Fundur var settur kl. 20:00 á Vesturgötu 3, Reykjavík.

Mætt voru: Björn Þorsteinsson, Bára Jóhannesdóttir, Guðmundur Hörður og Guðmundur D. Haraldsson (er ritaði fundargerð).

1. Fundir um borgaraþing

Rætt var um að Alda standi fyrir fundum um borgaraþing, til að kynna hugmyndina ítarlega og af dýpt. Markmiðið væri að koma hugmyndinni betur út í umræðuna og koma borgaraþingum að sem einni af lausnum við vanda fulltrúalýðræðisins. Þetta verður skoðað betur með haustinu.

2. Bæklingur um borgaraþing

Í stjórninni hefur verið rætt um að Alda standi að útgáfu bæklings um kosti, galla og mismunandi útfærslur borgaraþings, ásamt dæmum um árangurinn af þeim um víða veröld. Markmiðið er að til sé lesefni á íslensku um borgaraþing til að auka þekkingu á virkni þeirra, en á Íslandi er lítil þekking á þeim, jafnvel þótt borgaraþing ættu að geta reynst vel á Íslandi. Samþykkt að gangast í gerð bæklingsins, en hann yrði m.a. aðgengilegur á vef Öldu.

3. Aðgerðir varðandi samfélagsbanka og einkavæðingu núverandi banka

Til stendur að einkavæða þá banka sem ríkið enn á, og erfiðlega hefur gengið að koma að í umræðunni hugmyndinni um samfélagsbanka, enda er lítil þekking á slíkri bankastarfsemi á Íslandi, jafnvel þótt bankar af því taginu séu m.a. útbreiddir í Þýskalandi. Virðist vera sem þekkingu skorti á Íslandi um hvernig svona bankar geti virkað.

Rætt var um að halda opna fundi um samfélagsbanka og m.a. til að koma hugmyndinni betur að í umræðunni. Guðmundur Hörður skoðar betur hvaða útfærslur myndu ganga á Íslandi og Guðmundur D. verður til aðstoðar með opna fundi.

4. Fjárlosun — næstu aðgerðir, kynning

Vefur Öldu, Fjárlosun (https://fjarlosun.alda.is/), hefur vakið nokkra athygli undanfarið, en meðal annars var umfjöllun um vefinn í Fréttablaðinu fyrir nokkru. Allnokkur fjármálafyrirtæki hafa svarað fyrirspurn Öldu um hvort þau hafi stefnu um fjárfestingar í loftslagsbreytandi iðnaði, en önnur hafa ekki svarað. Þau fyrirtæki sem hafa svarað hafa veitt ófullkomin svör í einhverjum tilvikum.
Rætt var um hvað væri best að gera í framhaldinu, og samþykkt að auglýsa vefinn, ásamt því að ítreka óskir félagsins um svör af hálfu þeirra sem ekki hafa svarað.

Einnig var rætt um að kanna hvort hægt væri að fá stjórnarmeðlim í lífeyrissjóði til að leggja fram tillögu um stefnubreytingu, í þá átt að sjóðurinn fjárfesti ekki í loftslagsbreytandi iðnaði, en Guðmundur D. Haraldsson kannar málið.

5. Hugmynd um sérstaka vefsíðu um skemmri vinnuviku

Guðmundur D. reifaði hugmynd um að Alda standi að vefsíðu til að fá einkafyrirtæki til að prófa sig áfram með skemmri vinnuviku af sjálfsdáðum. Hugmyndin er sótt í smiðju erlendra framtaka, þar sem hvatt er til að stytta vinnuvikuna, en vefsíðan yrði sjálfstæð og í nafni Öldu. Guðmundur kannar hvort hægt sé að fá styrki til að láta útbúa vefsíðuna. Markmiðið væri að koma vefnum í umferð einhverntíma á næsta ári.

6. Samstarfsverkefni: Skýrsla um árangurinn af skemmri vinnuviku, á ensku

Á fundinum var rætt um samstarfsverkefni um skrif á skýrslu á ensku um árangurinn af styttingu vinnuvikunnar hjá Reykjavíkurborg og hjá ríkinu. Skýrslan yrði unnin í samstarfi við BSRB og hugveituna Autonomy sem er staðsett í Bretandi. Markmiðið er að koma út efni á ensku um þetta merka framtak sem unnið var hér á Íslandi, en lítið efni er til á ensku um framtakið, jafnvel þótt það sé mikill áhugi fyrir verkefninu í hinum enskumælandi heimi. Alda myndi sjá um skrif á skýrslunni, ætti höfundarréttinn, en hún yrði merkt öllum félögunum. Fyrir liggur samþykki BSRB og Autonomy. Rætt hefur verið um þann möguleika á að viðburður verði haldinn þegar skýrslan verður gefin út, í Lundúnum, en ekki liggur fyrir hvort af því verður.

Fundurinn samþykkti verkefnið fyrir hönd Öldu.

7. Aðalfundur Öldu

Samkvæmt lögum Öldu á að halda aðalfund milli 15. september og 15. október, ár hvert. Fundurinn samþykkti að aðalfundur yrði haldinn þann 12. október næstkomandi. Guðmundur D. Haraldsson tekur að sér fundarboð.

Fundi slitið 21:51.