Það er orðið algerlega ljóst að loftslagsbreytingar eru raunverulegar, að þær stefna öryggi og afkomu mannkynsins í verulega hættu, að þær eru orsakaðar af hegðun mannskepnunnar, og að aðgerða er þörf. En hvaða aðgerðir eiga það að vera?

Skoðum fyrst hver vandinn er. Í skýrslu Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar frá árinu 2018 er staðhæft að hlýnun loftslagsins um 1,0°C frá því fyrir iðnbyltingu sé staðreynd,1 þetta sé eitthvað sem við verðum að búa við. Lögð er áhersla á að fari hlýnunin yfir 1,5°C myndi hún samt halda áfram að aukast jafnvel þótt losun gróðurhúsalofttegunda myndi stöðvast á næstu árum eða áratugum – ástæðan fyrir þessu eru ýmsir ferlar í náttúrunni sem ekki verða stöðvaðir, svo sem bráðnun jökla og sífreðis. Því fyrr sem mannkynið grípur til aðgerða til að draga úr losun þessara lofttegunda, því betra – það er hins vegar ekki raunin, því losunin heldur áfram að aukast, ár frá ári, eins og er staðfest í nýjustu skýrslu Milliríkjanefndarinnar frá 2022.2 Þar er rakið að við séum langt frá því einu sinni að byrja að minnka losun gróðurhúsalofttegunda: Talið er að 17% heildarlosunar koltvísýrings (CO2) – mikilvægustu gróðurhúsalofttegundarinnar – frá 1850 til 2019 hafi átt sér stað á aðeins níu árum, frá 2010 til 2019. Í þessari nýjustu skýrslu er talið líklegt að hlýnunin fari yfir 1,5°C.

Afleiðingarnar af hlýnun jarðar verða gríðarlegar, og höfum í huga að þær munu birtast á líftíma þeirra sem þetta lesa – við erum ekki að tala um breytingar sem aðeins börnin okkar og barnabörn verða að taka á og lifa við, heldur líka við sjálf, sem fullorðin erum. Um er að ræða mikla aukningu á úrkomu á sumum svæðum, aukningu á þurrkum á öðrum, aukningu á hitastigi á sumum, lækkun á öðrum. Einnig verða veðurofsar líklegri. Þá mun mikið land sökkva undir sjó, en meðal annars eru nokkrar stórborgir í mikilli hættu vegna þessa sem og margar eyjar. Einnig munu mörg vistkerfi – sem hjálpa til við að halda uppi lífi á plánetunni, þar á með talið okkur sjálfum – vera í mikilli hættu sem og margar dýrategundir. Landbúnaður mun verða erfiðari á vissum svæðum. Svona mætti áfram telja. Eftir því sem lengra líður þar til tekið er í taumana, því erfiðara verður að afstýra þessum afleiðingum, og þeim mun erfiðara verður að lifa mannsæmandi lífi á jörðinni.3

Afleiðingarnar af loftslagsbreytingum munu ekki dreifast jafnt yfir mannkynið, og þær munu ná til Íslands líka. Við okkur og okkar heimshluta mun einnig blasa mikill flóttamannastraumur, mun stærri en við höfum séð hingað til.

Að koma í veg fyrir að jafn illa fari – eða enn verr – og Milliríkjanefndin varar við, er líklega eitt stærsta viðfangsefni sem blasað hefur við mannkyninu, viðfangsefni sem mannkynið getur haft einhver áhrif á, í það minnsta. Og tíminn sem við höfum er stuttur, hann er mældum í árum, en ekki áratugum, því áhrifin af loftslagsbreytingum eru farin að birtast okkur.

Hvað skal gera?

Augljóst er að stefna verður að mikilli og hraðri minnkun á losun gróðurhúsalofttegunda, og skiljanlega líta þar margir til tæknilegra lausna. Mikið starf verið unnið víða í Evrópu, m.a. með uppsetningu á sólarorkuspeglum og vindmyllum. Þetta er samt enganveginn nóg, því losunin á gróðurhúsalofttegundum heldur áfram að aukast4 – líka á Íslandi.

Líta margir vongóðir til tækni sem tekur gróðurhúsalofttegundir úr andrúmsloftinu og dælir niður í jörðina þar sem þær bindast,5 en þessi tækni er á algeru frumstigi. Aukinheldur er óljóst hvernig þessi tækni á að geta hamið alla þá gríðarlegu losun sem við stöndum fyrir, því tæknin er afkastalítil í samanburði við losunina.

Það eru til leiðir sem við eigum líka að líta til – í bland við tæknilegar leiðir –, leiðir sem fela í sér breytingu á hegðun okkar og markmiðum okkar sem samfélags. Ein sú leið er að draga úr neyslu framtíðarinnar, en öll okkar neysla, alveg sama hvaða form hún tekur, felur í sér losun gróðurhúsalofttegunda – sama hvort það er kaup eða akstur á bíl, kaup á varningi, utanlandsferðir, framleiðsla á mat, eða byggja hús. Allt þetta felur í sér losun á gróðurhúsalofttegundum vegna flutninga, vinnslu úr jörðu, framleiðslu og svo framvegis.6 Velflestar okkar athafnir valda raunar losun gróðurhúsalofttegunda, og því meira sem við stundum af þessum athöfnum, því meira er losað.

Ég á við að hættum að auka neyslu stöðugt inn í framtíðina og veljum heldur svipaða eða minni neyslu, en í staðinn vinnum minna. Þetta yrði þróun yfir langan tíma í ríkum samfélögum. Þessi hugmynd er svo sem ekki ný og ekki beinlínis mín heldur; hagfræðingurinn Tim Jackson lagði þessa leið til í bókinni Prosperity without growth, sem kom út árið 2009 og var gefin út í nýrri útgáfu 2017, en sú bók rekur meðal annars hvernig sífellt aukið framboð á vörum og þjónustu – hagvöxtur – gagnast lítið samfélögum sem hafa náð vissu stigi hagsældar – ríkum samfélögum –, og hvernig hagvöxtur hefur leitt til þess mikla vanda sem blasir við í umhverfismálunum. Hann fjallar raunar nokkuð ítarlega um tengslin milli síaukinnar neyslu og loftslagsbreytinga, en einnig ofnýtingu auðlinda, sem ekki fær mikla athygli í umræðunni. Jackson setur þetta allt fram með skipulögðum og ígrunduðum hætti.

Meginhugmyndin er þessi: Í stað þess að vinna og vinna, og neyta og neyta í síauknum mæli, sem svo veldur umhverfisspjöllum og dregur úr möguleikum okkar til að lifa góðu lífi til lengri tíma litið (m.a. vegna loftslagsbreytinga), þá eigum við að vinna minna, neyta ámóta mikið eða (eitthvað) minna, nýta hluti mun betur og lengur, endurvinna meira og verja meiri tíma í áhugamál og með vinum og fjölskyldu,7 enda veitir þetta síðastnefnda okkur mun meiri ánægju en sífelld neysla. Og ánægju sem varir lengur. Og lykillinn að þessu er að nýta aukna framtíðar framleiðni hagkerfisins í að draga úr vinnustundum.

Og rökin fyrir því að síaukin neysla auki ekki ánægju, né heldur lífsgæði, eru veigamikil: Jackson rekur hvernig síaukin neysla eykur ekki hamingju, lífslíkur, né dregur úr ungbarnadauða (allt klassísk einkenni aukinnar hagsældar), eftir að vissu stigi neyslu er náð – Ísland og skandinavísk ríki hafa náð þessu stigi. Eitt markmið okkar sem samfélags hlýtur að vera að njóta lífsins og líða vel, en það er öruggt að síaukin neysla í okkar samfélagi er ekki rétta leiðin til þess. Juliet Schor, bandarískur hagfræðingur og félagsfræðingur, hefur bent á það sama í sínum skrifum.8 Þá má gera ráð fyrir því að síaukin neysla sem eykur á loftslagsbreytingar muni gera lífið verra, ekki betra, fyrir marga.

Fjölmargt mælir þannig gegn síaukinni neyslu í ríkum samfélögum. Spurningin sem hlýtur að vakna er hvernig þetta eigi mögulega að geta gengið upp, hvernig getum við gert nokkuð eins og að hætta að auka sífellt neyslu, án þess að það skerði lífsgæði okkar, og jafnframt hafi jákvæð áhrif á loftslagsbreytingar? Yrðu einhver jákvæð áhrif á okkur sjálf af því?

Þrjár leiðir til breytinga

Ég ætla hér að leggja til þrjár leiðir, sem myndu hjálpa okkur hér á Íslandi að draga úr vinnu og neyslu framtíðar, þótt þær geri það með ólíkum hætti. Þessar leiðir munu ekki bjarga okkur frá loftslagsbreytingum, mengun og ofnýtingu auðlinda því til þess mun fjölmargt annað þurfa að breytast líka. Þær myndu hins vegar hjálpa mikið til, en einnig auka frelsi og lífsgæði venjulegs, vinnandi fólks. Önnur lönd gætu þurft að fara aðrar leiðir til að ná fram þessu sama.

Fyrir það fyrsta, þá verður að draga úr ójöfnuði, því ójöfnuður ýtir undir gengdarlausa neyslu, neyslu sem er eingöngu til þess fallin að sýna öðrum fram á „ríkidæmi“ sitt,9 en þegar varningurinn er ekki nógu „fínn“ lengur – eða aðrir eru búnir að eignast það sama – er honum komið fyrir í geymslum og loks hent. Er þá það nýjasta keypt í staðinn. Það er ekki eingöngu ofurríkt fólk sem þetta gerir, heldur tökum við flest þátt í þessu með einum eða öðrum hætti, og markaðsöflin – auglýsendur, framleiðendur og fleira – nýta sér þetta til að selja okkur varning sem á að færa okkur nær stöðu náungans sem við berum okkur saman við. Endalaus kaup á nýjum farsímum er dæmi um þetta, svo og þegar fólk skiptir út ísskápnum sínum því hann er ekki í þeim lit eða stíl sem er í tísku þá stundina – þau ofurríku kaupa sér einkaþotu eða tvær. Ójöfnuður ýtir undir kapphlaup um að vinna sem mest, til að hafa efni á nýjustu tískunni, sem verður fljótt úrelt.10

Þessi hegðun hefur gríðarleg áhrif á umhverfið, sem við erum svo háð til að geta lifað á þessari jörð. Höfum í huga að markaðsöflin reyna að stýra því hverju sinni hvað er í tísku, til að fá okkur til að kaupa nýtt, og þannig er kapphlaupið drifið áfram.

Ójöfnuður hefur líka annars konar áhrif á samfélögin okkar: Rannsóknir hafa sýnt að ójöfnuður hefur neikvæð áhrif á traust innan samfélaga, neikvæð áhrif á jafnrétti kynjanna, dregur úr lífslíkum, eykur líkurnar á offitu, dregur úr möguleikum fólks til að mennta sig, og ýmislegt fleira. Þetta sýna fjölmargar rannsóknir sem hafa verið teknar saman í bókinni The Spirit Level eftir Richard Wilkinson og Kate Pickett.11 Ójöfnuður grefur undan sátt innan samfélaga, eykur samkeppni milli fólks og eykur streitu.12 Allt þetta dregur úr lífsgleði og getu samfélaga til að vinna saman13 og hefur þar með neikvæð áhrif á stjórnmálin þannig að þau ná síður að leysa brýn vandamál samfélagsins.

Það er þannig mikilvægt að takast á við ójöfnuð, því hann er sjálfstætt vandamál sem ýtir undir mengun, loftslagsbreytingar og dregur aukinheldur úr lífsgæðum. Ójöfnuður er pólítískt viðfangsefni, sem sést best á því að hann má minnka eða auka með breytingum á skattkerfunum okkar – hann eykst þegar efnafólk og stórfyrirtæki eru skattlögð minna, en minnkar þegar þessir hópar eru skattlagðir meira. Ójöfnuður eykst líka þegar þau efnaminnstu eru skattlögð meira.14 Og ójöfnuður er sannarlega raunin á Íslandi, þótt hann sé ekki jafn ýktur og í Bretlandi og Bandaríkjunum, en okkar ójöfnuður hefur þó farið vaxandi á undanförnum árum og áratugum. Um það hafa Stefán Ólafsson og Arnaldur Sölvi Kristjánsson fjallað ítarlega í bókinni Ójöfnuður á Íslandi.

En það er ekki nóg að taka á ójöfnuði, því það verður líka að huga beint að möguleikum fólks til að hafa áhrif á eigin vinnu, og um það fjallar önnur leið til að við getum farið að vinna minna og neyta minna. Á Íslandi er raunin sú, að vinnandi fólk hefur tiltölulega lítil völd yfir því hvað það vinnur mikið – flestir vinna fullt starf, af því að það er það eina sem býðst, eða vegna þess að það er það sem fólk þarf til að geta lifað. Atvinnurekendur hafa það í hendi sér að neita fólki um að vinna hlutastarf, jafnvel í þeim tilfellum þar sem tekjurnar af hlutastarfi myndu duga til að lifa og fólk vill vinna hlutastarf. Starfshlutfall er einfaldlega samkomulag milli launþega og atvinnurekenda, ef annar aðilinn er ósáttur er ekkert samkomulag, og í samfélagi þar sem langflestir vinna fullt starf (75%15), getur reynst erfitt að vinna gegn ríkjandi venjum.

Að vísu er í gildi samningur á íslenskum vinnumarkaði sem á að tryggja launþegum sem vinna hlutastörf viss réttindi og vernd til að vinna þau,16 en það nær ekki lengra en svo að flugfélag á Íslandi ákvað að bjóða flugfreyjum sínum og -þjónum í hlutastarfi að segja upp eða fara í fullt starf sé viðkomandi undir 55 ára aldri. Það var svo staðfest af Félagsdómi, einum af dómstólum landsins, að þetta mætti gera.17 Slíkt samkomulag er því varla mikils virði, því miður. Það verður því að setja góð lög.18

Í Hollandi eru lög sem tryggja jafnan rétt þeirra sem vinna hlutastörf á við aðra hvað varðar atvinnuöryggi, stöðuhækkanir, launahækkanir og svo framvegis. En einnig, og þetta er lykilatriði, þá tryggja lögin fólki þann rétt að velja sér starfshlutfall, jafnvel þótt atvinnurekandanum kunni að virðast það óþægilegt.19 Við eigum að taka upp lög sem þessi til að tryggja í sessi þennan rétt og gera fólki raunverulega kleift að velja sér starfshlutfall. Hugveitan Autonomy hefur bent á að rétturinn til hlutastarfs sé nauðsynlegur fyrir framtíðarþróun vinnumarkaðarins.20 Höfum í huga að rannsóknir sýna að fólk sem vinnur minna veldur minna álagi á náttúruna, á auðveldara með að samræma vinnu og einkalíf og þar fram eftir götunum.21

Rannsóknir benda einnig til að fólk sem velur að vinna minna sé ánægðara með lífið en aðrir og að sú ánægja vari til lengdar, ólíkt ánægjunni sem hlýst af aukinni neyslu, sem varir stutt. Ánægjan af því að eiga meiri frítíma og tíma með öðrum varir jafnvel þótt aðrir öðlist möguleikann til þess sama, ólíkt því sem gerist þegar neyslan eykst og aðrir auka neysluna líka, en þá hverfur ánægjan af aukinni neyslu hratt.22 Það eru því rík rök fyrir því að tryggja fólki réttinn til að vinna hlutastarf.

Loks er það þriðja leiðin, mögulega sú tæknilegasta af þeim öllum. Hún felst í því að nýta aukna framleiðni – aukin framleiðni er getan til að búa til meira af vörum eða veita meiri þjónustu á hverri vinnustund – til að draga úr vinnutíma í framtíðinni, fremur en að búa til meira af vörum eða veita meiri þjónustu. Með því móti, heilt yfir, getum við unnið minna án þess að fórna núverandi velsæld og lífsgæðum, en jafnframt öðlast meiri lífsgæði með fækkun vinnustunda og auknum frítíma og tíma með öðru fólki. Þetta er leið sem hagfræðingarnir Tim Jackson og Juliet Schor hafa lagt til, en leiðin felur ekki aðeins í sér minni tíma til vinnu, heldur einnig að neysluaukning framtíðarinnar er hamin, sem þýðir að losun á gróðurhúsalofttegundum eykst ekki og bæði mengun og ofnýting auðlinda hætta að aukast (að öllu öðru óbreyttu). Útfærslan getur verið með ýmsum hætti, t.d. með styttri vinnudegi eða styttri vinnuviku í stað launahækkana, eða með lengra sumarfríi. Einnig mætti hugsa sér upptöku vetrarfrís. Þetta er allt vel mögulegt og hefur í reynd verið gert áður, en í smærri skömmtum og ekki á kerfisbundinn hátt til langs tíma eins hér er átt við.

Þessar þrjár leiðir í sameiningu myndu hafa mikil áhrif til góðs í okkar samfélagi og öðrum ríkum samfélögum. Samkeppni í neyslu myndi minnka, sóun myndi dragast saman, vellíðan myndi aukast og félagslíf heilt yfir aukast og styrkjast. Traust myndi aukast og vinnutími myndi styttast. Áhrifin á loftslagsbreytingar yrðu jákvæð, því losun gróðurhúsalofttegunda myndi ýmist dragast saman eða hætta að aukast af okkar hendi.

Hér að framan hefur fyrst og fremst verið einblínt á loftslagsbreytingar og viðbrögð við þeim. En við okkur blasir einnig tvenns konar vandi af öðrum toga sem er ekkert minna alvarlegur en loftslagsbreytingar: Ofnýting auðlinda jarðar líkt og imprað var á áður23 – ofnýting ýmssa fágætra málma, til dæmis – og niðurbrot vistkerfa24 – sem kemur til vegna þess að mannkynið hefur lagt undir sig æ meira land til húsbygginga, landbúnaðar og iðnaðar af ýmsu tagi, auk notkunar efna í stórum stíl. Þessi vandi fær enganveginn sömu athygli og loftslagsbreytingar, en vistkerfishagfræðingar hafa þó bent á að þessi vandi verði minni og viðráðanlegri ef sams konar aðferðum yrði beitt og hér hefur verið fjallað um.25

Nokkur orð um efasemdir og einstaklingshyggju

Í hugum margra sem lesa þessar línur kunna að leynast efasemdir: „Hvernig í ósköpunum á að vera hægt að fá fólk til að neyta minna? Hvers vegna ætti fólk að taka upp á því að vinna minna? Og hvernig á fólk sem hefur ekki nóg nú þegar að geta unnið skemur?“ er kannski spurt. Þetta eru allt gildar spurningar, en þær byggja allar á því að við séum öll einstaklingar sem tökum ákvarðanir, hvert fyrir sig, og að við séum ekki meðlimir í samfélagi sem hefur gríðarleg áhrif á okkur öll.

Raunin er sú að við öll verðum fyrir miklum áhrifum frá umhverfinu okkar – auglýsingum, áróðri, hugmyndum sem við berum með okkur og fáum frá öðrum – en líka af efnahagslegum mælikvörðum (verði, verðlagi, þenslu í hagkerfinu). Það er í raun og veru þetta sem hefur langmest áhrif á hegðun fólks, og þetta eru allt áhrif frá samfélaginu. Ákvarðanir fólks eru sjaldnast teknar í tómarúmi: Fólk, sem ákvað að henda stíheilum ísskápum vegna þess að þeir voru ekki í lit sem tískan leyfði og ýtti undir, var rækilega undir áhrifum samfélagsins, og það sama á við um fólk sem vinnur yfirvinnu til að geta slakað á seinna á Ítalíu. Það er rangt að hugsa um ákvarðanir fólks sem varða neyslu sem ákvarðanir teknar í tómarúmi af einstaklingum, og að fólk „verði bara“ að breyta hegðun sinni. Raunveruleikinn er sá að við erum hjarðdýr sem hegðum okkur í samræmi við viðteknar venjur og tískustrauma hvers tíma að mörgu leyti (en ekki öllu leyti). Loftslagsbreytingar eru þannig sameiginlegur vandi, kominn til vegna sameiginlegrar hegðunar okkar.

Það þarf því að hugsa um hegðun og ákvarðanir fólks í samhengi við samfélag þess. Í okkar samfélagi eru yfirdrifin næg efni,26 við höfum úr nægu að bíta og brenna, miklu af því er sóað, auk þess sem margt af því er neysla sem allir sjá að er vitleysa. Úr þessu má draga og vinna minna einnig. Þau sem búa við skort í okkar samfélagi er fólk sem verður fyrir barðinu á þeirri misskiptingu sem við búum við, henni má snúa við, eins og dæmin sýna. Það sem þarf til að fólk neyti minna og vinni minna eru hvatar til minni neyslu, réttindi til hlutastarfa, breytt nýting aukinnar framleiðni, og menning sem gefur til kynna að það sé í lagi að vinna minna en aðrir. Engin valdbeiting er nauðsynleg til þess, enda viljum við búa í lýðræðissamfélagi. Fólk sem vill vinna mikið fengi áfram að gera það óáreitt, enda réttur þess og frelsi að gera það.

Engin ein leið er til að koma í veg fyrir loftslagsbreytingar eða að koma í veg fyrir að við mengum jörðina þannig að hún verði illbyggileg, til þess þarf að bregðast við á ýmsan hátt og þar er minni neysla – eða í það minnsta að neysla haldi ekki áfram að aukast – lykilatriði, einkum meðal efnaðra samfélaga eins og okkar. Og þar með getum við líka unnið minna, enda er ekki ástæða til að vinna fyrir skrani sem er hent næsta fljótlega, en öllu meiri ástæða er hins vegar að njóta þess að eiga meiri tíma með fjölskyldunni og sinna áhugamálunum. Tæknilegar lausnir myndu styðja við breytingar á hegðun eins og þessar til að leysa loftlagsvandann og öfugt.

Sum sem lesa þennan pistil kunna að velta fyrir sér hvort Ísland hrapi ekki í fátækt við að draga úr vinnu og með því að nýta framleiðni á þann hátt sem hér hefur verið lýst. Myndi það ekki steypa okkur í fátækt að hagvöxtur aukist ekki jafn mikið og áður? Svarið við þessu er neikvætt, enda munum við halda áfram að vinna, búa til hluti og veita þjónustu. Hugsanlega myndi neyslan eitthvað dragast saman – við megum við því sem heild –, en mjög líklega myndi hún aukast lítillega eða standa í stað til lengri tíma litið. Við myndum auðvitað halda áfram að vinna og neyta. Við verðum þannig ekki ekki sjálfkrafa fátæk. Við myndum hins vegar auka lífsgæði okkar á öðrum sviðum utan neyslukapphlaupsins kerfisbundið – svo sem hvað varðar félagsleg tengsl milli fólks, áhugamál og svo framvegis.

Önnur myndu kannski hafa áhyggjur af því að fyrirtækin yrðu varla starfhæf ef við beinum framleiðni inn á aðrar brautir – myndu þau ekki verða gjaldþrota öll, hverfa? Það er ekki svo: Fyrirtækin þyrftu að beita fyrir sér nýjustu tækni í sinni starfsemi, til að auka framleiðni sína og hagnast. Hvatinn til að auka framleiðni fyrirtækjanna væri raunar enn meiri í samfélagi sem tekur til þessara ráða en við þekkjum í dag, enda myndi vinnutíminn styttast jafnt og þétt. Þetta gæti því jafnvel verið lyftistöng fyrir fyrirtækin, jákvæður hvati. Það myndi líka tryggja að samkeppnisstaða innlendra fyrirtækja gagnvart erlendum fyrirtækjum myndi eflast.

Sum spyrja sig kannski af hverju við ein ættum að fara hefja vegferð eins og þessa. Af hverju Ísland? Ísland er í kjöraðstöðu vegna smæðar sinnar, hagsældar og skipulags samfélagsins. Ísland er einnig með sterkt net stéttarfélaga og öflugt velferðarkerfi. Neysla er einnig mjög mikil. Jafnframt höfum við á undanförnum árum tekið skref í átt til styttri vinnuviku – með ágætum árangri og vitað er að áhugi er fyrir meiri styttingu í samfélaginu. En Ísland yrði aldrei eitt lengi; við gætum hins vegar verið í fararbroddi þessar þróunar sem önnur lönd læra af og elta.

Kerfisbundnar breytingar á lífsháttum okkar eins og hér hefur verið lýst eru mikilvægar til að auka líkurnar á betra lífi í framtíðinni. Það er verkefni samfélagsins alls að tryggja að svo verði – og annarra samfélaga líka. Það er því mikilvægt að stjórnmálaleg umræða þróist í þessa átt og vonandi að umræðan þróist þannig á komandi misserum að fyrstu skrefin í átt að breytingum megi taka sem fyrst. Við þurfum að ræða leiðir eins og þær sem hér hafa verið reifaðar sem okkar framlag til að takast á við loftslagsbreytingar.

Guðmundur D. Haraldsson, stjórnarmaður í Öldu – félagi um sjálfbærni og lýðræði. Hann er með BSc gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands og MSc gráðu í Cognitive & Decision Sciences frá University College London.

Greinin birtist fyrst á vef Kjarnans þann 10. október 2022.


1IPCC (2018). Summary for policymakers. Í Global warming of 1.5°C. An IPCC Special Report on the impacts of global warming of 1.5°C above pre-industrial levels and related global greenhouse gas emission pathways, in the context of strengthening the global response to the threat of climate change, sustainable development, and efforts to eradicate poverty. Masson-Delmotte, V., P. Zhai, H.-O., Pörtner, D. Roberts, J. Skea, P.R. Shukla, A. Pirani, W. Moufouma-Okia, C. Péan, R. Pidcock, S. Connors, J.B.R. Matthews, Y. Chen, X. Zhou, M.I. Gomis, E. Lonnoy, T. Maycock, M. Tignor, and T. Waterfield (ritstj.).Í prentun. Sótt af https://www.ipcc.ch/sr15/chapter/summary-for-policy-makers/

2IPCC (2022). Summary for Policymakers. Í: Climate Change 2022: Mitigation of Climate Change. Contribution of Working Group III to the Sixth Assessment Report of the Intergovernmental Panel on Climate Change. P.R. Shukla, J. Skea, R. Slade, A. Al Khourdajie, R. van Diemen, D. McCollum, M. Pathak, S. Some, P. Vyas, R. Fradera, M. Belkacemi, A. Hasija, G. Lisboa, S. Luz, J. Malley, (ritstj.). Cambridge University Press, Cambridge, Bretlandi og New York, NY, Bandaríkjunum. doi: 10.1017/9781009157926.001.

3IPCC (2018).

4Sjá IPCC (2018), en einnig Hagstofu Íslands (7. nóvember 2018). Ísland með mesta losun koltvísýrings á einstakling frá hagkerfinu. Sótt af https://hagstofa.is/utgafur/frettasafn/umhverfi/losun-koltvisyrings-a-einstakling/

5Hér er átt við CarbFix tæknina, sem meðal annars hefur verið þróuð á Íslandi.

6Um þessi tengsl milli neyslu og losunar gróðurhúsalofftegunda hefur verið fjallað víða, en í þessu sambandi má meðal annars benda á Jackson, T. (2009). Prosperity without growth. London: Earthscan. Einnig má benda á Schor, J. (2013). The triple dividend. Í Anna Coote og Jane Franklin (ritstj.) Time on our side: Why we all need a shorter working week, bls. 3-18. London: New Economics Foundation.

7Um þessar hugmyndir hefur einnig verið fjallað um annarsstaðar. Sjá m.a. Schor (2013). Einnig: Pullinger, M. (2013). The ‘green life course’ approach to designing working time policy. Í Anna Coote og Jane Franklin (ritstj.) Time on our side: Why we all need a shorter working week, bls. 83-100. London: New Economics Foundation.

8Schor, J. (2010). Plenitude: The New Economics of True Wealth. New York: The Penguin Press. Einkum bls. 177.

9Um neyslumenningu og tilgang sýnilegrar neyslu hefur verið fjallað víða. Fyrir nýlega umfjöllun, sjá Dittmar, H. (2009). To have is to be? Psychological functions of material possessions. Í Helga Dittmar (ritstj.). Consumer culture, identity and well-being: The search for the ‘Good Life’ and the ‘Body Perfect’, bls. 25-48. Hove: Psychology Press. – Varðandi umfjöllun um tengsl neysluhyggju og ójöfnuðar, sjá Wilkinson, R. og Pickett, K. (2009/2010). The spirit level: Why greater equality makes societies stronger. New York: Bloomsbury Press.

10IPCC (2022), C.10.4. – Sjá einnig Wilkinson og Pickett (2018/2019). The Inner Level: How More Equal Societies Reduce Stress, Restore Sanity and Improve Everyone’s Well-being. London: Penguin Press. Sjá einkum bls. 235-236.

11Sjá Wilkinson og Pickett (2009).

12Wilkinson, R. og Pickett, K. (2018/2019). The Inner Level: How more Equal Societies Reduce Stress, Restore Sanity and Improve Everyone’s Well-being. London: Penguin Books.

13Sjá Wilkinson og Pickett (2009).

14Ójöfnuður á sér margar hliðar, og ýmsar orsakir, en þetta er þó raunin þótt þetta sé að einhverju leyti einföldun. Sjá frekari umfjöllun í Wilkinson og Pickett (2009). Einnig: Piketty, T. (2014). Capital in the twenty-first century. London: Belknap Press.

15Hagstofa Íslands (7. febrúar 2019). Vinnumarkaður á 4. ársfjórðungi 2018. Hagtíðindi: Vinnumarkaður, 104 (13), bls. 1-4.

16Samtök Atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands (13. nóvember 2002). Samningur Samtaka Atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands um hlutastörf.

17Félagsdómur (21. desember 2018). Mál nr. 9/2008. Reykjavík: Félagsdómur.

18Hér er rétt að taka fram að á Íslandi eru í gildi lög um hlutastörf (nr. 10/2004), en þau veita ekki þá vernd og þau réttindi sem lög um hlutastörf ættu að gera. Lögin á Íslandi setja t.d. ekki þau skilyrði gagnvart atvinnurekendum að þeir verði að leyfa fólki að breyta um starfshlutfall, bara að þeir skuli leitast við að auðvelda það eins og hægt er. Lögin eru þannig veik, og líklega lítt framfylgt. Til að lög virki almennt og yfirleitt verður að framfylgja þeim og gera þau hluta af menningunni, en það á ekki við um þessi íslensku lög.

19Hayden, A. (2013). Patterns and purpose of work-time reduction – a cross-national comparison. Í Anna Coote og Jane Franklin (ritstj.) Time on our side: Why we all need a shorter working week, bls. 125-141. London: New Economics Foundation.

20Autonomy (2019). The Shorter Working Week: A Radical and Pragmatic Proposal. Will Stronge og Aidan Harper (ritstj.). Crookham Village: Autonomy.

21Sjá Schor (2013), Pullinger (2013) og Hayden (2013).

22Schor (2010), bls. 178-179.

23Sjá t.d. Jackson (2009).

24Sameinuðu þjóðirnar hafa komið á legg samstarfsvettvangi vísindafólks til að safna saman og meta bestu fáanlegu rannsóknirnar um þessi efni. Vettvangurinn er kallaður Intergovernmental Science-Policy Platform on Biodiversity and Ecosystem Services (IPBES) og er hugsaður á svipaðan hátt og milliríkjanefndin um loftslagsbreytingar (IPCC). Ítarlegar upplýsingar um stöðu vistkerfa má fá á vef IPBES: https://ipbes.net/news/Media-Release-Global-Assessment

25Sjá t.d. Jackson (2009).

26Hér má t..d benda á tölur um landsframleiðslu Íslands í alþjóðlegu samhengi, en landsframleiðslan mælist ein sú hæsta í heimi; hún er aðeins hærri í skattaparadísum, olíuríkjum og löndum sem njóta ágóðans af millifærslu hagnaðar milli landa, eða alls þessa. Ísland er hins vegar ekkert af þessu. Sjá gögn frá OECD, hér: https://data.oecd.org/chart/5ASV