öldu í lítið hlutastarf. Eins og fjárhagsstaða félagsins leyfir um þessar mundir, þá er hægt að ráða starfsmann til vinnu til að vinna ákveðin verkefni, en fyrir lítinn pening eingöngu.

Rætt var um að ráða til starfa starfsmann, til að skrifa umsagnir um lagafrumvörp og þingsályktunartillögur til Alþingis, auk þess að skrifa stöku greinar í blöð og tímarit. Umfanginu yrði stillt í hóf; miðað yrði við tvær umsagnir í mánuði, og eina til tvær blaðagreinar, eftir atvikum — markmiðið er að tryggja festu í því sem félagið kemur frá sér, fremur en magni.

Tigangurinn með þessu væri að auka sýnileika samtakanna innan Alþingis og meðal almennings, þannig að fólk sé meðvitaðra um tilvist félagsins. Einnig er líklegt að fulltrúar annarra félagasamtaka taki eftir starfi Öldu með þessu móti, en auk þess er líklegra að fólk sé tilbúið að styrkja félagasamtök sem eru sjáanleg í samfélaginu. Þannig myndi þessi litla staða treysta félagið mun betur í sessi. Miðað við umfangið yrði kostnaðurinn af þessari vinnu ekki mikill, en vinnan væri mjög gagnleg fyrir félagið.

Tillagan er samþykkt og Guðmundi er falið að skrifa auglýsingu fyrir starfið. Stjórnin tekur svo málið aftur til umræðu.

2) Samstarf við önnur samtök

Guðmundur hefur verið að skoða samstarf við önnur samtök, t.d. New Economics Foundation, með það í huga að fá hugsanlega að þýða og staðfæra hluta af þeirra efni, en einnig ræða við þau um hvort þau geti veitt leiðsögn um styrki frá erlendum sjóðum og einstaklingum.

Hann hefur auk þess í hyggju að eiga samtöl við fulltrúa ýmissa stjórnmálaflokka, einkum í þeim tilgangi að vekja þá til umhugsunar um mikilvægi þess að boða einhvers konar framtíðarsýn, ekki eingöngu loforð til skamms tíma rétt fyrir kosningar, heldur alltaf, sí og æ. Ef það á að byggja upp nýtt samfélag, þá verða stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn, að hafa sýn á það hvers konar framtíð þeir vilja byggja, sýn sem er till lengri tíma. Þessi sýn ekki eingöngu hjálpar til við að finna út skammtímaverkefni sem þarf að ráðast í, heldur einnig langtímaverkefni sem þarf að vinna.

Á fundinum barst einnig til tals að það yrði að koma málunum þannig fyrir í stjórnmálunum að það sé erfiðara að hætta að ræða umbótamál, og auðveldara að koma að umbótasinnuðu fólki, miðað við það sem nú er. Á þessu þurfa fulltrúar stjórnmálaflokkana að átta sig á.

Björn Reynir ætlar að ræða við Andrými um samstarf.

Björn Reynir ætlar einnig að skoða möguleikann á að Alda búi til námsefni fyrr Lífsleikni í framhaldsskólum. Hann skoðar málið með Birgi Smára.

3) Styrkir til handa Öldu — framkvæmd

Stjórnin er búin að skoða talsvert hvernig megi afla styrkja frá almenningi, fyrir tilstilli vefsíðu félagsins. Búið er að skoða nokkrar lausnir, og er líklegast best að notast við þrjár lausnir: Konto (www.konto.is), SalesCloud (www.salescloud.is) og PayPal. Tvö fyrrnefndu kerfin eru búin til af íslenskum aðilum, þau ganga vel með vefsíðunni eins og hún er uppsett, og kosta félagið lítinn pening; Konto gerir félaginu kleift að senda kröfur í heimabanka til fólks, reglulega, á meðan SalesCloud gerir fólk kleift að gefa félaginu peninga reglulega með kreditkorti (óháð búsetu viðkomandi). PayPal hentar vel gagnvart þeim sem búa erlendis og eru vanir að nota PayPal, en þetta á einkum við um N-Ameríku.

Þetta er samþykkt og stefnt er að því að koma þessum kerfum í gagnið á næstunni.

4) Tilkynning til Fyrirtækjaskrár

Senda þarf tilkynningu til Fyrirtækjaskrár um breytingu á stjórninni. Það mál klárast á næstunni.

5) Önnur mál

Vefsíður Öldu urðu fyrir skakkaföllum í kerfishruni 1984 ehf.; íslenska síðan er komin upp aftur og er í góðu lagi, en sú enska er enn í ólagi. Unnið er að því að koma þeirri ensku aftur upp.

Fundi slitið klukkan 22:00.