Alda, í samstarfi við The Autonomy Institute í Bretlandi, hefur gefið út skýrslu um upplifun launafólks af styttri vinnuviku á Íslandi og hver áhrifin af styttingunni á líf vinnandi fólks er. Markmiðið er að gefa innsýn inn í það hvaða áhrif styttingin hefur haft á líf fólks, hver reynslan hefur verið, og hvaða skref séu æskileg í framtíðinni hvað vinnutímann varðar.
Skýrslan greinir rannsókn sem Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands gerði á íslenskum vinnumarkaði fyrir Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og Vinnueftirlitið. Rannsókn Félagsvísindastofnunar var ætlað að meta aðstæður fólks á vinnumarkaði og ástæður brotthvarfs af vinnumarkaði. Gagnasöfnun Félagsvísindastofnunar fór fram 2021 til 2022.
Skýrslan fjallar eingöngu um þá hluta rannsóknarinnar sem varða styttingu vinnutímans og þá eingöngu fólks sem er í launuðu starfi. Helstu spurningar sem varða rannsóknina eru dregnar fram og settar í efnahagslegt og félagslegt samhengi.
Skýrslan mælir fyrir umbótum á vinnumarkaði sem myndu gera styttingu vinnutímans að raunveruleika fyrir stærri hluta vinnandi fólks, sem myndu bæta og efla líf þess, en einnig efla félagslega samveru í samfélaginu.
Helstu niðurstöður skýrslunnar:
- Mjög mörgum hefur verið boðin skemmri vinnuvika. Á þeim tveimur árum sem liðu áður en fólk var spurt hafði meiri en helmingi (59%) verið boðin styttri vinnutími.
- Launþegar voru oftast með í ráðum um styttinguna: Stór meirihluti þeirra sem höfðu getað nýtt sér styttingu (80%) sögðust hafa verið með ráðum um innleiðingu styttingarinnar á sínum vinnustað.
- Góður meirihluti launafólks (78%) er sáttur við vinnutímann að svo stöddu.
- Í opinbera geiranum er meiri sátt um vinnutímann — 81% hjá ríki og 82% hjá sveitarfélögum — en í einkageiranum (77%).
- Af þeim sem hafa fengið styttingu, segjast 62% vera sáttari við vinnutímann eftir styttingu.
- Launafólk í opinbera geiranum er líklegra til að vera sátt við vinnutímann eftir styttingu samanborið við einkageirann: 65% opinberra starfsmanna og 68% starfsmannna sveitarfélaga voru sátt, samanborið við 55% í einkageiranum.
- Á vinnustöðum þar sem konur eru í meirihluta er meiri ánægja með vinnutímann (70% segjast sátt á vinnustöðum þar sem konur eru í meirihluta, samanborið við 54% þar sem karlar eru í meirihluta).
- 97% launþega taldi styttingu vinnutímans hafa bætt jafnvægi vinnu og einkalífs, eða í það minnsta ekki hrólfað við því á neikvæðan hátt. 52% taldi jafnvægið hafa batnað.
- Launþegar í opinbera geiranum voru líklegri til að telja auðveldara að samræma vinnu og einkalíf í kjölfar styttingar vinnutímans en launþegar í einkageiranum — 61% starfsmanna ríkisins og 55% starfsmanna sveitarfélaga, samanborið við 42% starfsmanna í einkageiranum.
- 42% þeirra sem höfðu getað nýtt sér styttingu vinnutímans töldu styttinguna hafa dregið úr streitu í einkalífinu, 6% töldu streitu hafa aukist.
- Í skýrslunni er talin til æskileg skref til framtíðar:
- Einkageirinn þarf að taka fullan þátt í styttingu vinnutímans og þarf að læra af opinbera geiranum.
- Huga þarf sérstaklega að hópum sem vinna mjög langa vinnuviku.
- Á sviðum heilbrigðismála, félagsmála og velferðarmála þarf hið opinbera að fjárfesta til að draga úr vinnuálagi starfsfólks.
- Framtíðar framleiðniaukning hagkerfisins ætti að nýta í meiri mæli til að draga úr vinnutíma.