Lýðræðisfélagið Alda telur mjög brýnt að stjórnlagaþing verði haldið og að það verði skipað fulltrúum almennings. Undanfarna áratugi hafa menn reynt ýmsar nýjar leiðir til þess að auka lýðræði. Meðal þeirra má nefna persónukjör og borgarþing eins og stjórnlagaþingið er dæmi um. Lýðræðisfélagið fagnar því að hér séu loksins tekin skref í átt að auknu lýðræði.
Stjórnvöld hafa lýst því yfir að finna verði leiðir til að halda stjórnlagaþingið en að hugsanlega verði kosningin ekki endurtekin. Lýðræðisfélagið minnir á að margar hagkvæmar, einfaldar og lýðræðislegar leiðir eru færar til þess að velja fulltrúa almennings sem ekki hafa verið nýttar sem skyldi í ríkjum sem kenna sig við lýðræði. Má þar nefna að í Bresku Kólumbíu var haldið stjórnlagaþing um kosningalöggjöf þar sem fulltrúar voru valdir með slembivali úr þjóðskrá og heppnaðist vel. Lýðræðisfélagið leggur til að slembival verði notað, verði fallið frá endurekningu á kosningum til stjórnlagaþings.
Jafnframt er nauðsynlegt að fram fari víðtæk opinber umræða um störf þingsins og breytingar á stjórnarskránni. Ríkisútvarpinu ber að sinna fræðsluhlutverki sínu hvað það varðar með myndarlegri hætti en hingað til.
Stjórn Lýðræðisfélagsins Öldu,
2. febrúar 2011
[…] haldið áfram frá því 1. febrúar. Á þeim fundi var ályktun vegna dóms hæstaréttar um stjórnlagaþing […]