Stjórnlagaþingshópurinn hefur lokið við drög að tillögum til stjórnlagaþingsins og verða þau rædd á stjórnarfundi í kvöld (1. febrúar í Hugmyndahúsinu kl. 20:30). Meðal þess sem hópurinn leggur til eru breytingar á kosningum til Alþingis með innleiðingu á persónukjör og slembivali, heimild til að framselja vald frá Alþingi til borgaraþinga, bein kosning ráðherra með forvali, dómarar valdir með hlutkesti svo eitthvað sé nefnt.

Tillögur stjórnlagaþingshóps

Forseti
Alþingi kýs forseta og varaforseta úr röðum ráðherra einu sinni á ári. Enginn má sitja sem forseti lengur en eitt ár í einu. Forseti stýrir ríkisstjórnarfundum og kemur fram fyrir Íslands hönd við hátíðleg tækifæri. Hann hefur engin völd umfram aðra ráðherra og sinnir ráðherraembætti sínu á meðan hann er forseti.

Kosningakerfi (31. grein)
Á Alþingi eiga sæti 42 þjóðkjörnir þingmenn og 21 sem valdir eru með slembivali úr röðum allra íslenskra ríkisborgara á aldrinum 18-70 ára. Þjóðkjörnir þingmenn eru kosnir leynilegri hlutbundinni kosningu. Helmingur þeirra skal valinn með persónukjöri og aðrir með listakosningu. Nota skal Single Transferrable Vote-kerfi. Kjósandi getur valið frambjóðendur af mismunandi listum. Slembival fer fram þegar úrslit kosninga liggja fyrir. Sé aldurs- og kynjadreifing ójöfn skal það leiðrétta það með slembivalsfulltrúum. Aðeins má muna einum á fjölda þingmanna af hvoru kyni. Þingmenn eru þjóðkjörnir og ekki fulltrúar síns kjördæmis, heldur þingmenn þjóðarinnar allrar.

Hópurinn klofnaði í umræðum um þegnskyldu slembivalsfulltrúa til að sitja á þingi. Þrjár leiðir: a) Þegnskylda, b) Ekki þegnskylda, c) Ekki þegnskylda en gætt verði að því að tiltekinn fjöldi slembivalsfulltrúa komi úr hópum með litla menntun og/eða lágar tekjur.

Kjördæmi
Kjördæmaskipan skal háð fjölda og landfræðilegri stærð og fylgja þannig breytingum í byggðaþróun. Kjördæmi mega ekki fara umfram tiltekinn íbúafjölda eða tiltekna landfræðilega stærð.

Fjöldi kjörtímabila
Hámarksseta einstaklings í kjörin eða slembivalin embætti eru tvö kjörtímabil (átta ár). Hver einstaklingur getur aðeins verið valinn einu sinni slembivali.

Opið lýðræði (57. grein)
Fundir Alþingis og allir fundir hins opinbera skulu ávallt haldnir í heyranda hljóði. Allar upplýsingar og fundargögn skulu vera aðgengileg almenningi með skilvirku móti. Öll opinber gögn skulu aðgengileg og engar reglur gilda sem leyfa frávik frá þeirri reglu. Almenningi er heimilt að ávarpa Alþingi reglulega, t.d. á tilteknum tíma í viku hverri.

Ráðherrar
Kosið er um ráðherra almennri kosningu samhliða kosningum til Alþingis. Kosið er milli fjögurra umsækjenda, tveggja kvenna og tveggja karla, um hvert ráðherraembætti sem valdir eru af nefnd. Í nefndinni sitja sjö kjörgengir borgarar valdir með slembivali. Nefndin ræður sér starfsmann. Starfsmaður hefur ekki atkvæðisrétt. Ráðuneytum er skylt að vera nefndum innan handar með upplýsingar og aðstoð. Hlutfall ráðherra af hvoru kyni skal vera jafnt. Reynist kynjahlutfallið ójafnt skal það leiðrétt með því að varpa hlutkesti sem ákvarðar í hvaða ráðuneyti/um ráða skuli atkvæðahæsta umsækjandann af því kyni sem hallar á.

Dómendur
Settar skulu reglur um hæfni þeirra sem sækja um dómarastöðu. Innanríkisráðuneyti gengur úr skugga um að umsækjendur uppfylli skilyrði sem kveðið er á um í lögum. Valið er á milli hæfra umsækjenda með teningakasti. Aðeins má muna einum á milli kynja.

Breytingar á stjórnarskrá
Stjórnlagaþing skal haldið á 20 ára fresti. Mögulegt að boða til stjórnlagaþings af tilteknum fjölda kjósenda (8-16%). Stjórnlagaþing valið með slembivali og einnig heimild að hluti fulltrúa sé valinn með persónukjöri. Niðurstöður stjórnlagaþings lagðar fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Einfaldur meirihluti ræður.

Fyrirtæki (72. grein)
Fyrirtæki með fimm starfsmenn eða fleiri lúti lýðræðislegri stjórn þeirra sem hjá þeim starfa: Hver starfsmaður hafi eitt atkvæði. Starfsmenn reka fyrirtækið í sameiningu, ákvarða stefnu þess og skipulag.

Borgaraþing
Löggjafarvaldinu er heimilt að framselja vald sitt að hluta til borgaraþinga sem mönnuð eru öðrum en Alþingismönnum og valdir með hlutbundinni kosningu eða slembivali. Þriðjungur þingmanna og 8% atkvæðisbærra manna geta krafist borgaraþinga um brýn málefni.

Þjóðaratkvæðagreiðslur
Þriðjungur þingmanna eða 8% atkvæðisbærra manna geta krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvörp sem lögð eru fram af þingfulltrúum og almenningi.

Fjármál stjórnmálaflokka
a) Stjórnmálasamtökum, sem beint eða óbeint bjóða fram í kosningum til Alþingis eða sveitarstjórna, er heimilt að taka við fjárhagslegum stuðningi frá öðrum en lögaðilum og félagasamtökum. Stuðningur hins opinbera skal felast í öðru en beinum fjárframlögum.

b) Fjárhagslegur stuðningur við stjórnmálasamtök, sem beint eða óbeint bjóða fram í kosningum til Alþingis eða sveitarstjórna, er heimill upp að tiltekinni hóflegri heildarfjárhæð. Sama á við um framlag frá hverjum einstökum stuðningsmanni.

c) Frambjóðendum í alþingiskosningum og í kosningum til sveitarstjórna skal heimilt að taka við fjárhagslegum stuðningi frá öðrum en lögaðilum og félagasamtökum. Þeim skal heimilt að eyða tiltekinni hámarksfjárhæð í kosningabaráttu.

d) Fjárframlög til stjórnmálasamtaka og frambjóðenda í kosningum til Alþingis og sveitarstjórna skulu ávallt opin almenningi til skoðunar og háð opinberu eftirliti.

Aðgengi að fjölmiðlum
a) Framboðum í alþingiskosningum skal tryggður jafn, nákvæmlega tilgreindur og víðtækur aðgangur að útvarpi og sjónvarpi, og öðrum áhrifaríkustu fjölmiðlum hverju sinni, til þess að kynna stefnumál sín. Sama gildir um framboð og kosningar til sveitarstjórna í fjölmennustu sveitarfélögum landsins.

b) Framboðum í alþingiskosningum og í kosningum til sveitarstjórna skal heimilt að ráðstafa tiltekinni hámarksfjárhæð í pólitískar auglýsingar í kosningabaráttu, það er á tilteknu tímabili í aðdraganda kosninga.

Greinargerðir verða unnar nánar í framhaldi ákvörðunar stjórnar en drög að þeim má finna hér: http://lydraedi.wordpress.com/2011/01/29/fundur-og-tillogur-stjornlagathingshops/

Fundargerð stjórnlagaþingshóps 31. janúar 2011

Mættir: Kristinn Már, Íris, Hjörtur og Hjalti.

Kristinn Már ritaði fundargerð og stýrði fundi.

Engar breytingar á forsetaákvæðinu.

Kjördæmaskipan rædd. Umræða um hvort ekki þurfi að vera hægt að breyta kjördæmum með einfaldari hætti. Kjördæmi miðist út frá íbúafjölda og stærð hvað varðar flatarmál. Finna viðmiðin.
Þegnskyldan til að sitja á þingi. Rætt um frelsissjónarmið og kerfisbundið óréttlæti. Hugmynd um að tengja inn minnihlutahópaviðmið, tekjur og menntun.

Breytingar á stjórnarskrá. Stjórnlagaþing á 20 ára fresti. Mögulegt að boða til stjórnlagaþings af tilteknum fjölda kjósenda – spurning um fjölda undirskrifta 8-16%. Stjórnlagaþing valið með slembivali og einnig heimild að hluti fulltrúa sé valinn með persónukjöri. Niðurstöður stjórnlagaþings lagðar fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Einfaldur meirihluti ræður.

Hámarka fjölda kjörtímabila. Tvö kjörtímabil hámark í kjörin eða slembivalin embætti. (Þrjú á þingi.) Slembivalsfulltrúar aðeins valdir einu sinni.

Hver tillaga er stök tillaga frá félaginu. Hópurinn sammála um að hver og ein tillaga frá félaginu skuli send inn sem stök tillaga en þær ekki sendar saman í einum pakka. Greinargerð með hverri tillögu.

Tillögur afgreiddar frá hópnum til stjórnarfundar 1. febrúar.

Fundi slitið kl. 22.00.