Málefnafundur – sjálfbærni og lýðræði
Fundur hefst kl. 20:45 og lýkur kl. 22:10

Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson ritaði fundargerð.
Mættir:
Þórarinn Einarsson, Gústav Adolf Bergmann Sigurbjörnsson, Ragna Benedikta Garðarsdóttir, Sara Sigurbjörns Öldudóttir og Snorri Stefánsson.

Efni fundarins:
Ragna Benedikta hélt fyrir okkur fyrirlestur unninn meðal annars upp úr efni í kúrsi sem hún kennir við HÍ sem ber heitið „Neyslusálfræði“, sem fjallar um félagssálfræði efnahagslífsins.

Hér eftir kemur stutt samantekt um efni lestursins:
Hún byrjaði á því að tala um að við búum í samfélagi með ákveðið form, samfélagsmynd sem við auðkennum sem neyslusamfélag, og að það form sé dýnamískt, þ.e.a.s. getur tekið breytingum. Þessi samfélagsmynd er tiltölulega nýtilkomin. Í neyslusamfélögum er sterkt samband milli hluta og auðkennis (e. identity), þ.e.a.s. að fólk tjáir sig og túlkar aðra út frá eignum. Sögulega hefur þetta birst hjá t.d. efnafólki og hástéttum en á eftirstríðsárunum fór að bera á þessum tengslum meðal almennings, ekki síst vegna tilkomu markaðshagkerfis. Fleira kemur þó til, eins og það að fleiri gátu eignast hluti eftir því sem tækni til fjöldaframleiðslu fleygði fram. Þessi þróun varð þó ekki af tilviljun. Ragna vitnaði í Paul Mazer hjá Lehman Brothers sem talaði um það árið 1930 að það þyrfti að þróa bandaríska menningu frá því að vera þarfasamfélag (e. needs) yfir í löngunarsamfélag (e. desire). Tækist það væri hægt að fá fólk til þess að kaupa meira og oftar og halda þannig framleiðslustigi háu og skapa eigendum fyrirtækja gróða. Þróun í auglýsingageiranum á þessu sviði, því sem Ragna kallar „það sést hverjir drekka Egils kristal“-hugsunarhættinum, átti sér stað á millistríðsárunum að stórum hluta fyrir tilstilli Edward Bernays, frænda Sigmund Freud, sem titlaði sig fyrsta PR fulltrúann. Hann nýtti sér hugmyndir til Freud um Id-ið (hið óskynsama „undirsjálf“) til þess að búa til markaðssetningu sem höfðar til tilfinninga og óskynsemi okkar. Fyrir þann tíma voru auglýsingar fyrst og fremst um notagildi og verð. Ragna benti á heimildamyndaseríuna Century of the Self sem ágætis efni um þetta. Auglýsingar fóru eftir þetta að gefa til kynna að fyrir einhverja galdra fengist sálrænn ávinningur af neyslu tiltekins varnings. Þetta, ásamt öðrum þáttum, svo sem stefnumótun sem umbunar fjárhagslega velgengni með lágum sköttum, ýtir undir efnishyggju í samfélaginu.
Ragna sýndi okkur tölfræði úr rannsóknum sem sýna að fylgni milli hamingju og tekna eigi bara við upp að vissu tekjumarki og eftir það breytist hamingja ekki. Þannig sé lítil sem engin fylgni milli hamingju einstaklinga og tekna þeirra í ríkum löndum eins og okkar. Auglýsingar sjá samt til þess að trú á tenginguna sé til staðar í neyslusamfélögum. Algengasti mælikvarðinn á hamingju er svokölluð huglæg vellíðan (e. subjective well-being) sem mælir bæði hugræna og tilfinningalega þætti.
Efnishyggja er undirliggjandi gildi í neyslusamfélögum. Ragna talaði um þrjá mælikvarða sem hún notar til að greina hana. Mest notar hún mælikvarða Richins og Dawson sem skilgreina og mæla efnishyggju sem gildismat. Tækið mælir þrjá þætti, 1) að peningar og hlutir séu taldir færa hamingju, 2) séu til marks um velgengni og 3) séu þungamiðjan í lífi fólks. Annar mælikvarðinn er fenginn frá Kasser og Ryan en þeir skilgreina efnishyggju sem sterk fjárhagsleg markmið sem stangast á við innri markmið. Loks notar hún mælikvarða sem hún þróaði sjálf út frá skilgreiningu á efnishyggju sem mismunandi óraunhæfa hvata /ástæður að baki löngunum og sókn fólks í peninga.
Fjöldi rannsókna sýna fram á sterka fylgni milli efnishyggju og óhamingju. Ragna upplýsti okkur einnig um að BA nemar hjá henni ætla að reyna að gera tilraunir til þess að leggja mat á hvert orsakasamhengi efnishyggju og óhamingju er. Efnishyggja hefur einnig fylgni við andfélagslega hegðun, slæma fjárhagshegðun og minni umhverfisvitund. Fáar rannsóknir hafa þó verið gerðar á tengslum efnishyggju og viðhorfa til umhverfisins til þessa.
Sem skýringu á þessum tengslum fjallaði Ragna um Sjálfsákvörðunarkenningu (e. Self Determination Theory) Ryan og Deci. Samkvæmt kenningunni eru þrjár eðlislægar sálfræðilegar þarfir fólks sem þarf að uppfylla til þess að öðlast hamingju; hæfni , sjálfræði og sambönd. Sum markmið hjálpa fólki við að uppfylla þessar þarfir en önnur síður, svo sem fjárhagsleg markmið. Hún sýndi okkur svo nokkrar glærur sem byggðu á fjölda rannsókna um gildismat og svo virðist sem ýmis gildi séu andstæð. Það er að segja ef fólk heldur ákveðin gildi þá eru það mjög líkleg til þess að hafna öðrum. Þannig hafna þeir sem aðhyllast gildi um árangur (e. achievement) og vald (e. power) gildum eins og algildishyggju (e. universalism) og velvild (e. benevolence).
Ragna fjallaði síðan um sína eigin rannsóknir sem snúa að því hvernig og hvort hægt sé að breyta gildum, hver áhrif þessara gilda eru á líðan, fjárhag og umhverfishegðun og hvernig breyting á gildum hefur áhrif á þessa þætti. Hún hefur rannsakað samband milli efnishyggju og umhverfisviðhorfa, mannhverfni og undanþáguhugmynda um manninn (e. exceptionalism), þ.e. að maðurinn hafi einhverja sérstaka stöðu í náttúrunni.
Ragna benti á að breyting gilda gerist hægt, en stærstu áhrifaþættirnir eru stjórnkerfi, aktivísimi, áföll og fræðsla. Hún benti þar á að neytendafræðsla þarf að breytast og fjalla um meira heldur en bara fjármálalæsi. Hún þyrfti t.d. að veita skilning á hringrás neysluvarnings (neyslulæsi) og meðvitund um auglýsingar, t.a.m. hvað varðar markmið markaðsetningar og tölvubreytt fólk sem getur vakið upp bjagaða líkamsímynd.

Að loknum fyrirlestrinum voru stuttar umræður:
Sara minntist á fyrirlestur Huldu Þórisdóttur hjá HÍ þar sem hún talaði um að vinstri menn væru almennt óhamingjusamari en hægri menn og að hamingjuaukning hafi orðið hjá þeim vinstri sinnuðu eftir hrun. Sara velti því fyrir sér hvort það væri ekki vegna hins kapítalíska umhverfis. Ragna Benedikta benti líka á að tengsl eru milli þátttöku í félagslífi og hamingju. Einnig benti hún á að í samfélagi þar sem mikil áhersla er á samkeppni til þess að komast í betri samfélagsstöðu er það fólk betur sett sem er tilbúnara til þess að horfa aðeins á eiginhagsmuni sína. Hún fjallaði um það hvernig fólk sem kemst langt á Wall Street skorar yfirleitt hátt á siðblindukvörðum (e. psychopath). Þórarinn minntist þá á myndina The Corporation þar sem horft er á athafnir fyrirtækja sem hegðanir einstaklings, þau sálgreind og dæmd sem siðblind.
Sara talaði svo um að það væri hlutverk Öldu að hafa áhrif á gildismatið, í aktivisma, stefnumótun og fræðslu.
Ragna talaði um Skuggaborg sem einn mögulegan lykil að slíku. Hún hafi sent inn tillögu að því að bjóða upp á endurvinnslutunnur á heimilum og að það muni koma í gegn nú við nýlegar breytingar á sorphirðutilhögun í Reykjavík. Snorri benti á að það gæti verið tilviljun, en Ragna svaraði að það væru þó mikil líkindi milli tillögu hennar og þeirrar útkomu sem er að koma núna. Næsta skref væri svo að hætta að flytja endurvinnanlegan úrgang til Svíþjóðar.

Gústi lagði til að verkefni næsta fundar væri að vinna, eftir tillögum Kristins frá stjórnafundinum síðastliðinn þriðjudag, í átt að skjali sem málefnahópurinn geti birt sem stefnu Öldu hvað varðar sjálfbært hagkerfi. Vel var tekið í það.

Ákveðið var að næsti fundur yrði haldinn að tveimur vikum liðnum, þann 21. janúar kl 20:30.

Fundi slitið klukkan 22:10