Stofnfundur Lýðræðisfélagsins Öldu fór fram í Hugmyndahúsinu þann 20. nóvember kl. 16. Fundurinn var vel sóttur og góður andi á fundinum. Björn Þorsteinsson stýrði fundinum og hóf hann með því að lýsa stuttlega aðdraganda hans og lesa upp grunnstefnumið félagsins. Að því loknu ræddi Kristinn Már Ársælsson um félagið og raunhæfar hugmyndir. Ræddi hann mikilvægi þess að lýðræðisvæða hagkerfið, meðal annars með því að lýðræðisvæða fyrirtækin. Sömuleiðis nefndi hann tvö dæmi um hvernig megi dýpka lýðræðið á sviði stjórnmálanna, annars vegar með því að ákvarðanir, s.s. fjárhagsáætlunargerð, séu teknar í lýðræðislegu ferli borgaranna og hins vegar með því að færa afmarkaðar ákvarðanir í slembivalsþing. Að lokum reifaði hann þær hugmyndir sem eru meðal stjórnarinnar um að stofna á næstunni málefnahópa og að fyrsta verk félagsins verði að safna saman og útfæra tillögur að raunhæfum leiðum til að auka hér lýðræði. Næst tók Sigríður Guðmarsdóttir til máls og flutti hugvekju um núverandi samfélagsgerð, kapitalismann, sem hið viðtekna. Líkti hún kapitalismanum við vél og að þeir sem efuðust um gangvirki eða stefnu vélarinnar væru oft álitnir brjálaðir. Oft væri rætt við þá sem gagnrýna þessa vél líkt og börn og sagt við þá: Gættu þess að róla ekki svona hátt. Erindi Sigríðar verður aðgengilegt hér á vefnum innan tíðar. Næst voru rædd á fundinum fyrstu lög félagsins og fóru fram nokkrar umræður um þau. Fram komu breytingartillögur sem voru ræddar og bornar undir atkvæði meðan öðrum tillögum var frestað til fyrsta aðalfundar. Lögin voru samþykkt með öllum greiddum atkvæðum. Þá var kynnt starfsstjórn félagsins, sem starfar fram að fyrsta aðalfundi sem verður frá haldinn haustið 2011. Með því var stjórnin samþykkt og félagið formlega stofnað með lófataki. Loks voru umræður sem fóru fram í hring. Rætt var um ýmis mál, s.s. um sjálfbærnishugtakið og hvort og þá hvernig hagvöxtur væri mögulegur. Einnig var rætt um lýðræðisvæðingu fyrirtækja og samvinnufélög. Talsverður áhugi var á því að hefja sem fyrst störf málefnahópa og verður það meðal fyrstu verka stjórnarinnar að svo megi verða. Þá var ánægjulegum fyrsta fundi félagsins slitið.

2 Thoughts to “Stofnfundurinn”

  1. Ásgeir Gunnarsson

    sammanneskjulega skynsemi í stjórnsýslu,þroska,ánæju,manneskjuna ofar mammons klíkum í samfélögum manna, hef verið að hugsa á svipuðum nótum og þið , skrá mig í félagið takk

    1. Akkúrat 🙂 Endilega sendu tölvupóst með nafni og kennitölu til að skrá þig. Póstfangið er: ciohodar@gmail.com

Comments are closed.