Málefnahópur um lýðræði í hagkerfinu hefur í vetur unnið að því að koma almennilegri löggjöf um samvinnurekstur inn í íslenskt lagaumhverfi.

Næstkomandi miðvikudag á félagið fund með þinghóp Hreyfingarinnar vegna þessa og er það von félagsins að það sé fyrsta skrefið að lagafrumvarpi um lýðræðisleg fyrirtæki. Fulltrúar félagsins munu afhenda þingmönnum þau gögn er málið varða og málefnahópurinn hefur sett saman eftirfarandi drög.

DRÖG:

Markmið fyrir ný lög um samvinnufélög
Lýðræðisleg fyrirtæki

Alda – félag um sjálfbærni og lýðræði telur lýðræðisvæðingu á sviði efnahagslífsins nauðsynlega. Til að samfélag geti að fullu kallað sig lýðræðisríki má það svið ekki vera undanskilið. Raunverulegt lýðræði felur í sér að allir hafi jafnan rétt og í raun hljóta það að teljast til mann-réttinda að hafa ákvörðunarvald í tilveru sinni. Í lýðræðislega reknu fyrirtæki eða starfsmanna-samvinnufyrirtæki eða -félagi hefur hver meðlimur eitt atkvæði á mann. Meðlimir kjósa sér stjórnendur, stjórn, ákvarða launastefnu, stefnu fyrirtækisins og allt það er þarf að taka ákvörðun um. Hvert fyrirtæki getur verið ólíkt og það þurfa lög og reglur að endurspegla. Þau þurfa að tryggja ákveðinn grunnréttindi, s.s. að meðlimir hafi jafnan atkvæðarétt og -vægi, jöfn tækifæri, gagnsæi og fleira.

Við, einstaklingarnir, sem myndum þetta samfélag erum fullfær um að stjórna okkur sjálf, í samstarfi við aðra sem eru hluti af því með okkur. Við þurfum ekki fjarverandi hluthafa til að efla okkur, atvinnulífið eða hagsæld. Lýðræðislega rekin fyrirtæki setja fólk í forgrunn en ekki fjármagn vegna þess að þeir sem stjórna fyrirtækinu og þeir sem starfa hjá því eru sami hópurinn. Ákvarðanir eru teknar með tilliti til þarfa starfsmanna og til þarfa rekstursins. Í núverandi skipulagi fámennisstjórnar eru ákvarðanir sjaldnast teknar með tilliti til þarfa starfsmanna og oft með skammtímasjónarhorn í huga.

Það er vert að benda á að Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst árið 2012 sem ár samvinnufyrirtækja og hvetja af því tilefni stjórnvöld um allan heim til að styðja við stofnun slíkra fyrirtækja. Það er ekki tilviljun að samvinnufyrirtæki skuli talin góð og að það sé þess vert að hvetja til framgöngu þeirra, heldur sýna rannsóknir fram á að ekki aðeins séu lýðræðislega rekin fyrirtæki betur í stakk búin til að takast á við erfiðleika, heldur einnig að þar er ánægja fólks meiri. Meðlimum lýðræðislega rekinna fyrirtækja líður betur í vinnu og í einkalífi. Alþjóðavinnumálastofnunin (ILO) segir í skýrslu sinni frá 2009 (sjá á www.ilo.org) að samvinnufélög séu líklegri til að standa af sér kreppur og aðrar sveiflur í hagkerfinu og auki við stöðugleika og sjálfbærni hagkerfis.

Lögin þurfa að vera nothæf fyrir fyrirtæki af öllum stærðum og gerðum. Þau þurfa að vera hvetjandi og aðlaðandi kostur fyrir þann er hyggst stofna fyrirtæki. Lögin þurfa að tryggja að umhverfið sé hagstætt og að slík fyrirtæki fái nauðsynlegan stuðning, a.m.k. til að byrja með. Alda leggur til endurskoðun á lögum um samvinnufyrirtæki með eftirfarandi atriði að leiðarljósi. Einnig telur Alda rétt að lagaramminn verði heildarlöggjöf fyrir lýðræðisleg fyrirtæki sem byggi á grundvelli samvinnufyrirtækja.

Alþjóðleg viðmið, lög og rannsóknir

Alþjóðlegu samtökin ICA eða International Cooperative Alliance (www.ica.coop) eru sjálfstætt starfandi regnhlífasamtök fyrir samvinnusamtök (stofnuð 1895). Þau tengjast 249 samvinnusamtökum/fyrirtækjum í 94 löndum. Þau eru fulltrúar fyrir um einn milljarð manna.

ICA vinnur samvinnuhugmyndinni brautargengi, sér m.a. um fræðslu, útgáfustarfsemi og veitir meðlimum sínum aðstoð og stuðning.

Samkvæmt skilgreiningu ICA er samvinnurekstur sjálfstæður og óháður félagsskapur fólks sem vinnur saman af fúsum og frjálsum vilja í þeim tilgangi að ná fram sameiginlegum efnahagslegum, félagslegum og menningarlegum þörfum og málefnum og þeir gera það í gegnum lýðræðislega rekið félag eða fyrirtæki.

Viðmiðin sem þeir setja eru að : Lýðræðislega rekin fyrirtæki starfi á grundvelli sjálfshjálpar, sjálfsábyrgðar, lýðræðis, jafnréttis, jöfnuðar og samstöðu. Í anda samvinnuhreyfinga keppast lýðræðisleg fyrirtæki síðan að því að leggja stund á hreinskilni, gagnsæi, félagslega samábyrgð og umhyggju fyrir öðrum.

Atriði sem ICA benda á að séu mikilvæg varðandi velgengni samvinnufyrirtækja eru Rochdale prinsippin sem eru einskonar leiðsagnarreglur fyrir samvinnufyrirtæki.

Meginreglur samvinnufyrirtækja (Rochdale prinsippin 1844)  http://www.ica.coop/coop/principles.html

  1. Opinn og frjáls aðgangur – Sjálfviljugur, gengur við ábyrgðum, opið öllum sem eru tilbúnir að takast á við skyldur og ábyrgðir lýðr.fyrirtæksins, án tillits til kynferðis, félagslegrar stöðu, þjóðernis, pólitískra eða trúarlegra viðhorfa.
  2. Lýðræðisleg stjórn félagsmanna – Samvinnurekstur er lýðræðisleg stofnun sem er stjórnað af meðlimum sínum, er taka virkan þátt í mótun stefnu og ákvarðanatöku.
  3. Efnahagsleg þátttaka félagsmanna – Félagsmenn leggja jafn mikið fjármagn í reksturinn og stjórna hlutafé þess á lýðræðislegan hátt. Einhver hluti fjármagns er að jafnaði sameign meðlima. Meðlimir fá einungis endurgreitt hluta þess fjár sem lagður er til rekstursins í upphafi þátttöku. Meðlimir ráðstafa tekjuafgangi að einhverju leyti eða öllu leyti í eftirfarandi: í uppbyggingu rekstursins, t.d. varasjóð (sem er að hluta til óafturkræft); í greiðslur og þóknun til meðlima og til að styðja aðra starfsemi sem meðlimir fyrirtækisins hafa samþykkt að styrkja.
  4. Sjálfstæði og sjálfsákvörðunarréttur – Lýðræðisleg fyrirtæki eru óháðar og sjálfstæðar sjálfshjálparstofnanir sem lúta stjórn meðlima sinna. Ef þau gangast undir samninga við aðrar stofnanir, þám. ríkið, eða safna fjár frá utanaðkomandi aðilum, þá gera þau það á þann hátt sem tryggir lýðræðislega stjórn meðlima sinna og svo að þau haldi fullu sjálfstæði og verði áfram óháð.
  5. Menntun, þjálfun og upplýsingar – Lýðræðisleg fyrirtæki sjá meðlimum, kosnum fulltrúum, stjórnendum og starfsmönnum sínum fyrir fræðslu og þjálfun svo þeir geti lagt sitt af mörkum til fyrirtækisins. Þau skulu fræða almenning um kosti lýðræðislega rekinna fyrirtækja.
  6. Samvinna samvinnufyrirtækja – Lýðræðislega rekin fyrirtæki þjóna samvinnuhreyfingunni best með því að vinna með og styðja við önnur lýðræðislega rekin fyrirtæki, hvar svo sem í heiminum þau eru staðsett.
  7. Umhyggja fyrir samfélaginu – Lýðræðislega rekin fyrirtæki vinna að uppbyggingu í samfélaginu á sjálfbæran og mannúðlegan hátt í gegnum stefnumótun samþykkta af  meðlimum.

ICA bendir á bæklinga sem verkfæri við smíði laga um samvinnufyrirtæki. Bæklingarnir eru gefnir út af Overseas Cooperative Development Council (OCDC) sem eru bandarísk samtök sem beita sér í kynningu á samvinnurekstrarforminu. Á þeirra vegum er verkefnið CLARITY eða Cooperative Law and Regulation Initiative.

Bæklingana er hægt að nálgast á vefslóðinni:  http://www.clarity.coop/

 

Þau atriði er mestu skipta í lagaramma fyrir lýðræðisleg fyrirtæki eru, skv. OCDC, eftirfarandi (á við um fyrirtæki á einkamarkaði en ekki um stofnanir á vegum ríkisins – og enduróma Rochdale viðmiðin):

Tryggja þarf lýðræðislega stjórn meðlima: Lögin verða að vernda og tryggja lýðræðislega stjórn meðlima í samvinnufyrirtæki. Það skulu alltaf vera meðlimirnir sjálfir sem stjórna fyrirtækinu.

Tryggja sjálfræði og sjálfstæði: Samvinnufyrirtæki tilheyra einkageiranum. Lögin verða að tryggja sjálfræði og sjálfstæði þeirra frá ríkisstjórn, einstaklingum, eða hverjum öðrum utan meðlima samvinnufyrirtækisins.

Tryggja að aðgangur sé opinn og frjáls: Lögin verða að vernda hinn opna og frjálsa aðgang er felst í samvinnufyrirtækjum. Allar ákvarðanir er varða aðgang skal vera í höndum meðlimanna sjálfra en ekki í höndum ríkis eða bundið í lög.

Fjárhagsleg þátttaka meðlima: Lögin skulu tryggja að meðlimir gangist undir þær ábyrgðir og skyldur er fylgja fyrirtækinu, þ.m.t. þær skyldur að leggja jafnan hlut til í sjóð og stjórna á lýðræðislegan máta öllu fjármagni fyrirtækisins.

Jöfn meðhöndlun: Lögin eiga að styðja samvinnufyrirtæki í sama mæli og önnur fyrirtæki í sama geira, en taka þó tillit til sérstöðu samvinnufyrirtækja. Stjórnsýsla gagnvart samvinnufyrirtækjum skal vera sú sama og fyrir aðrar tegundir fyrirtækja.

Tryggja aðgang að mörkuðum: Regluverk fyrir tilekna markaði ættu að veita sambærileg tækifæri, hvata og stuðning sem gera lýðræðislegum fyrirtækjum kleift að starfa.

Regluverk skal vera samræmt og skilvirkt: Regluverkið þarf að vera einfalt, áreiðanlegt og skilvirkt. Stjórnsýsla þarf að vera eins einföld og kostur er. Það má ekki stangast á við aðra löggjöf og vera í góður samræmi við annað regluverk. Stjórnsýsla fyrir lýðræðisleg fyrirtæki skal framkvæmd af þeim sem hafa viðeigandi fagþekkingu.

Tryggja tilhlýðilega málsmeðferð: Lýðræðisleg fyrirtæki og meðlimir þeirra skulu njóta tilhlýðilegrar málsmeðferðar í samræmi við lög, þar á meðal allra þeirra grunnréttinda sem tryggð eru í réttarríkjum.

Forðast hagsmunaárekstra: Hlutverk ríkisins í eftirfylgni laganna, ágreiningur, úrlausn, leyfisveitingar    og kynningar skulu gerðar á þann hátt sem forðast endurtekningar, utanaðkomandi áhrif og minnkar hagsmunaárekstra.

Alda leggur áherslu á að í lögunum komi skýrt fram að hver meðlimur skuli hafa eitt atkvæði á mann og að það sé ófrávíkjanleg regla.

 

Fleira sem þarf að hugsa um og hafa til hliðsjónar við gerð nýrra laga:

Umbreyting hefðbundinna fyrirtækja yfir í lýðræðisleg fyrirtæki
Ef hefðbundin fyrirtæki kjósa að breyta um fyrirkomulag og verða lýðræðisleg þarf það að vera auðvelt. Ferlið má ekki vera þungt og flókið.

Skráning lýðræðislegra fyrirtækja
Skráning þarf að vera auðveld og skal hún fara fram í sömu stofnun og hefðbundin fyrirtæki eru skráð í. Það er óþarfi að aðgreina samvinnu- og lýðræðisformið frá hefðbundnu. Það á að lúta sömu lögmálum og önnur rekstrarform, enda skal lýðræðisformið talið eðlilegt og ákjósanlegur valkostur fyrir ný fyrirtæki.

Kynning á lögunum og nýjum valmöguleika í rekstri
Alþingi skal kynna rekstrarform lýðræðislegra fyrirtækja og hvetja til þess líkt og Sameinuðu þjóðirnar mælast til. Standa fyrir ábyrgu upplýsingaflæði til almennings og veita stuðning til lýðræðislegra fyrirtækja.

Fjármögnun
Lýðræðisleg fyrirtæki þurfa aðgang að þolinmóðum peningum og hagstæðum lánum til að byrja með. Lífeyrissjóðirnir þurfa að fjárfesta í öruggum langtíma fjárfestingum og lýðræðisleg fyrirtæki henta þar einkar vel. Það er spurning hvort að hægt væri að setja lífeyrissjóðunum reglur varðandi það setja slík fyrirtæki í forgang þegar lán eru veitt.

Sjálfbærni
Í dag eru fáar kröfur gerðar til fyrirtækja og stofnana um að tryggja sjálfbæran rekstur, framleiðslu og neyslu. Rétt er að gera kröfur til allra fyrirtækja og stofnana um að þau séu sjálfbær, enda búum við í heimi takmarkaðra auðlinda. Grunngerð samvinnufélaga gerir ráð fyrir tilteknum markmiðum hvað varðar stuðning við félagsleg málefni en vert er að bætt sé við sjónarmiðum er snúa að umhverfinu. Ýmislegt bendir þó til þess að lýðræðisleg fyrirtæki séu líklegri en hefðbundin til þess að standa sig betur í umhverfismálum.

Breyting á lögum um gjaldþrota – Ef hefðbundið fyrirtæki fer í þrot á það að vera fyrsti valkostur að breyta fyrirtækinu í lýðræðislegt fyrirtæki.

 

Dæmi um lýðræðisleg fyrirtæki:

Mondragon
Er 7. stærsta fyrirtæki Spánar með hátt í 100 þúsund meðlimi og starfsmenn. Það var stofnað árið 1956 og hefur frá upphafi starfað í anda samvinnu, sett fólk í forgang en ekki fjármagn og lagt áherslu á raunverulegt lýðræði með eitt atkvæði á mann. Fyrirtækið skiptist í fjórar aðaldeildir á sviði fjármála, iðnaðar, smásölu og þekkingar. Það framleiðir allt frá smáhlutum í stórvirkar vinnuvélar yfir í þvottavélar og lyftur og er leiðandi í nýsköpun. Mondragón samsteypan er stærsta samvinnufyrirtæki í heiminum í dag.  (http://www.mondragon-corporation.com/language/en-US/ENG.aspx)

Rainbow Grocery
Er matvöruverslun í San Fransisco sem leggur áherslu á lýðræði og sjálfbærni, rækt við meðlimi sína og viðskiptavini.  (http://www.rainbow.coop/) Stofnuð og rekin í sjálfboðavinnu af nokkrum áhugamönnum um bættari næringu en er nú verslun með um 260 starfsmenn.