Fundur var settur klukkan 11:20 í Hafnarhúsi, Tryggvagötu 17, þann 13. október 2024. Mætt voru Guðmundur D. Haraldsson (er ritaði fundargerð og stjórnaði fundi), Sævar Finnbogason, og Jón T Unnarson Sveinsson.

1. Öldu-Autonomy skýrsla

Alda og The Autonomy Institute hafa í sameiningu unnið að skýrslu um upplifun og árangurinn af styttri vinnuviku á Íslandi. Nú styttist í útgáfu og er handrit á lokametrunum. Guðmundur D. Haraldsson hefur leitt verkefnið af hálfu Öldu. Kallað er eftir athugasemdum frá stjórnarmeðlimum, séu einhverjar. Ljóst er að það er áhugi erlendis frá um að heyra af hvernig gekk með innleiðingu styttingarinnar á Íslandi, einkum frá stéttarfélögum. [ Viðbót, nóvember 2024: Skýrslan er komin út. ]

2. Bókakafli um Ísland og vinnutíma

Nú nýlega kom út í Bandaríkjunum bók eftir blaðakonuna Brigid Schulte, en bókin fjallar um vinnu, vinnutíma og hvernig megi gera vinnu betri. Uppistaðan í bókinni eru viðtöl. Einn kafli í bókinni er viðtal við Guðmund D. Haraldsson, stjórnarmann í Öldu, um baráttuna fyrir styttingu vinnutímans á Íslandi.

3. Evrópska vinnutímanetið – fjölgun félaga og ráðstefna

Evrópska vinnutímanetið, The European Work-TIme Network, er að leitast eftir fleiri aðildarfélögum, einkum stéttarfélögum. Gott væri ef fleiri félög á Íslandi myndu gerast aðilar að netinu. Stjórnin ætlar að athuga með fólk í sínu tengslaneti, hvort áhugi sé hjá félögum.

Netið er með ráðstefnu um styttri vinnutíma, með áherslu á Evrópu, nú í október. Búist er við tugum gesta, einkum frá stéttarfélögum í mið-Evrópu. Fulltrúi Öldu, Guðmundur D. Haraldsson, aðstoðaði við að skipuleggja ráðstefnuna og fá fulltrúa frá Íslandi í panel. [ Viðbót, nóvember 2024: Upptökur frá ráðstefnunni eru nú aðgengilegar. ]

4. Verkefni um jöfnuð

Sævar og Guðmundur hafa undanfarið rætt um að hefja verkefni sem snýst um aukinn efnahagslegan jöfnuð. Slíkt myndi þó teygja sig líka yfir í félagslegan jöfnuð, þetta tvennt tengist nánum böndum. Verkefnið myndi snúast um af hverju jöfnuður er æskilegur fyrir samfélagið, mun fremur en hvernig má fá fram jöfnuð. Ástæðan er sú að þótt það sé eftirsókn eftir auknum jöfnuði, er lítil umræða um af hverju slíkt er ákjósanlegt, en ætla má að það sé auðveldara að ná fram auknum jöfnuði þegar er samhljómur, eða allavega skilningur, á mikilvægi jöfnuðar og auðvelt að tengja bættan jöfnuð við eitthvað sem fólk þekkir og skilur.

Hugmyndin með verkefninu er að tengja jöfnuð við daglegt líf, einkum húsnæðismál. Einnig má tengja við heilbrigði í víðum skilningi. Til eru vandaðar rannsóknir sem sýna fram á tengsl jöfnuðar við betri líðan, betra líf og sterkara samfélag. Athugasemdir komu fram á fundinum um að kannski þyrfti að skýra kjarnann í verkefninu betur.

Sævar bendir á að jöfnuður sé grundvöllur frjálslynds lýðræðis, vegna þess að frjálslyndi felur í sér jöfn tækifæri fyrir alla í lífinu. Það er því enginn samsláttur á milli jöfnuðar og frjálslyndis, heldur þvert á móti: Annað gerir hitt mögulegt.

Guðmundur sagði frá því að hann væri með greinar í vinnslu um þetta efni sem væru væntanlegar á næstu vikum.

Fleira gerðist ekki. Fundi slitið 12:45.