Fyrirhuguð kaup Landsbankans á TM Tryggingum kom mörgum á óvart. Í kjölfar frétta af fyrirætlunum bankans fóru á flug gamalkunnugar yfirlýsingar um að ríkið eigi ekki að standa í fjármálastarfsemi – og sumir vilja alls ekki að fyrirtæki í eigu ríkisins auki við starfsemi sína. Einn ráðherra lýsti því yfir að verði af kaupunum þurfi að einkavæða Landsbankann, væntanlega í flýti.

En þessi kaup eru rökrétt í ljósi þess hvernig bankar hafa almennt þróast eftir að reglum um þá var breytt fyrir um þremur áratugum, og einnig í ljósi þess hvernig Landsbankinn er rekinn af eiganda sínum, íslenska ríkinu. Fremur en að undrast yfir tilætlunum stjórnenda Landsbankans og krefjast tafarlausrar einkavæðingar ættum við að spyrja okkur tveggja lykilspurninga: Hvert er markmiðið með rekstri banka í nútímasamfélagi? Og: Ætti Landsbankinn að þjóna öðru hlutverki fyrir samfélagið en nú er?

Bankar fyrr og nú

Í samtímanum er markmiðið með rekstri banka oftast fólgið í að hámarka hagnað og greiða veglegan arð til hluthafa. Þetta þykir mörgum eðlilegt. Í þessu augnamiði veita bankar hefðbundna bankaþjónustu – veita lán og bjóða upp á bankareikninga – og rukka fyrir það þjónustugjöld og hagnast á vaxtamun. Á liðnum árum og áratugum hefur tilhneigingin verið að þjónustan fari minnkandi og gjöldin hækkandi. En bankar eru líka fjárfestar í eigin nafni og fjárfesta í öðrum fyrirtækjum – þannig stendur einn banki á Íslandi í uppbyggingu íbúðarhúsnæðis og annar á hlut í fasteignafélagi. Fjárfestingahlutinn hefur þanist út á meðan hefðbundin bankaþjónusta hefur skroppið saman.

Fyrir banka er væntanlega freistandi að stunda fjárfestingar, enda bankar í góðri aðstöðu til. Þeir hafa aðgang að fjármagni sem aðrir hafa ekki – innistæðum viðskiptavina – og hafa aðgang að upplýsingum sem aðrir hafa ekki – um skuldir og viðskiptafærslur aðila sem þeir vilja fjárfesta í og tengdra aðila. Þessi aðstöðumunur skiptir máli.

Landsbankinn – eins og aðrir bankar – stundar fjárfestingar, enda hefur eigandinn uppálagt við stjórn og stjórnendur bankans að hann eigi að reka eins og hvern annan banka. Hann skal hámarka hagnað eins og hinir. Þess vegna finnum við okkur í þeirri stöðu að banki í eigu ríkisins hefur gert skuldbindandi tilboð í tryggingafélag. Flóknara er það ekki.

En bankar hafa ekki alltaf verið fjárfestar. Á um sextíu ára tímabili – frá því í seinni heimsstyrjöld þar til á tíunda áratug síðustu aldar – voru fjárfestingarheimildir banka takmarkaðar með lögum í vestrænum ríkjum. Tilgangurinn var að koma í veg fyrir fall banka, en þau höfðu verið tíð áratugina á undan vegna glæfralegra fjárfestinga, en jafnframt var dregið úr hagsmunaárekstrum (s.s. eins og að hafa aðgang að upplýsingum sem aðrir fjárfestar hafa ekki). Bankar högnuðust, en hann var hófstilltari en nú, og hlutverk þeirra var afmarkaðra en nú er. Fall banka var sjaldgæft – stöðugleiki var meiri. Þegar reglunum var aflétt tók það banka í vestrænum heimi áratug að koma bankakerfi þess í þrot, það gerðist á árunum 2007 til 2010. Skattgreiðendur þurftu að bjarga bankakerfunum og taka á sig lífsgæðaskerðingu, óstöðugleiki jókst. Eftirlit með bönkum var stóraukið í kjölfarið.

Einnig má segja að bankar hafi færst frá hefðbundnu hlutverki sínu – að veita bankaþjónustu – með stórauknum fjárfestingum.

Landsbankinn og framtíðarhlutverk

Að Landsbankinn hafi ákveðið að kaupa annað fyrirtæki, í þráðbeinni andstöðu við vilja eiganda síns, undirstrikar að endurhugsun á hlutverki bankans er nauðsynlegt. Áhættusækni í fjárfestingum banka og að víðfeðmt eftirlit með þeim sé nauðsynlegt til að tryggja stöðugleika hagkerfa og samfélaga undirstrikar enn fremur að við þurfum að endurhugsa hvað við teljum eðlilegt í rekstri banka.

Við þurfum að láta af þeirri hugsun að bankar eigi að hámarka hagnað fyrst og síðast og að þeir eigi að fjárfesta eins og hver önnur fyrirtæki. Við þurfum að hugsa öðruvísi um banka vegna þess að þeir eru ekki eins og hver önnur fyrirtæki. Bankar eiga fyrst og fremst að hafa það hlutverk að veita örugga, góða og ódýra bankaþjónustu – sérhæfðir aðilar geta séð um fjárfestingarnar, og þá á eigin ábyrgð. Með þessu móti er öryggi innistæða banka meiri, áhætta samfélagsins minni og þjónusta við notendur bankanna höfð í fyrirrúmi. Þetta er einmitt kjarninn í samfélagsbönkum. Í heiminum eru mörg dæmi um slíka banka, svo sem Sparkasse í Þýskalandi og NationWide í Bretlandi. Þeir einbeita sér að því að veita góða þjónustu.

Við höfum nú tækifæri til að umbreyta Landsbankanum í samfélagsbanka, kljúfa út fjárfestingahlutann og efla bankaþjónustuhlutann. Bankann má t.d. reka sem sjálfseignarstofnun. Með því að gera Landsbankann að samfélagsbanka getum við tryggt aukna samkeppni í bankaþjónustu á Íslandi, aukna þjónustu og stöðugleika. Við sem samfélag þurfum að vera viljug til að nýta tækifærið sem nú er til staðar og nota ríkisvaldið til að þróa bankamarkaðinn í þessa átt. Það er hagur almennings og samfélagsins.

Guðmundur D. Haraldsson.
Höfundur er stjórnarmaður í Öldu – félagi um sjálfbærni og lýðræði.