Hagkerfið sem við rekum er í senn ósjálfbært og ómannvænt. 

Hagkerfið er gírað til að auka í sífellu framleiðslu og veitingu þjónustu – auka hagvöxt – í nafni aukinna lífsgæða, en löngu er búið að sýna fram á að í ríkum vestrænum ríkjum eykur það ekki lífsgæði. Þá er ljóst að stór hluti auðsins sem hagvöxtur myndar rennur til þröngs hóps fólks.

Þá setjum við hagkerfinu engin markmið um aukningu beinna lífsgæða, svo sem í formi styttri vinnutíma, aukins jöfnuðar eða um bankastarfsemi í þágu almennings – jafnvel þótt slíkt væri bæði æskilegt og gerlegt í ljósi efnahagslegrar velsældar. Markaðshagkerfi eru almennt mótanleg og móttækileg fyrir breytingum.

Sífelldur hagvöxtur gengur á jörðina og auðlindir hennar, líkt og við ættum margar jarðir. Haldi ofnýting auðlinda áfram verða náttúruhamfarir ekki umflúnar. Mörg af þeim vandamálum sem blasa við í samtímanum stafa af því hvernig við rekum hagkerfin okkar. 

Stefna Öldu felur í sér hnitmiðaðar breytingar á hagkerfinu sem myndu hafa jákvæð áhrif á umhverfið og lífsgæði okkar.

Samfélagsbankar

Huga ber að stofnun samfélagsbanka á Íslandi, sem geta veitt trausta, alhliða fjármálaþjónustu fyrir almenning með ábyrgð, lágmörkun þjónustutekna og stöðugleika að leiðarljósi. Slíkir bankar þekkjast meðal annars í Þýskalandi og teljast traustir, þeir gengu til að mynda ekki í gegnum erfiðleika í efnahagsöngþveitinu sem dundi yfir heiminn 2008-2010. Slíkir bankar ættu með tímanum að leysa af hólmi banka sem eru reknir með hámörkun hagnaðar að leiðarljósi.

Fjögurra daga vinnuvika

Alda vill fjögurra daga vinnuviku. Rannsóknir sýna að fólk sem vinnur skemmri vinnuviku nýtur betra jafnvægis milli vinnu og einkalífs, líður almennt betur og er ánægðara með lífið, auk þess sem lífstíll þess hefur minni neikvæð áhrif á umhverfið. Skemmri vinnuvika ýtir líka undir aukna framleiðni starfsfólks. Félagið vill að aukin framleiðni vegna tækniframfara sé varið til að stytta vinnutímann. 

Velferðarkerfi og jöfnuður

Alda stendur fyrir öflugt velferðarkerfi með jöfnum aðgangi að menntun, heilbrigðisþjónustu og lífeyri. Bankakerfið eigi að hafa það grundvallarmarkmið að skapa atvinnu, ríkisvaldið ræður fólk til að halda uppi öflugu velferðarkerfi og styrkja innviði samfélagsins. Fyrirtæki og ríkið vinna saman að öflugu, mannvænu samfélagi og lífsgæðaaukandi hagkerfi.

Félagið telur einsýnt að aukinn efnahagslegur jöfnuður sé nauðsynlegur til að styðja ofangreind markmið.

Sjálfbærni

Framleiðsla og neysla verður að vera sjálfbær, að öðrum kosti er einungis tímaspursmál hvenær auðlindir jarðar ganga til þurrðar og mikilvæg vistkerfi hrynja. Eilífur hagvöxtur í heimi takmarkaðra auðlinda er ómögulegur og krafan um hagvöxt verður að víkja. Öflug umhverfisvottun vöru þarf að vera  skilyrði fyrir framleiðslu.

Markaðurinn áfram

Alda sér fyrir sér að markaðir fyrir vörur og þjónustu verði til áfram líkt og hingað til. Markaðurinn þjónar þeim tilgangi að miðla upplýsingum um framboð og eftirspurn svo fyrirtækin geti tekið skynsamlegar ákvarðanir um framleiðslu. Samkeppnin byggi ekki lengur á því að komast í einokunarstöðu heldur á skynsamlegri framleiðslu. Fyrirtæki hafi samfélagsleg markmið, svo sem um hóflegan (skemmri) vinnutíma og sjálfbærni náttúrunnar að markmiði.

Félagið telur aukið lýðræði í hagkerfinu lykilatriði til að ná ofangreindum markmiðum.

Útgefið efni um hagkerfið

Heildarsafn má nálgast á efnissíðu.

Útgefið efni um sjálfbærni

Frekara efni ná nálgast á efnissíðu.