Alda sendi í dag umsögn til Alþingis um frumvarp um breytingu á lögum um Stjórnartíðindi og Lögbirtingarblaðið. Markmið frumvarpsins er að gera útgáfu ríkisins á þessum ritum aðgengilegri almenningi, enda er um að ræða rit þar sem ríkið og fyrirtæki tilkynna um athafnir sínar.

Umsögn Öldu má finna hér að neðan, og upprunalegt skjal sem fór til Alþingis má finna hér.

***

Umsögn Öldu

Alda – félag um sjálfbærni og lýðræði, tekur heilshugar undir þetta mál.
Rafrænt aðgengi að bæði Stjórnartíðindum og Lögbirtingarblaðinu ætti að vera án sérstaks gjalds fyrir alla sem aðgengi vija. Á tímum þar sem rafrænt aðgengi kostar Íslenska ríkið sáralítið í rekstri, ætti kostnaðurinn fyrir veitingu slíks aðgengis að vera greitt í gegnum almenna skattheimtu, en ekki af þeim sem vilja sjá tilkynningar sem birtast í þessum miðlum. Eðlilegt er hins vegar að þeir sem kjósi að fá þessi rit á pappír, greiði fyrir prentun og dreifingu.

Ástæðan fyrir þessu er sú að í lýðræðisríki er eðlilegt að borgurunum og fjölmiðlunum sé veitt auðvelt aðgengi að upplýsingum um hver þau málefni sem kann að varða hagsmuni almennings, ekki síst þegar ríkið hlutast til um þessi málefni. Hvers kyns hömlum á slíku aðgengi ber að hrinda úr vegi, enda hefur gagnsæi sýnt sig til að draga úr spillingu og misbeitingu valds. Eðlilegt er hins vegar að verja persónuupplýsingar, enda sé um einkamálefni að ræða.

Ýmis ríki eru nú þegar búin að færa ýmsa upplýsingagjöf í farveg sem býður upp á að almenningur hafi meira aðgengi. Þannig er Breska fyrirtækjaskráin nú öll opin í rafrænum aðgangi, sem dæmi.

Alda skorar á Alþingi að samþykkja frumvarpið hið fyrsta.