20130412_114120
Frá nemendaþinginu

Þann 12. apríl síðastliðinn settu starfsmenn Borgarholtsskóla saman nemendaþing þar sem nemendur ræddu eigin hugmyndir um það sem betur mætti fara innan kennslustunda, innan skólans í heild og hvað varðar félagslífið. Hundrað nemendum af öllum sviðum skólans var boðið og hátt í sjötíu sóttu þingið. Nemendum var skipt niður í 8 hópa með einum kennara innanborðs sem hafði það hlutverk að aðstoða við umræðuferlið. Hver hópur valdi sín á milli umræðustjóra og ritara. Markmið verkefnisins var að fá nemendur til að ræða sín á milli hugmyndir að breytingum innan skólans, mögulegar lausnir og kynna síðan í lok þingsins eina hugmynd, sem þeim þótti mikilvægust, fyrir hinum hópunum. Það sem einkenndi hugmyndir nemenda voru ekki sérhagsmunir þeirra heldur voru velferð, hollusta, öryggi og námsfyrirkomulag allra efst á baugi. Sem dæmi um það sem kom fram þá nefndu nemendur að starfsbrautin væri staðsett á 2. hæð skólans fyrir miðju og ef skyldi kvikna í þá myndi aðgengi þeirra nemenda takmarkast mikið þar sem lyftur væru sjálfkrafa óvirkar. Annað dæmi er stytting kennslustunda sem er málefni sem margir kennarar myndu taka undir með. Hér má nálgast frétt af vef Borgarholtsskóla um þingið.

Nú víkur sögunni til Eyrarbakka þar sem Alda heimsótti Barnaskólann á Eyrarbakka og Stokkseyri. Var Öldu boðið að hitta bæjarstjórn Barnabæjar sem samanstendur af nemendum á 6. til 9. bekkjar. Þar kynnti Birgir Smári Ársælsson, fulltrúi Öldu, möguleika lýðræðis innan sem utan skólakerfisins. Nemendum þótti hin ýmsum form lýðræðisins framandi en voru áhugasöm þegar þau voru kynnt fyrir opnara námsfyrirkomulagi og aukinni þátttöku þeirra líkt og má finna í Sudbury Valley.

Eins og greinarhöfundur upplifði þessar heimsóknir þá er áhugi hjá nemendum að auka vægi sitt innan skólakerfisins og vilji til víðtækari þátttöku. Tækfærin eru því miður fá og hindranirnar eru víða innbyggðar í skólakerfinu. Framtak sem þetta ætti ekki að vera með einsdæmum heldur að vera hluti af hinu almenna ferli. Þeir sem eru ekki byrjaðir á nemendaþingum eru að dragast aftur úr. Nemendur eru hagsmunaaðilar menntakerfisins og það er í hag samfélagsins að nemendur upplifi sig sem virkir þátttakendur í sínu námi fremur en óvirkir áhorfendur.

Hér fyrir neðan er myndband þar sem Ken Robinson ræðir möguleika menntakerfisins og að við þurfum að búa til kjöraðstæður til að sjá nemendur og kennara blómstra.

– Birgir Smári Ársælsson.