Í framhaldi af fyrra bréfi til ráðuneyta sem sent var 2021, sendi Alda annað bréf til ráðuneyta um svipað efni. Aftur er hvatt til að koma á fót skipulögðu samstarfi til að takast á við loftslagsbreytingar og fjórðu iðnbyltinguna.

PDF útgáfa bréfsins.

***

Alda vísar til fyrra bréfs félagsins til ráðuneytisins, dagsett 26. mars 2021, þar sem skorað er á stjórnvöld að koma upp þverfaglegum hópi til að takast á við þær samþættu áskoranir og þau tækifæri sem felast í fjórðu iðnbyltingunni, styttri vinnutíma og breytingum á samfélagsgerðinni sem eru nauðsynlegar vegna loftslagsbreytinga. Félaginu hefur ekki borist svar við umleitunum þess gagnvart ráðuneytinu og er beiðnin því hér með ítrekuð ásamt því að nýjum upplýsingum er bætt við. 

Frá því félagið skrifaði ráðuneytinu síðast hefur orðið enn skýrara hvernig ofangreind málefni tengjast og að aðkoma fjölmargra aðila samfélagsins og samhentar aðgerðir eru nauðsynleg til að árangurinn verði sem hagstæðastur öllu samfélaginu:

  1. Vísindasamfélagið er nú sammála um að hafið sé yfir allan skynsamlegan vafa að loftslagsbreytingar séu af mannavöldum og að breytingar á hegðun fólks verði að eiga sér stað á næstu árum og áratugum – hér má engan tíma missa og er vinnumarkaðurinn ekki undanskilinn. Orkuskipti eru vissulega gagnleg, en ekki fullnægjandi, og fleira verður að koma til. Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna bendir þannig á að tæknilegar lausnir og breytingar á hegðun vinni saman í átt að réttu marki.
  2. Fjórða iðnbyltingin er í fullum gangi og áhrifa hennar má sjá æ víðar. Jákvæð og neikvæð áhrif eru tekin að birtast á vinnumarkaði, er sívaxandi fjarvinna dæmi um breytingarnar sem og aukin sjálfvirkni. En bregðast þarf við: Rannsakendur hafa nýlega sýnt fram á að aukin sjálfvirknivæðing á árunum 1987 til 2016 skýri meira en helminginn af launaójöfnuði í Bandaríkjunum – neikvæð afleiðing þess að ekki var gripið til skynsamlegra mótvægisaðgerða. Alþjóðavinnumálastofnunin hvetur þjóðríki í nýlegri skýrslu að bregðast við þeim breytingum sem eru að eiga sér stað, til að draga úr neikvæðum afleiðingum tækniþróunarinnar, nokkuð sem áður hefur verið gert með góðum árangri.
  3. Fleirum er nú ljóst að stytting vinnutímans er mikilvægur liður í breytingum á vinnumarkaði sem eru nauðsynlegar til að bregðast við breyttu lífsmynstri, breyttum kröfum fólks og til að auka lífsgæði, sem og til að tryggja réttlát umskipti á vinnumarkaði og í samfélaginu. Þau tilraunaverkefni sem voru rekin á Íslandi og sá árangur sem íslenskt samfélag hefur náð á þessu sviði hefur verið öðrum hvatning til aðgerða erlendis. 
  4. Meðal félagsvísindafólks er meiri samhljómur en áður um kosti þess og gildi að fækka vinnustundum hvað heilsufar fólks varðar, samfélagsleg gæði og umhverfismál. Alþjóðavinnumálastofnunin hefur einnig lagt áherslu á þetta í sínum skýrslum, og enn fremur bent á að stytting vinnutíma eigi að vera viðbragð við komandi tækniþróun. Þá hefur verið kallað eftir því sama úr viðskiptalífinu.

Allt ofangreint er nátengt framþróun tækni og hvernig nýtingu aukinnar framleiðni í samfélaginu er háttað, og opnar möguleika til nýjunga og breytinga á samfélagsgerðinni. Þessir möguleikar eru í hraðri framþróun en mjög skortir á að skipulega sé hugað að því hvernig við sem samfélag nýtum þá.

Loks er að verða skýrara að endurskoðaðra aðgerða er þörf vegna hækkunar lífaldurs, en hingað til hafa áform stjórnvalda snúið að því að einfaldlega hækka lífeyrisaldur og þar með aukningu vinnuafls. Þessi aðgerð stemmir illa við afleiðingar fjórðu iðnbyltingarinnar sem almennt felast í því að minna vinnuafl þarf til að vinna sömu verk. Einnig fer hækkun lífeyrisaldurs illa saman við aðgerðir vegna loftlagsbreytinga, en undirliggjandi forsenda hækkunar lífeyrisaldurs er að stækka hagkerfið enn frekar, sem vitað er að eykur á loftslagsbreytingar. Á sama tíma liggur ljóst fyrir að mörgum hugnast að vinna fram yfir eftirlaunaaldur og að margir aðrir þyrftu að geta dregið úr vinnu fyrr. Hér þarf því nýja og breytta hugsun sem samþættir öll þessi sjónarmið samfélagsins, hugsun sem tryggir einnig að við getum lifað innan marka vistkerfa jarðarinnar og  fellur saman við tækniþróun þá sem er yfirstandandi.

Alda – félag um sjálfbærni og lýðræði telur einsýnt að heppilegasta og skynsamlegasta leiðin til að takast á við þróunina að samstarfi sé komið á fót milli ólíkra hagsmunaaðila úr samfélaginu, með aðkomu fræðimanna úr ólíkum fræðigreinum og frjálsra félagasamtaka. Félagið hvetur ráðuneytið til að bregðast við og koma upp slíkum þverfaglegum hópi hið fyrsta. 

Alda vekur athygli á því að erlendis á sér stað mikil umræða og gerjun um þessar mundir um allt það sem nefnt var hér að framan. Hugmyndir og gildi um vinnumarkað framtíðarinnar eru að breytast, sem og um sjálfa samfélagsgerðina. Þetta er umræða sem heimsfaraldur kórónuveirunnar flýtti fyrir, en hefur legið fyrir lengi meðal fræðimanna og ýmissa stofnana og hugveitna að þyrfti að eiga sér stað. 

Í sumum löndum eru fyrstu aðgerðirnar farnar að líta dagsins ljós: Á Spáni, Írlandi og í Bretlandi hefur umræðan verið mikil og þar eru hafin tilraunaverkefni sem eru hugsuð sem fyrsti liðurinn í mun stærri breytingum á vinnumarkaðnum til að takast á við fjórðu iðnbyltinguna, kröfu um meiri lífsgæði og betra jafnvægi vinnu og einkalífs. Breytingunum er einnig ætlað að hjálpa samfélögunum að takast á við meiri lífslíkur og breytta aldurssamsetningu. Fyrstu niðurstöður tilraunaverkefnanna eru jákvæðar og ljóst er að margir stjórnmálamenn, félagasamtök, stéttarfélög og hugveitur vilja að tilraunaverkefnin hafi áhrif á stefnumótun ríkjanna. Þessi tilraunaverkefni eru undir áhrifum tilraunaverkefna sem voru rekin á Íslandi um styttri vinnuviku, en hugmyndaramminn í kringum þau er þó miklu víðtækari. 

Drifkrafturinn að baki tilraunaverkefnunum og hugmyndafræði þeirra snýst þannig að verulegu leyti um að stefnubreytinga sé þörf hvað varðar markmið vinnumarkaðarins – stefna þurfi að velsældarhagkerfi fremur en endalausum vexti hagkerfisins. Í Skotlandi og Nýja-Sjálandi hafa þjóðarleiðtogar stutt viðleitni til umbóta á vinnumarkaðnum í þeim anda sem hér hefur verið lýst sem og sambærileg tilraunaverkefni. Þessi lönd, ásamt Íslandi og Finnlandi og Wales, eru nú hluti hóps stjórnvalda sem stefna að velsældarhagkerfinu. Í Skotlandi og Nýja-Sjálandi eru tilraunaverkefni að hefjast um þessar mundir, áþekk þeim sem eru í gangi á Spáni og Írlandi. 

Á Íslandi hafa skref verið tekin í átt að velsældarhagkerfinu með innleiðingu styttri vinnuviku á vinnumarkaðnum í heild. Hins vegar er ljóst að þau skref eru bara upphafið og stærri skref þarf að taka til að vinnumarkaður framtíðarinnar geti orðið að raunveruleika. Mjög er litið til Íslands sem fyrirmyndar í þessum efnum, m.a. á Bretlandseyjum og á Spáni. Mikilvægt er að Ísland haldi þeirri forystu áfram, bæði til að vera öðrum góð fyrirmynd og til að byggja blómlegt og gott samfélag á Íslandi. 

Í ljósi alls framangreinds er því mikilvægt að þverfaglegu samstarfi verði komið á laggirnar á næstu mánuðum til að hægt sé að taka frekari skref sem fyrst. Alda hvetur til þess að svo verði og lýsir félagið sig reiðubúið til að ræða við stjórnvöld hvenær sem er um næstu skref í málinu.

Þess er óskað að ráðuneytið sendi skriflegt svar.

Fyrir hönd stjórnar Öldu,

Guðmundur D. Haraldsson,

stjórnarmaður og umsjónarmaður verkefnis um vinnutíma.