Félagið hefur sent samgöngunefnd umsögn um framvarp til sveitarstjórnarlaga.

Umsögn Lýðræðisfélagsins Öldu um frumvarp til sveitarstjórnarlaga

1. Varðandi 16. gr. um opna fundi telur félagið rétt að heimild til þess að loka fundum fyrir almenningi verði afmörkuð með skýrari hætti. Félagið telur eðlilegt að fundi sé lokað þegar rætt er um mál er varða persónuupplýsingar einstaklinga, t.d. barnaverndarmál, en að öðrum kosti verði ekki gefin heimild til þess að sveitarstjórnir haldi lokaða fundi þar sem ákvarðanataka fer fram. Það eru lágmarks lýðræðisleg réttindi að almenningur geti fylgst með ákvarðanatöku sinna fulltrúa.

2. Félagið fagnar 19. gr. um ritun fundargerða og opinbert aðgengi að þeim. Nauðsynlegt er að fundargerðir séu ítarlegar og aðgengi að þeim þannig að öllum sé fært að kynna sér fljótt og örugglega.

3. Varðandi 54. gr. telur félagið rétt að bætt sé við þeirri takmörkun að kjörinn sveitarstjórnarmaður geti ekki sinnt starfi framkvæmdarstjóra sveitarélagsins, eða æðstu stöðu stjórnsýslu þess. Félagið telur að starfsmenn sveitarfélagsins eigi að bera sameiginlega ábyrgð á starfsmannastefnu sveitarfélagsins og ráðningu framkvæmdarstjóra með þeim hætti að hver starfsmaður sveitarfélagsins hafi eitt atkvæði. Starfsmennirnir koma sér síðan saman um skipulag ráðningarmála innan sveitarfélagsins. Hér er um að ræða lýðræðislegri leið við stjórnun sveitarfélagsins með aukinni valddreifingu auk þess sem skilið er á milli stefnumótandi aðila, sveitarstjórnarinnar, og framkvæmdaraðilans en oft getur komið upp hagsmunaárekstur gagnvart íbúum sé framkvæmdaraðilinn einnig fulltrúi íbúa í sveitarstjórn – auk þess sem þá er óeðlilega miklum völdum þjappað á hendur eins manns.

4. Varðandi 56. gr. telur félagið að ráðningar æðstu starfsmanna sveitarfélagsins skuli lúta sömu forsendum og tilteknar eru í lið 3 hér að ofan, að starfsmenn sveitarfélagsins beri lýðræðislega og faglega ábyrgð á mannaráðningum þess.

5. Varðandi 62. gr. telur félagið nauðsynlegt að heimild verði gefin fyrir því að fjárhagsáætlun sveitarfélags sé ákvörðuð í lýðræðislegu þátttökuferli borgaranna sambærilegu því sem tíðkað er í Porto Alegre í Brasilíu og víðar. Þar er fjárhagsáætlunin ákvörðuð í opnu ferli íbúanna sem móta og vinna áætlunina í sameiningu. Settar verði leiðbeinandi reglur af hálfu innanríkisráðuneytisins um það ferli, s.s. um kosningu fulltrúa, um aðgengi að gögnum, sérfræðiaðstoð og annað sem við á.

6. Varðandi 105 gr. telur félagið rétt að borgarafundir taki bindandi ákvörðun um það málefni sem rætt er um á fundinum. Því falli brott síðasta málsgrein 105. gr. Ákvarðanir sem eru teknar beint af íbúum í opnum kosningum og ferlum eru æðri ákvörðunum fulltrúa þeirra. Valdið er almennings nema í þeim tilfellum þar sem almenningur færir fulltrúum þau til umsjónar. Þegar boðað hefur verið til borgarafundar hefur almenningur kallað beint til sín valdið frá fulltrúunum. Borgarafundur getur sjálfur ákveðið með meirihluta atkvæða að niðurstaða hans sé ekki bindandi.

7. Varðandi 106. gr. telur félagið að síðasta málsgreinin eigi að falla brott nema kveðið sé um að niðurstöður íbúaþings séu lagðar fyrir borgarafund eða í almenna kosningu íbúa.

8. Varðandi 107. gr. telur félagið að niðurstöður íbúakosningar skuli bindandi og þess getið í ákvæðinu að íbúakosning sé æðsta ákvörðunarvald sveitarfélags. Valdið er í höndum íbúanna en ekki fulltrúa þeirra. Niðurstöður íbúakosningar skulu einnig bindandi milli kjörtímabila og geti aðeins önnur íbúakosning hnekkt niðurstöðu fyrri íbúakosningar. Niðurstaða íbúakosningar er æðri niðurstöðu borgarafundar.

9. Félagið fagnar 108. gr. frumvarpsins og telur hana mikla lýðræðisumbót en minnir á nauðsyn þess að breytingar verði gerðar í samræmi við atriði 6, 7 og 8 hér að ofan. Einnig telur félagið rétt að íbúar geti ákvarðað efni fundarins og hvort þar fari fram atkvæðagreiðsla enda er valdið í höndum almennings en ekki fulltrúanna. Röksemdir þær sem tilteknar eru í greinargerð með frumvarpinu um 108. gr. eru til þess fallnar að veikja rétt almennings með því að binda ákvörðunarvaldið yfir efnistökum fundarins og formi við sveitarstjórnina.

10. Félagið telur að X. kafli um samráð við íbúa skuli gerður að II. kafla og heita Íbúalýðræði. Æðsta vald sveitarfélags er í höndum íbúanna og þar af leiðandi eru þau lýðræðislegu ákvarðanatökuferli sem kveðið er á um í lögunum einnig æðstu ferlin og ættu því að vera tiltekin fremst meðal slíkra ákvæða. Að öðrum kosti mætti fella þau ákvæði inn í nýjan II. kafla um stjórn sveitarfélagsins þar sem ákvæði X. kafla koma á undan ákvæðum núverandi II. kafla.

11. Félagið telur að í tengslum við þær fyrirhuguðu breytingar sem finna má í frumvarpi að nýjum sveitarstjórnarlögum þurfi að gera a.m.k. eina breytingu á lögum nr. 5 frá 1998 um kosningar til sveitarstjórna, nánar tiltekið á 19. gr. þar sem bætt yrði við c. lið sem kvæði á um að heimilt sé að velja allt að þriðjung sveitarstjórnarmanna með slembivali úr kjörskrá að loknum sveitarstjórnarkosningum. Nýleg dæmi um slembivalsþing og val á fulltrúum með slembivali, t.d. í Bresku-Kólumbíu, benda til þess að sú leið reynist vel til þess að dýpka lýðræðið. Með þeirri leið veljist einstaklingar sem tilheyra þjóðfélagshópum sem hingað til hafa ekki átt þátt í sameiginlegum ákvarðanatökum nema að litlu leyti; slembivalsfulltrúar eru líklegri til að líta á sig sem fulltrúa heildarinnar og sækja umboð sitt beint til allra kjósenda.

Stefna félagsins um lýðræðisvæðingu stjórnmálanna:

Stefna: Lýðræðisvæðum stjórnmálin

Tillögur félagsins til Stjórnlagaráðs:

Tillögur til stjórnlagaráðs.

Samskipti félagsins við allsherjarnefnd:

Samskipti félagsins við Allsherjarnefnd.

One Thought to “Umsögn um frumvarp til sveitarstjórnarlaga”

  1. Bjarni Ólafsson

    Þettað eru allt tillögur sem stefna að meira lýðræði og eru mjög til bóta

Comments are closed.