Félagið hefur sent Stjórnlagaráði umsögn um nokkrar framkomnar tillögur ráðsins til breytinga á stjórnarskránni. 

Félagið vill koma eftirfarandi á framfæri við Stjórnlagaráð

1. Tillaga Stjórnlagaráðs, gr. 5 um Dómsvald, um að forseti Íslands skipi dómara að fenginni tillögu eða mati nefndar sem Alþingi skipar (lögskipaðrar) samræmist ekki sjónarmiði um lýðræðisumbætur. Staða forseta Íslands er arfur frá eldri samfélagsgerð, konungsveldinu, þar sem einn maður fór með völdin. Tilfærsla á valdi til forseta er afturför en ekki framför í átt að auknu lýðræði. Þar fyrir utan er um veigalitla breytingu að ræða þar sem forsetinn er hluti af löggjafarvaldinu í dag og í raun aðeins um tilfærslu á valdi til skipunar dómara innan löggjafarvaldsins. Tillaga Stjórnlagaráðs nær því ekki markmiðum um lágmarksdreifingu valds sem felast í þrískiptingu ríkisvalds. Nauðsynlegt er að dómarar séu skipaðir af öðrum en framkvæmdar- og löggjafarvaldi. Lýðræðisfélagið Alda hefur sent Stjórnlagaráði tillögu um skipan dómara og ítrekar hana. Tillagan grundvallast fyrst og fremst á því að hlutlæg sjónarmið liggi til grundvallar skipan dómara, þar sem nauðsynlegt sé að almenningur geti treyst því að dómarar hafi að leiðarljósi mannréttindi og heildarhag. Til þess að draga sem mest úr hættunni á því að óeðlileg sjónarmið ráði för og að óeðlileg tengsl verði milli annarra valdastofnana og dómara leggur félagið til að dómarar séu, að undangengnu hlutlægu hæfnismati, valdir með slembivali.

2. Tillaga Stjórnlagaráðs, gr. 28 um Störf Alþingis, um að Alþingi kjósi forsætisráðherra sem svo hafi frjálsar hendur við val á öðrum ráðherrum samræmist ekki sjónarmiði um lýðræðisumbætur og erfitt að sjá að í henni felist nokkur breyting. Í dag er málum þannig háttað að þingmeirihlutinn skipar forsætisráðherrann og aðra ráðherra með óformlegum hætti (það er án formlegrar opinberrar kosningar). Eina breytingin hér er sú að þingmeirihlutinn kemur saman í þingsal og kýs forsætisráðherrann sem svo skipar aðra ráðherra. Eftir sem áður er það þingmeirihlutinn og þar með löggjafarvaldið sem skipar framkvæmdarvaldið. Tillaga Stjórnlagaráðs nær því ekki markmiðum um lágmarksdreifingu valds sem felast í þrískiptingu ríkisvalds. Nauðsynlegt er að framkvæmdarvaldið sé skipað af öðrum en löggjafar- og dómsvaldi. Lýðræðisfélagið Alda hefur sent Stjórnlagaráði tillögu um að ráðherrar skuli kosnir beint að undangengnu lýðræðislegu forvali. Sú leið tryggir þrískiptingu ríkisvalds og færir ákvarðanavaldið í hendur almennings.

3. Tillaga Stjórnlagaráðs, gr. 24 um Störf Alþingis, um að fundir Alþingis og nefnda þess geti verið lokaðir almenningi felur í sér áframhaldandi brot á lýðræðislegum rétti almennings til þess að fylgjast með störfum fulltrúa sinna. Tillaga Stjórnlagaráðs er í raun engin breyting frá því sem verið hefur, þ.e. að valdhöfum er í sjálfsvald sett hversu opnir fundir þeirra eru. Lýðræðisfélagið Alda hefur sent Stjórnlagaráði tillögu um að allir fundir þar sem fulltrúar almennings taka opinberar ákvarðanir skuli vera opnir, að öðrum kosti séu þeir ólöglegir. Einnig skulu allar upplýsingar um ákvarðanatöku vera opinberar og aðgengilegar almenningi, s.s. fundargerðir, skjöl og annað tengt ákvarðanatöku.

Einnig telur félagið rétt að minna Stjórnlagaráð á að ráðið starfar í umboði almennings en ekki stjórnmálaflokka eða þeirra sem sömdu núverandi stjórnarskrá. Þá er vert að minna á háværa kröfu almennings, t.d. úr búsáhaldabyltingunni, um nýja stjórnarskrá og raunverulegar lýðræðisumbætur. Félagið ætlast til þess að Stjórnlagaráð verði við þeim kröfum.

Tillögur Lýðræðisfélagsins Öldu til Stjórnlagaráðs:
http://lydraedi.wordpress.com/2011/04/06/tillogur-til-stjornlagarads/

Erindi Öldunnar og umræður um það á vef Stjórnlagaráðs

2 Thoughts to “Umsögn um tillögur Stjórnlagaráðs”

  1. Bjarni Ólafsson

    Þessar tillöur komast mjög nálægt þvi sem ég tel æskilegt

  2. Nils Gíslason

    Kæru vinir.
    Ég hef fylgst með umrræðum ykkar og langar til að leggja svolítið til málanna, þar sem ég veit að þið viljið gera ykkar besta.
    Ég tók eftir því þegar ég var á fundi hjá ykkur að þar ríkir dálítil forsetafóbía.
    Þið talið um lýðræði þar sem allir fá að velja og hafna, síðan er fulltrúa lýðræði þar sem fulltrúar fara með „vald“ (ljótt orð) reyna að stýra hlutum í samræmi við vilja „lýðsins“ (lýðræði) Þessir fulltrúar geta verið hvað? 9 eða 7 að tölu? kannski 5 eða bara 3 Spurningin er þessi getur 1 fulltrúi fundið út og stýrt hlutum eins vel og 9 eða 5 eða3 fulltrúar? Ef félagið, fyrirtækið eða þjóðfélagið fann frábæran fulltrúa sem það treystir, er það lélegt eða handónýtt forsetaræði?
    Ég er ekki að deila eða rífast, ég er bara að spyrja spurninga til að vekja upp frekari hugsun og niðurstöðu sem ekki byggir á tilfinningum, tísku eða af því bara.
    Hitt sem mig langar til að benda á er það að mér finnst að trú ykkar á alsherjar lýðræði sem einskonar alsherjar lausn í öllum málum, (kannski misskil ég ykkur)
    Af hverju eru þið svona fá? Hvaða fólk hefur áhuga á stjórn landsins? Flestir eru búnir að fá upp í háls af stjórnmála umræðu. flest fólk hefur enga þekkingu, enga reynslu, hefur aldrei velt fyrir sér samhengi þesara þátta og langar ekkert til að breyta því. Ég vil ekki fljúga í flugvél þar sem áhöfnin er valin með slembiúttaki úr þjóðskrá.
    Lýðræði þar sem allir hafa sama atkvæði er ónýtt ef upplýsingar um málefnið og skilningur allra og áhugi er ekki til staðar. Það er hægt að skaffa upplýsingar (og hliðra þeim til og frá af þeim sem safna þeim) Það er erfiðara með „skilning allra“ Fólki er mislagið að skilja. Og áhuginn? kanski er hægt að búa hann til, ég veitþað ekki, ekki í kvöld það er fótbolti Mancester United og Barcelóna!
    Með vinsemd og virðingu.
    Nils Gíslason

Comments are closed.