Ályktun samþykkt á stjórnarfundi Öldu 1. maí 2012

Alda – félag um sjálfbærni og lýðræði telur rétt að líta til þróunar mála frá hruni.

Nokkur veigamikil atriði komu berlega í ljós við efnahagshrunið haustið 2008:

  1. Stjórnvöld höfðu verið í slagtogi með stórfyrirtækjum og sett upp blekkingarleik ætlaðan almenningi.
  2. Fulltrúar almennings vanræktu þá skyldu sína að gæta hagsmuna umbjóðenda sinna. Til dæmis héldu þeir því fram að núverandi fjármálakerfi sé þannig gert að ekki megi ræða opinskátt um blikur á lofti því þá séu yfirgnæfandi líkur á því að það hrynji. Ekki megi hrófla við spilaborginni – eða svo mikið sem anda á hana.
  3. Hagsmunatengsl fulltrúa almennings við fjármagn og fyrirtæki gegnsýrðu alla ákvarðanatöku stjórnvalda. Í því sambandi má minna á hversu hátt hlutfall allra tillagna Viðskiptaráðs voru teknar upp af stjórnvöldum á árunum fyrir hrun (um 90%).
  4. Fjármálakerfi heimsins er meingallað og má í því sambandi nefna innbyrðis tengsl, viðskipti með fjármagn sem fjármagn og ýmsa flókna fjármálagerninga og stórkostlegar kaupaukagreiðslur.
  5. Vald hefur þjappast á hendur fárra aðila á sviði stjórnmála og efnahagslífs sem hafa þar að auki sterk innbyrðis tengsl.
  6. Afleiðingar ákvarðana á efnahagssviðinu lenda fyrst og fremst á almenningi sem ber byrðarnar. Stórkostlegur einkavæddur gróði situr eftir í höndum fjármagnseigenda en almenningur ber tapið.

Ýmis önnur atriði hafa komið upp á yfirborðið í kjölfar hrunsins, m.a. vegna hugarfarsbreytingar almennings:

  1. Almenningur er nærri því valdalaus, bæði á sviði stjórnmála og efnahagslífs, þrátt fyrir að búa við lýðræði að nafninu til.
  2. Það stefnir í hrun vistkerfa heimsins með áframhaldandi ofnýtingu mannsins á auðlindum jarðar. Ósnortnum náttúruperlum hefur verið fórnað fyrir ofuráherslu á aukna framleiðslu og neyslu.
  3. Efnahagskerfið skilar ekki lengur lífsgæðaaukningu meðal almennings og hefur brugðist hvað það varðar að stytta vinnutíma, auka jöfnuð og efla samfélagsleg gæði.
  4. Stofnanir sem áttu að gæta hagsmuna almennings létu það ógert. Má þar nefna fjölmiðla og eftirlitsstofnanir.

Hávær krafa hefur verið á lofti um að brugðist sé við ofangreindum atriðum og kallað er eftir nýju kerfi á sviði stjórnmála og efnahagslífs sem tekur mið af þörfum heildarinnar, 99% í stað 1%.

Í því ljósi lýsir Alda yfir vonbrigðum og vantrausti á stjórnmálaelítuna sem hefur brugðist nær fullkomlega:

  1. Engar kerfisbreytingar hafa verið gerðar á fjármálakerfinu. Nákvæmlega sama kerfi er við lýði og hrundi haustið 2008.
  2. Örlítið hertari reglur hafa verið settar um hagsmunatengsl en þær nægja engan veginn til að girða fyrir slík tengsl.
  3. Engin skref hafa verið tekin í átt að því að dreifa valdi á sviði efnahagslífsins og einungis hænuskref á sviði stjórnmálanna. Stórkostleg tækifæri til að færa fyrirtæki í hendur starfsmanna samhliða endurskipulagningu og gjaldþrotameðferð hafa glatast.
  4. Ekkert hefur verið gert í því að sækja einkavæddan gróða til þess að greiða fyrir þjóðnýtta tapið í kjölfar hrunsins. Engar breytingar hafa verið gerðar til þess að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig.
  5. Ekkert hefur verið gert til þess að draga úr vistspori og álagi á umhverfið annað en hænuskref og viljayfirlýsingar um grænt hagkerfi. Öll megináhersla stjórnvalda og efnahagslífs er eftir sem áður á aukinn hagvöxt og meiri neyslu. Ekki er að sjá nokkuð sem bendir til þess að sjálfbært samfélag sé á næsta leiti.
  6. Ekkert hefur verið gert til þess að breyta áherslum efnahagskerfisins þannig að það skili bættum lífsgæðum. Frekari aukning á neyslu og kaupmætti er ekki líkleg til að auka raunveruleg lífsgæði samanborið við úrræði á borð við styttingu vinnutíma, aukinn jöfnuð, bætt umhverfisgæði og sterkari félagsleg tengsl. Við þurfum minna drasl og meiri tíma með vinum og fjölskyldu.
  7. Lítið hefur farið fyrir endurskoðun á skipulagi, skyldum og starfsemi fjölmiðla og eftirlitsstofnana af hálfu stjórnvalda.
  8. Fylgja þarf eftir stórum orðum um lýðræðislegt uppeldi í námskrám leik-, grunn- og framhaldsskóla. Kenna þarf þeim sem erfa skulu landið að taka virkan þátt í raunverulegu lýðræðisþjóðfélagi og ástunda gagnrýna sýn á neyslusamfélagið. Almenningur hlýtur litla sem enga þjálfun í þátttökulýðræði í skólum landsins.

Stjórnmálaflokkar hérlendis sem erlendis þurfa að axla þá ábyrgð sem þeim ber og taka alvarlega þau brýnu úrlausnarefni sem við stöndum frammi fyrir. Alda telur að ekki verði lengur undan því vikist að ráðast í gagngerar þjóðfélagsbreytingar sem feli í sér að lýðræðið verði í reynd að því sem alltaf stóð til það að það yrði: stjórnarfar þar sem valdið er í höndum almennings og almannahagur og hagsmunir komandi kynslóða eru hafðir að leiðarljósi.

Alda hefur sent frá sér fjölmargar tillögur að breytingum og fleiri er að vænta á næstunni.

2 Thoughts to “Ályktun 1. maí”

  1. Eva G. Þorvaldsdóttir

    Hef ekki tekið virkan þátt en nýt þess að fylgjast með ykkur.
    Frá einum úr þögla meirihlutanum, Eva.

    1. Alda

      Takk Eva 🙂
      – baráttukveðjur til þín 🙂

Comments are closed.