Boðað er til aðalfundar Öldu, félags um sjálfbærni og lýðræði, sunnudaginn 19. maí 2024 kl. 14:00. Fundurinn verður haldinn í Hafnarhúsi, Tryggvagötu 17, Reykjavík. Gengið er inn um inngang á horni hússins til móts við Tollhúsið – dyrabjalla verður merkt Öldu.

Dagskrá fundarins er eftirfarandi:

1. Kosning fundarstjóra
2. Skýrsla stjórnar
3. Framlagning reikninga
4. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
5. Lagabreytingar
6. Kosning kjörnefndar
7. Kosning stjórnar
8. Önnur mál

***

Eftirfarandi hafa boðið sig fram til stjórnar Öldu:

  • Gundega Jaunlinina, varaformaður Hlífar
  • Sævar Finnbogason, doktorsnemi í heimspeki og lýðræðisfræðum
  • Þorvarður B. Kjartansson, tölvunarfræðingur
  • Guðmundur D. Haraldsson, MSc í Cognitive & Decision Sciences, BS í sálfræði
  • Jón T Unnarson Sveinsson, meistaranemi í menningarstjórnun

***

Eftirfarandi tillögur að breytingum á lögum félagsins hafa borist frá Guðmundi D. Haraldssyni, stjórnarmanni í Öldu:

Breytingar á 2. gr.

Við 2. gr. laganna bætist við eftirfarandi setning, beint á eftir fyrstu setningu: “Félagið skal einnig berjast fyrir efnahagslegum og félagslegum umbótum sem styrkja og styðja lýðræði og félagslega þátttöku”.

Rökstuðningur: Markmiðið með þessari breytingu er að kveða skýrar á um að félagið sé einnig um félagslegar og efnahagslegar umbætur, ekki aðeins um stjórnmálalegar umbætur er varða lýðræðið, enda um margt nátengd fyrirbæri að ræða. Félagið hefur frá upphafi einnig barist fyrir umbótum af þessu tagi.

Breytingar á 6. gr.

Fyrsta setning 6. gr. laganna skal hljóma þannig: “Í stjórn félagsins skulu sitja 5 manns, kjörin úr hópi félagsmanna.” Síðasta setning í sömu lagagrein skal hljóma svona: “Hætti þrír stjórnarmenn eða fleiri stjórnarmenn milli aðalfunda skal boða til félagafundar þar sem kosnir eru jafn margir nýir stjórnarmenn og sagt höfðu af sér; nema 30 dagar eða skemmri tími séu þar til heimilt er að boða til aðalfundar.”

Rökstuðningur: Með þessum breytingum er fjölda fólks í stjórn félagsins breytt, og til samræmis er þeim fjölda breytt sem þarf að hverfa úr stjórninni til að knýja á um félagsfund til að kjósa nýja stjórnarmenn.

Breytingar á 7. gr. 

7. gr. a. hljómi svo:

Stjórn félagsins fer með málefni og stjórn félagsins á milli aðalfunda og félagafunda. Er stjórn félagsins bundin af lögum félagsins, samþykktum aðalfundar og almennra félagsfunda eftir atvikum. Stjórnarfundi skal halda svo oft sem þurfa þykir. Stjórnarfundi skal boða með tveggja sólarhringa fyrirvara. Óski tveir stjórnarmenn eða fleiri eftir því skal boða til stjórnarfundar. Allir stjórnarfundir félagsins skulu opnir félagsmönnum og skulu allir félagsmenn njóta málfrelsis og tillöguréttar á stjórnarfundum. Geta félagsmenn óskað eftir að mæta á stjórnarfund með einfaldri beiðni. Á stjórnarfundum hafa allir viðstaddir félagsmenn atkvæðisrétt og ræður einfaldur meirihluti. Stjórn félagsins skal jafnframt tryggja að haldin sé fundargerð fyrir stjórnarfundi sem greinir frá öllu því sem þar fer fram. Skal félagsmönnum heimilt að kynna sér efni fundargerða stjórnar.

7. gr. b. hljómi svo:

Viðstöddum stjórnarmanni á stjórnarfundi er heimilt að vísa ákvörðunum stjórnarfundar, sem hann telur stangast á við samþykktir félagsins, til félagafundar og tekur ákvörðunin þá ekki gildi fyrr en með staðfestingu félagafundar en fellur annars úr gildi. Halda skal félagafund innan tveggja vikna. Óski fimm eða fleiri félagsmenn eftir að stjórnarfundur sé haldinn skal það gert. Geta félagsmenn jafnframt krafist þess að tiltekið málefni verði tekið fyrir á stjórnarfundi. 

Rökstuðningur: Þessi lagagrein er brotin upp í tvennt til að hún verði einfaldari aflesturs – önnur nýja greinin fjallar um stjórn og stjórnarfundi, en hin fjallar um hvernig má vísa málum til félagafundar og hvernig félagsmenn geta knúið á um stjórnarfund. Þá er kveðið á um í fyrri greininni að stjórn almennt rekið félagið á milli félags- og aðalfunda. Allir félagsmenn hafi þó aðgang að fundum stjórnar.

Ný lagagrein

Við lögin bætist ný lagagrein, nr. 17, sem hljómi svo: „Stjórn félagsins ber ábyrgð á fjárreiðum félagsins. Skal prókúruhafi félagsins hafa samráð við aðra í stjórn um greiðslur reikninga. Prókúruhafi varðveitir bókhald félagsins. Á stjórnarfundum skal greint frá greiðslum til og frá félaginu.“

Rökstuðningur: Í núverandi lögum félagsins er hvergi tilgreint hver ber ábyrgð á fjárreiðum og bókhaldi. Með þessari viðbót er bætt úr.

***

Sérstök athygli er vakin á því að framboð til stjórnar og lagabreytingartillögur þurfa að berast í síðasta lagi 14. maí 2024 með tölvupósti á netfangið aldademocracy@gmail.com. Nánari tilhögun á aðalfundi má finna í lögum félagsins.

Stjórn Lýðræðisfélagsins Öldu.