Á stjórnarfundi í Öldunni þann 19. apríl s.l. voru kynnt drög málefnahópa að stefnu félagsins í lýðræðismálum. Drögin sem voru kynnt voru samþykkt á fundinum og eru því hluti af formlegri stefnu félagsins á þeim sviðum. Einnig var rætt um málfund um lýðræðisvæðingu stjórnmálanna sem félagið heldur 30. apríl n.k og fleira skemmtilegt.
Mætt voru: Sigríður Guðmarsdóttir, Guðrún Ásta, Björn Þorsteinsson, Halldóra Ísleifsdóttir, Kristinn Már (sem ritaði fundargerð og stýrði fundi), Hulda, Íris Ellenberger og Guðmundur Hörður.
1. Lýðræðislegt hagkerfi – Stefna
Björn kynnti drög að stefnu sem unnin var í málefnahópi um lýðræðislegt hagkerfi. Stefnan byggir á JL-punktunum svokölluðu sem unnir voru fyrir undirbúningsfund að stofnun félagsins á fyrri hluta árs 2010. Grunnhugmyndin er að leikreglur lýðræðisins þurfi að ná til allra sviða samfélagsins, þar á meðal atvinnulífsins og hagkerfisins. Björn sagði frá vinnu hópsins sem hefur gengið vel og ljóst að mikil vinna er framundan hvað varðar samvinnufélögin. Björn nefndi mikilvægi þess að sjálfbærni sé tengd inn í þessar hugmyndir og að það hafi verið gert. Vangaveltur hafi verið uppi um hvað eigi að kalla leiguskattinn, leiguskatt eða aðstöðugjald. Rætt var um félagslaunahugmyndina í hópnum en ákveðið að setja þá ekki inn í stefnuna að svo stöddu, þær hugmyndir kalli á frekari umræðu.
Sigríður lagði til að kæmi inn setning um nauðsyn gagnsæis hvað varðar stjórnarhætti og bætti Björn þar setningu þess efnis.
Kristinn Már lagði til að félagið hefði þá stefnu skýra að vinnutími sé of langur og var það samþykkt.
2. Lýðræðisvæðum stjórnmálin – Stefna
Kristinn Már kynnti drög að stefnu sem unnin var í málefnahópi um lýðræðisvæðingu stjórnmálanna. Drögin byggja á tillögum félagsins til stjórnlagaráðs að breytingum á stjórnarskránni sem unnar voru fyrr á árinu.
Sigríður lagði til hömlur á auglýsingum fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Skylda á því að gefa upp hverjir standa að fjármögnun auglýsinga. Sömu takmörk fyrir þrýstihópa.
Nokkrar umræður voru um slembival og samfélagsskyldu í þeim efnum.
Sigríður velti upp orðalagi um hópa og þátttöku í ákvarðanatöku og ákveðið var að breyta þar orðalagi til þess að skýra betur markmið.
Rætt var um kjördæmaskipan og atkvæðavægi. Greint var frá því að í því tilviki stönguðust á tvö mikilvæg lýðræðissjónarmið, annars vegar að tryggja aðkomu sem flestra þjóðfélagshópa og hins vegar jafnt atkvæðavægi. Þetta hafi verið rætt fram og tilbaka og á endanum vegið þyngra að tryggja aðkomu eftir búsetu en á sama tíma reyna að nálgast sem mest og unnt er jafnt atkvæðavægi. Björn velti því upp að kjördæmaskipanin eins og lagt er upp með í stefnu félagsins falli vel að því að náttúran eigi sé málsvara, í því sambandi skipti kjördæmi og stærð þeirra máli.
_ _ _ _ _ _
Bæði drögin sem rædd voru á fundinum hafa verið samþykkt og því hluti af formlegri stefnu félagsins sem málefnahóparnir taka nú til við að kynna og þrýsta á breytingar.
3. Önnur mál
Rætt um stofnun Samfélagsbankans, mikill áhugi en fólk átti erfitt með að finna upplýsingar um bankann. Íris sagði að einhverjar upplýsingar væri að finna á Facebook síðu Öldunnar, meðal annars hlekki í viðtöl og fleira.
Rætt var um fjölmiðlalög og upplýsingalög og höfðu fundarmenn nokkrar áhyggjur af þessum lögum. Frekari umræðum var vísað til næsta fundar svo fólki gefist betra færi á að kynna sér málin nánar.
Kristinn sagði frá fyrirætlun málefnahóps um lýðræðisvæðingu stjórnmálanna að halda málfund til kynningar á tillögum Öldunnar til stjórnlagaráðs. Stefnt er að því að sá fundur verði 30. apríl næstkomandi og undirbúningur kominn vel á veg.
KMÁ kynnti vinnu lýðræðisvæðingu stjórnmálanna, sjá nánari upplýsingar í fundargerð þess hóps.
KMÁ kynnti stöðu mála um samskipti Öldunnar við allsherjarnefnd og er að vænta upplýsinga um það á vefsvæði félagsins bráðlega.
Sigríður vill fá fólk í haust til þess að ræða við okkur um baráttuna í arabaheiminum. Sveinn Guðmarsson væri örugglega til í að koma og tala við okkur. Fólk sem hefur innsýn inn í Lýbíu, Jemen og fleiri staði. Voru fundarmenn sammála um mikilvægi þess.
Kristinn Már sleit fundi 22:10.