Fundur var settur klukkan 11:35 í Hafnarhúsi, Tryggvagötu 17, þann 6. apríl 2025. Mættir voru Guðmundur D. Haraldsson (er ritaði fundargerð og stjórnaði fundi), Sævar Finnbogason, og Þorvarður Bergmann.

1. Hlaðvarp Öldu

Skortur á tíma hefur verið fyrirstaða þess að koma hlaðvarpinu úr hlaði. Meiri tími ætti að gefast tveimur vikum eða svo eftir páska, þá er hægt að búa til efni sem yrði tilbúið fyrir haustið. Guðmundur hefur verið að hitta fólk sem gæti mætt í þátt hjá okkur.

Þetta er ein leið til að fjölga félögum í Öldu, vekja athygli á félaginu og almennt vekja athygli á hvernig má stokka upp samfélagsgerðina.

Umræður spunnust um hversu mikilvæg félagsleg þátttaka er í að halda samfélaginu gangandi og virkar sem lím. Björgunarsveitirnar eru dæmi um þetta.

2. Samfélagsbankar — staðan

Guðmundur hefur verið að skrifa efni um samfélagsbanka fyrir vef Öldu, er þetta eins konar efnisbanki um samfélagsbanka í formi spurninga og svara. Svörin byggjast mest á efni frá New Economics Foundation í Bretlandi, en höfuðáherslan er á að skýra hugtakið samfélagsbanki betur, skýra frá hvernig rekstrinum er háttað og hvernig stjórnun samfélagsbanka er háttað, og ábata af þeim fyrir samfélagið. Vinnsla á þessu efni er rúmlega hálfnuð og verður efnið birt á vefnum á næstunni. Byggja má frekari umfjöllun félagsins um samfélagsbanka á þessu efni.

Guðmundur veltir upp að það sé mikilvægt að félagið útbúi efni sem skýrir ábatann fyrir okkar tiltekna samfélag hér á Íslandi af samfélagsbönkum, eitthvað sem líka færir heim hvers vegna samfélagsbankar eru mikilvægir. Eitthvað áþekkt því sem sparisjóðir höfðu eitt sinn á Íslandi, að þjónusta nærsamfélagið. Í þessu samhengi mætti t.d. hugsa sér uppbyggingu húsnæðis. Sævar bendir á að bankar séu ekki jafn staðbundnir lengur, staðbundnir hagsmunir af bönkum séu þannig ekki jafn ríkir lengur. Hann telur vænlegast að leggja einfaldlega áherslu á að bankar eigi ekki að stunda hámarks hagnaðarsókn, heldur að hámarka þjónustu. Þorvarður tekur undir. Mikilvægt sé að almenningi líði eins og hann eigi bankana og að þeir þjónusti fólkið í landinu.

Guðmundur segir að það vanti áætlun um hvernig samfélagsbanki geti orðið að veruleika út frá markmiðinu um hámörkun þjónustu, þar sem fjármögnun sé útfærð, útlistað sé hvernig hann geti starfað, og þá vanti greinargóða rekstraráætlun. Slík áætlun þurfi að taka mið af samfélaginu eins og það er, og þeim bönkum sem séu til staðar. Þorvarður bendir á í þessu samhengi að líklegast sé vænlegast að tala við fólk í Evrópu um þessa hluti. Þó sé í góðu lagi að tala við fólkið sem stýrir íslenskum sparisjóðum í dag um þessa hluti.

***

Frekari umræðum um aðra liði frestað til næsta fundar.

Fleira gerðist ekki. Fundi slitið 13:15.