Alda vill vekja athygli á fjórum málefnum sem eru mikilvæg fyrir framtíð íslensks samfélags á næstu árum: Sjálfvirknivæðingu, loftslagsbreytingum, hækkandi lífaldri þjóðarinnar og styttri vinnuviku.
Mikilvægt er að móta heildstæða stefnu til framtíðar sem samþættir þessa málaflokka til að stemma stigu við þróun sem þegar er orðin og er líkleg til að ágerast á næstu árum.
Sjálfvirknivæðing og vinnutími
Undanfarna áratugi hefur sjálfvirknivæðing aukist til muna á fjöldamörgum sviðum atvinnulífsins. Gildir þetta hvort sem horft er til framleiðslugreina líkt og sjávarútvegs eða fiskvinnslu, eins og þekkt er, eða þá til þjónustugreina eins og bankastarfsemi þar sem sjálfvirknivæðingin er í fullum gangi. Hefur störfum fækkað til muna á öllum ofangreindum sviðum atvinnulífsins.
Þessi þróun heldur áfram og er oft nefnd fjórða iðnbyltingin því að heilu atvinnugreinarnar eru taldar munu verða fyrir áhrifum af henni.[1] Störf munu hverfa og óljóst er hvað mun koma í staðinn, vel launuð störf eða illa, og hvernig vinnuaðstæður og vinnutími verða í þessum nýju störfum. Þar sem vinna er ein leið til að dreifa auði, þ.e. við fáum greidd laun fyrir að vinna og með þeim getum við eignast eignir, þá er ljóst að samfélagsleg áhrif fjórðu iðnbyltingarinnar verða umtalsverð.
Ofangreindar fullyrðingar eru ekki úr lausu lofti gripnar: Rannsakendur við MIT og Háskólann í Boston hafa fært fyrir því rök að aukin sjálfvirknivæðing á árunum 1987 til 2016 skýri meira en helminginn af launaójöfnuði í Bandaríkjunum.[2] Sjálfvirknivæðingin var hröð, ekki var gripið til skynsamlegra mótvægisaðgerða, og þetta leiddi til þess að vel launuð störf hurfu fyrir tilstilli sjálfvirknivæðingar og í stað þeirra komu verr launuð störf. Fyrir vikið jókst launaójöfnuður hröðum skrefum. Aðrir rannsakendur hafa tengt aukinn ójöfnuð við versnandi lífsgæði, minnkandi félagsauð og minna samfélagslegt traust.[3]
Skipulag vinnumarkaðarins getur raskast í grundvallaratriðum vegna þessara breytinga. Megináskorunin er að finna leiðir til að nýta tækniþróunina sem best, án þess að lífsgæði stórra hópa raskist og að allir geti verið þátttakendur í hagkerfinu.[4]
Fræðimenn hafa bent á að ein heppileg leið til að takast á við fjórðu iðnbyltinguna sé nýta tækniþróun framtíðarinnar til að fækka vinnustundum. Felur það í sér að þegar framleiðni eykst verði vinnustundum fækkað á móti. Viðheldur þetta vissum stöðugleika hagkerfisins og getur leitt til þess að vinnunni sé bæði dreift á fleiri hendur sem og að fólk geti unnið skemmri vinnudag.[5] Alda telur þessa leið vænlega til að nýta tækniþróunina sem best.
Fleira þarf þó að koma til, m.a. breytingar á skattkerfinu, en slíkt þarf að skoða í samhengi við ofangreint. Breytingarnar verða að auka sanngirni og jöfnuð í samfélaginu.
Fyrir tveimur árum lét núverandi forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, gera úttekt á framgangi fjórðu iðnbyltingarinnar og líklegum áhrifum hennar á íslenskt samfélag. Í úttektinni voru einnig lagðar til mögulegar aðgerðir.[6] Alda hefur áður lagt áherslu á að efnt sé til samstarfs milli ólíkra aðila til að bregðast við þróuninni í tæka tíð svo innleiða megi skynsamlega stefnu í hagkerfinu, með það að markmiði að tryggja að tækniþróunin nýtist sem best.[7]
Loftslagsbreytingar og vinnutími
Vísindasamfélagið er sammála um að loftslagsbreytingar séu af mannavöldum og séu vandamál sem ekki sé hægt að líta framhjá.[8] Á næstu árum og áratugum verða að eiga sér víðtækar breytingar í hagkerfinu til að sporna við loftslagsbreytingum.
Félagið telur rétt að skoða breytingar sem tengjast aðgerðum til að nýta aukna sjálfvirknivæðingu.
Loftslagsbreytingar eru afleiðing af sífellt aukinni neyslu: Eftir því sem neyslan eykst, því meira er losað af gróðurhúsalofttegundum sem svo auka á loftslagsáhrifin. Lofttegundirnar verða til í framleiðslu, veitingu þjónustu, flutningum og víðar.[9] Virk umræða er um hvernig megi takast á við sífellt meiri og ósjálfbæra neyslu og jafnframt loftslagsbreytingar á forsendum markaðshagkerfisins.
Hafa fræðimenn, t.a.m. hagfræðingarnir Juliet Schor og Tim Jackson,[10] hafa bent á í því samhengi að tengslin á milli vinnutíma, neyslu og loftslagsbreytinga séu mikilvæg. Þeirra rök beinast að því að þegar hagkerfi samtímans eykur framleiðnigetu sína sé ágóðanum nánast sjálfkrafa varið til að auka framleiðslu, auka þjónustu og jafnframt örva kaup á framleiðslunni eða þjónustunni, og er það bæði vegna hugarfars og vegna hvata frá stjórnvöldum. Leiðir þetta ferli til aukningar á losun gróðurhúsalofttegunda vegna framangreindra þátta, sem svo eykur á loftslagsvandann. Þau benda á að það sé alls ekki sjálfgefið að framleiðniaukningunni sé varið á þennan veg: Nýta má framleiðniaukninguna til að fækka vinnustundum í stað þess að auka neyslu og þannig sporna við aukningu á neyslu síðar meir.
Þótt tillögur Schor, Jackson og annarra fræðimanna leysi ekki loftslagsvandann sem slíkan, þá myndu þær leiða til þess að draga úr umfangi loftslagsvandans til lengri tíma litið. Hafa ber í huga að tillögurnar þýða einnig að frítími fólks eykst, sem myndi skila sér í auknum lífsgæðum.
Alda hvetur til þess að horft sé til aðferða sem þessara til að sporna við loftslagsbreytingum og ósjálfbærri neyslu og horft sé til þess að aðgerðirnar nýtast jafnframt til að takast á við afleiðingar sjálfvirknivæðingarinnar.
Hækkun lífaldurs
Undanfarin ár hefur verið fjallað um hækkun lífseyrisaldurs og lengingu starfsævinnar því að landsmenn lifa lengur. Þessu fylgir að hlutfallslega færri verða á vinnumarkaði eftir nokkra áratugi, en hópurinn sem eftir verður mun þurfa að halda uppi félagslegu kerfi og lífeyriskerfi landsins.[11] Alda vill benda á að hækkun lífeyrisaldurs stemmir illa við bæði baráttu við loftslagsbreytingar og að mæta aukinni sjálfvirknivæðingu, enda liggur til grundvallar hækkuninni að stefnt sé að áframhaldandi vexti hagkerfisins og neysluaukningu.
Félagið telur að skoða þurfi hækkun lífeyrisaldurs í því ljósi að með aukinni sjálfvirknivæðingu dragi fremur úr þörfinni á vinnuframlagi þessa aldurshóps.
Tökum næstu skref
Alda hvetur stjórnmálaflokka og ráðamenn til að koma upp þverfaglegum umræðuvettvangi fræðimanna, fulltrúa stéttarfélaga, atvinnulífsins og félagasamtaka, sem og alþjóðlegum sérfræðingum. Umræðuvettvangurinn myndi útfæra hvernig megi nýta sjálfvirknivæðingu framtíðarinnar til að stytta vinnutíma og tryggja að ávinningurinn af sjálfvirknivæðingunni renni ekki til fárra og gæta þannig að réttlátri samfélagsþróun í framtíð, sem er í raun hafin nú þegar með fjórðu iðnbyltingunni. Mikilvægt er að umskiptin sem fara í hönd á næstu árum og áratugum leiði til meiri sanngirni, meiri lífsgæða og aukins jöfnuðar. Jafnframt er mikilvægt að sporna við loftslagsbreytingum og er brýnt að leiðir til nýtingar á aukinni framleiðni séu skoðaðar. Hækkun lífeyrisaldurs sé endurskoðuð með tilliti til sjálfvirknivæðingarinnar og umskiptanna sem fara í hönd.
Styttri vinnuvika hérlendis hefur komið Íslandi á kortið sem eitt þeirra landa sem er í fremstu röð hvað varðar viðbrögð við fjórðu iðnbyltingunni. Er litið til Íslands, meðal annars á Bretlandseyjum.[12] Mikilvægt er að við höldum þeirri forystu áfram, ekki einvörðungu til þess að við séum öðrum ríkjum til fyrirmyndar í þessum málum, heldur og til þess að byggja blómlegt og sanngjarnt samfélag.
Það er engan tíma að missa: Loftslagsbreytingar eru raunverulegar. Sjálfvirknivæðing framtíðarinnar mun breyta lífi okkar. Það er samfélagslegt verkefni að tryggja að þróunin verði vænleg fyrir líf okkar í framtíðinni og tryggja að umskiptin verði réttlát.
Mynd: Pexels.com
Heimildir:
[1] Sjá umræðu um hugtakið í Schwab, K. (2017). The Fourth Industrial Revolution. Portfolio Penguin.
[2] Acemoglu, D. og Restrepo, P. (7. júní 2021). Tasks, Automation, and the Rise in US Wage Inequality. https://economics.mit.edu/files/21564
[3] Wilkinson, R. og Pickett, K. (2009/2011). The Spirit Level: Why Greater Equality Makes Societies Stronger. New York: Bloomsbury Press. — Wilkinson, R. og Pickett, K. (2018/2019). The Inner Level: How More Equal Societies Reduce Stress, Restore Sanity and Improve Everyone’s Well-being. UK: Penguin.
[4] Lawrence, M., Roberts, C., og King, L. (2017). Managing Automation: Employment, inequality and ethics in the digital age. London, England: IPPR.
[5] Autonomy (2019). — Srnicek, N. og Williams, A. (2015). Inventing the Future. London: Verso. — Lawrence, M., Roberts, C., og King, L. (2017).
[6] Huginn Freyr Þorsteinsson, Guðmundur Jónsson, Ragnheiður Hrefna Magnúsdóttir, Lilja Dögg Jónsdóttir og Kristinn R. Þórisson (febrúar 2019). Ísland og fjórða iðnbyltingin. Reykjavík: Stjórnarráð Íslands, Forsætisráðuneytið.
Sótt frá: https://www.stjornarradid.is/lisalib/getfile.aspx?itemid=03be6340-3bfc-11e9-9436-005056bc4d74
[7] Guðmundur D. Haraldsson (7. mars 2019). Ísland, vinnutími og tækifæri fjórðu iðnbyltingarinnar: Aðgerða er þörf. Sótt frá: https://stundin.is/blogg/gudmundurd/island-vinnutimi-og-tkifri-fjoru-inbyltingarinnar-agera-er-orf/
[8] IPCC (2021). Summary for Policymakers. Í: Climate Change 2021: The Physical Science Basis. Contribution of Working Group I to the Sixth Assessment Report of the Intergovernmental Panel on Climate Change. Masson-Delmotte, V., P. Zhai, A. Pirani, S. L. Connors, C. Péan, S. Berger, N. Caud, Y. Chen, L. Goldfarb, M. I. Gomis, M. Huang, K. Leitzell, E. Lonnoy, J.B.R. Matthews, T. K. Maycock, T. Waterfield, O. Yelekçi, R. Yu and B. Zhou (ritstj.). England: Cambridge University Press. Í prentun. Sótt frá: https://www.ipcc.ch/report/ar6/wg1/downloads/report/IPCC_AR6_WGI_SPM.pdf
[9] Sjá umræðu um þetta t.d. í Jackson, T. (2009/2011). Prosperity Without Growth: Economics for a Finite Planet. Lonon: Earthscan.
[10] Schor, J. (2013). The Triple Dividend. Í Time On our Side, bls. 3-18. Coote, A. og Franklin, J. (ritstj.). London: New Economics Foundation. – Jackson, T. (2009/2011). – Frey, P. (2019). The Ecological Limits of Work: On carbon emissions, carbon budgets and working time. London: Autonomy. Sótt frá: http://autonomy.work/wp-content/uploads/2019/05/The-Ecological-Limits-of-Work-final.pdf
[11] Sjá t.d. Magnús Halldórsson (11. janúar 2020). Hækka þarf lífeyrisaldurinn um 3 til 6 ár. Kjarninn. Sótt frá: https://kjarninn.is/frettir/2020-01-11-haekka-tharf-lifeyrisaldurinn-um-3-til-6-ar/
[12] Sjá til dæmis umræður í Velska þinginu: Luke Fletcher, L. (22. september 2021) Topical questions. https://record.senedd.wales/Plenary/12432#C376275. — Þingsályktunartillögu á sama þingi: Senedd Cymru (15. september 2021). NDM7780 – Opposition Debate. https://record.senedd.wales/Motion/7780 — Sjá einnig skýrslu og fréttatilkynningu frá IPPR í Skotlandi: IPPR (1. september 2021). Revealed: People in Scotland support four-day week for boosts in wellbeing and productivity. Sótt frá: https://www.ippr.org/news-and-media/press-releases/revealed-people-in-scotland-support-four-day-week-for-boosts-in-wellbeing-and-productivity