Fundurinn er haldinn í Hugmyndahúsinu að Grandagarði 2 klukkan 20.30 þriðjudaginn 25. janúar n.k.

Á fundinum verða ræddar eftirfarandi tillögur félagsins til stjórnlagaþings:

Breytingartillögur á stjórnarskrá Íslands frá Lýðræðisfélaginu Öldu

Forseti
Kaflinn um forseta lýðveldisins er felldur brott og embættið lagt niður. Völd forseta færð á aðrar hendur.

Kosningakerfi (31. grein)
Á Alþingi eiga sæti 42 þjóðkjörnir þingmenn og 21 sem valdir eru með slembivali úr röðum allra íslenskra ríkisborgara á aldrinum 18-70 ára. Þjóðkjörnir þingmenn eru kosnir leynilegri hlutbundinni kosningu. Helmingur þeirra skal valinn með persónukjöri og aðrir með listakosningu. Við talningu atkvæða skal nota Single Transferrable Vote-kerfið. Kjósandi getur valið frambjóðendur af mismunandi listum. Slembival fer fram þegar úrslit kosninga liggur fyrir. Sé aldurs- og kynjadreifing ójöfn skal það leiðrétta það með slembivalsfulltrúum. Aðeins má muna einum á fjölda þingmanna af hvoru kyni.
Allir þingmenn eru kjörnir til 4 ára í fimm kjördæmum.

Opið lýðræði (57. grein)
Fundir Alþingis og allir opinberir fundir hins opinbera skulu ávallt haldnir í heyranda hljóði. Allar upplýsingar og fundargögn skulu vera aðgengileg almenningi. Öll opinber gögn skulu aðgengileg og engar reglur gilda sem leyfa frávik frá þeirri reglu.

Ráðherrar
Kosið er um ráðherra almennri kosningu samhliða kosningum til Alþings. Kosið er milli fjögurra umsækjenda, tvær konur og tvo karla, um hvert ráðherraembætti sem valdir eru af nefnd. Í nefndinni sitja sjö kjörgengir borgarar valdir með slembivali. Nefndin ræður sér starfsmann. Starfsmaður hefur ekki atkvæðisrétt. Ráðuneytum er skylt að vera nefndum innan handar með upplýsingar og aðstoð. Hlutfall ráðherra af hvoru kyni skal vera jafnt. Reynist kynjahlutfallið ójafnt skal það leiðrétt með því að varpa hlutkesti sem ákvarðar í hvaða ráðuneyti/um ráða skuli atkvæðahæsta umsækjandann af því kyni sem hallar á.

Dómendur
Kjörnefndir ráða dómara eftir hæfnismat. Kosning skal vera leynileg. Í kjörnefnd sitja sjö hæstaréttarlögmenn sem valdir eru með slembivali úr hópi þeirra sem hafa slíkt próf þannig að aðeins muni einum á milli kynja.

Fyrirtæki (72. grein)
Fyrirtæki lúti lýðræðislegri stjórn þeirra sem hjá þeim starfa: Hver starfsmaður hafi eitt atkvæði. Starfsmenn reka fyrirtækið í sameiningu, ákvarða stefnu þess og skipulag.

Borgaraþing
Löggjafarvaldinu er heimilt að framselja vald sitt að hluta til borgaraþinga sem mönnuð eru öðrum en Alþingismönnum og valdir með hlutbundinni kosningu eða slembivali. 1/3 þingmanna og 8% atkvæðisbærra manna geta krafist borgaraþinga um brýn málefni.

Þjóðaratkvæðagreiðslur
Þriðjungur þingmanna eða 8% atkvæðisbærra manna geta krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvörp sem lögð eru fram af þingfulltrúum og almenningi.

Fjármál stjórnmálaflokka
a) Framboðum í alþingiskosningum skal tryggður jafn, nákvæmlega tilgreindur og víðtækur aðgangur að útvarpi og sjónvarpi, og öðrum áhrifaríkustu fjölmiðlum hverju sinni, til þess að kynna stefnumál sín. Sama gildir um framboð og kosningar til sveitarstjórna.

b) Framboðum til Alþingis skal úthlutað fjármagni úr ríkissjóði til reksturs kosningabaráttu þremur mánuðum fyrir kosningar. Framboðum er óheimilt að ráðstafa öðru fé til reksturs kosningabarátunnar. Nánar skal kveðið á um framkvæmd í lögum.

c) Stjórnmálaflokkum og þingmönnum er óheimilt að þiggja styrki frá fyrirtækjum.

GREINARGERÐ

Forseti
Lýðræðisfélagið Alda hefur valddreifingu að leiðarljósi . Það er því andstætt markmiðum félagsins að viðhalda forsetaembættinu. Félagið leggur því til að embættið verði lagt niður og völdum forseta dreift á fleiri hendur í samræmi við aðrar tillögur félagsins. T.a.m. leggur félagið til að almenningur og minnihluti þingmanna geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu.

Kosningakerfi
Jafnrétti er forsenda lýðræðis og mikilvægt að sem flestir hópar komi að borðinu. Slembival skal notað til að leiðrétta skekkjur varðandi kynjahlutfall og aldursdreifingu. Einnig er æskilegt að leitað sé leiða til að tryggja þátttöku annarra minnihluta- og jaðarhópa, t.d. hinsegin fólks, fólks með fötlun og láglaunafólk svo dæmi séu tekin. Rannsóknir sýna að ýmsir hópar samfélagsins hafa hlutfallslega mun færri málsvara við opinbera ákvarðanatöku. Nauðsynlegt er í lýðræðisríki að gæta þess að allir hópar samfélagsins eigi beinan þátt í ákvarðanatöku.
Hér er mælt með að Alþingi starfi í einni deild. En þegar það hefur verið reynt í einhvern tíma kæmi einnig til greina að það starfaði í tveimur deildum. Í neðri deild yrðu þjóðkjörnir þingmenn en efri deild eingöngu skipuð slembivalsfulltrúum. Rannsóknir hafa sýnt fram á að nokkur munur er á því hagsmunatengslum og því hverju ráði ákvarðanatöku fulltrúa sem valdir eru með ólíkum hætti, s.s. flokkakjöri, persónukjöri og slembivali. Slembivalsfulltrúar líta að jafnaði á sig sem beina fulltrúa allra meðan flokkakjörnir eru fulltrúar sinna eigin kjósenda. Af þeim sökum kann að vera skynsamlegt að í efri deild sitji slembivalsfullrúar sem gæti heildarhagsmuna. Með því er ekki verið að segja að ein tegund fulltrúa sé betri en önnur heldur að ólíkum aðferðum við val á fulltrúum fylgi kostir og gallar.

Opið lýðræði
Ein af grunnstoðum lýðræðisins er gagnsæi í ákvarðanatöku, þar sem öllum er frjálst að kynna sér forsendur og ferli ákvaðarnatökunnar. Takmarkanir á aðgengi að upplýsingum koma í veg fyrir að almenningur hafi tækifæri til að kynna sér forsendurnar og eiga hlutdeild í þeim ákvarðanatökum sem fram fara.
Samfélagsgerð sem kennir sig við lýðræði hlýtur að byggja á opinni og gagnsærri ákvarðanatöku þar sem aðgengi að fundum og upplýsingum er varða ákvarðantöku fyrir hönd almennings séu hverjum sem er opið og einfalt. Erfitt er að átta sig á hvernig hagsmunum almennings er betur borgið í lýðræðisríki með því að ákvarðanir séu teknar í ógagnsæu og lokuðu ferli – líklegra er að slíkt ferli þjóni hagsmunum annarra hópa.

Ráðherrar
Farin er sú leið að láta kjósendur kjósa um ráðherra í stað núgildandi kerfis. Er það gert til að færa ákvarðanatökuna frekar til almennings þannig að hagsmunir almennings ráði ríkjum við ráðherraval, ekki innanflokkshagsmunir. Með þessu móti er þrískipting ríkisvaldsins jafnframt aukin.
Slembivalsnefndum er í sjálfs vald sett hvaða þættir eru hafðar að leiðarljósi við val á fjórum umsækjendum en séu gerðar sérstakar kröfur til menntunar og reynslu skal það koma fram þegar auglýst er eftir umsækjendum.

Dómendur
Það er mikilvægt að val á þeim sem fara með dómsvaldið séu valdir með fagleg sjónarmið að leiðarljósi, án afskipta framkvæmda og löggjafarvaldsins. Því leggur lýðræðisfélagið Alda til að slembivalsnefndum hæstaréttarlögmanna sé fengið það hlutverk að kjósa hæstaréttardómara. Kosningin skal vera leynileg til að koma í veg fyrir hagsmunatengsl.

Fyrirtæki
Stærstan hluta lífs okkar erum við undir einveldi eða fámennisstjórn í vinnunni en fyrirtæki og stofnanir lúta ekki leikreglum lýðræðis. Of margar ákvarðanir, of stór hluti samfélagsins er undanskilinn reglum lýðræðisins og því er rétt að færa þær ákvarðanir í hendur almennings með beinum hætti. Rannsóknir sýna að lýðræðisleg fyrirtæki eru a.m.k. jafn hagkvæm og kapitalísk fyrirtæki en koma betur út félagslega. Til þess að lýðræðisríki geti staðið undir nafni er nauðsynlegt að lýðræðisvæða efnahagslífið.

Borgaraþing
Hér er miðað við að á Alþingi sitji þingmenn sem valdir eru með þremur mismunandi aðferðum. Þá er gert ráð fyrir að borgararþing sé kölluð saman þegar ræða þarf stór mál sem krefst víðtækara samráðs við almenning en Alþingi býður upp á. Þá eru haldnir umræðu- og kynningarfundir um allt land, víðtæk umræða og kynning fer fram í fjölmiðlum, fulltrúar valdir til þess að endurspegla ólíka hópa meðal almennings og langur tími gefinn til þess að ljúka ferlinu. Mælst er til þess að borgaraþing séu kölluð saman í málum á sveitastjórnarstigi.

Þjóðaratkvæðagreiðslur
Lýðræðið grundvallast á að almenningur og fulltrúar hans fari með stjórn ríkisins. Því er afar mikilvægt að til séu úrræði sem geri almenningi kleift að hafa bein áhrif á löggjöf landsins. Þjóðaratkvæðagreiðslur eru meðal slíkra úrræða. Þær færa valdið frá ríkisvaldinu til heldur almennings og tryggja honum ríkari rétt til þátttöku í stjórn landsins.

Lýðræðisfélagið Alda leggur til að þriðjungur þingmanna og 8% atkvæðisbærra manna geti knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um frumvörp sem lögð hafa verið fyrir Alþingi og lagt fram eigin frumvörp. Hlutfallið 8% er lagt fram til að gefa almennum borgurum tækifæri á að taka þátt í stjórn landsins. Ef hlutfallið er mikið hærra er hætt við að aðeins þjóðþekktir einstaklingar geti aflað nægilega margra undirskrifta til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslu. Félagið telur að þetta hlutfall sé þó nægilega hátt til að koma í veg fyrir að stjórn landsins verði of þung í vöfum. Auk þess er mikilvægt að minnihluti þingmanna hafi rétt til að færa umdeildar ákvarðanir í dóm þjóðarinnar. Þannig er komið í veg fyrir að ákveðinn meirihluti geti beitt liðsmunum til að koma umdeildum málum í gegnum þingið.

Fjármál stjórnmálaflokka
a) Útvarp og sjónvarp eru áhrifaríkustu fjölmiðlar samtímans. Með því að tiltaka einnig áhrifaríkustu fjölmiðla hverju sinni, er tryggt að löggjafinn geti brugðist við breytingum í fjölmiðlun og metið stöðuna á hverjum tíma. Víðtækur aðgangur felur í sér að löggjafinn þurfi hugsanlega að leggja lýðræðislegar skyldur á herðar fleiri fjölmiðlum en þeim sem eru í eigu hins opinbera. Kosningar í fjölmennustu sveitarfélögum landsins eru undirorpnar sömu baráttuaðferðum og kosningar til Alþingis, og þurfa því að lúta svipuðum reglum. Að öðru leyti skýrir ákvæðið sig sjálft.

b) Ákvæðið er sett til þess að hemja fjárþörf stjórnmálasamtaka og framboða, og stuðla að því að pólitískum sjónarmiðum sé ekki mismunað um of í krafti peninga. Ákvæðið skýrir sig að öðru leyti sjálft.

c) Framboðum skal óheimilt að taka við fjárframlögum frá fyrirtækjum til að koma í veg fyrir stjórnmálaflokkar verði háðir fjármunum frá fyrirtækjum þannig að óeðlileg hagsmunatengsl skapist.

Auglýsingar í sjónvarpi og útvarpi eru dýrar, og peningar og valdaaðstaða geta ekki ráðið úrslitum í kosningabaráttu, eigi slík barátta að heita lýðræðisleg. Jafnræði er grundvallaratriði. Eins mega áhrifamestu fjölmiðlar ekki verða háðir auglýsingatekjum frá tilteknum stjórnmálasamtökum. Þá er einnig mikilvægt ða ný framboð með rýra sjóði sitji við sama borð og eldri stjórnmálaflokkar

Ráðandi stjórnmálasamtök hverju sinni eru, eðli máls samkvæmt, óheppileg og vanhæf til þess að setja grundvallarreglur sem fyrrnefnd ákvæði fela í sér. Því er brýn nauðsyn að setja í grundvallarlög skýr ákvæði sem tryggja að ákvæði um pólitískar auglýsingar og kynningar í fjölmiðlum verði sett í stjórnarskrá.

5 Thoughts to “Fundur og tillögur til stjórnlagaþings.”

  1. Nils Gíslason

    Nils Greinar

    Nilserik@simnet.is

    Innlegg í umræðu um stjórnarskrá

    Íslenska þjóðin setur sér markmið að vera fyrirmynd annarra þjóða, hvað varðar mannréttindi, stjórnarhætti, umgengni við umhverfi sitt og samskipti við aðrar þjóðir. Alþingi skal gera áætlun um hvernig þessu markmiði skuli náð og fylgjast stöðuglega með árangri.

    Ef eitthvað á að verða til þá þarf að vera til markmið til að svo verði, eitthvað til að vinna að, eitthvað sem flestir geta sameinast um og verið stoltir af. Allir hafa möguleika á að vera til fyrirmyndar, að vera fyrirmynd.
    Meðferð fjármuna, skipting landsins gæða, áætlanir til framtíðar, draga úr sóun, auka endurvinslu og deila reynslu okkar með öðrum þjóðum. Það verður okkar framlag til þjóðanna
    Þjóðin er hæfilega stór til þess að auðvelt er að ná til allra. Þjóðin er rík og á nægar auðlindir til að allir geti búið við góð kjör, hús heilsu og menntun. Allir geta verið fyrirmynd.

    Tilögur um kosningar til Alþingis

    1.Landinu verði skipt í (til dæmis) í 23 einmennings kjördæmi. Gert verði slembiúttak í hverju kjördæmi og þeir fyrstu 10 – 20 einstaklingar sem gefa kost á sér til framboðs fari í atkvæðagreiðslu í sínu kjördæmi og tveir þeir efstu verði alþingismaður þess kjördæmis og næsti er til vara. 23 kjördæmi eru út á landi en 4 á reykjavíkursvæðinu. Auðvitað má og þarf að breyta þessum tölum sem eru jú bara fyrstu hugmyndir.

    3.Frambjóðendur fái tíma til að kynna sig og hugmyndir sínar varðandi þjóðina. Þessi kynning fari fram í gegnum internetið með heimasíðum, blaðagreinum og bloggi og fleira ásamt fjöldafundum í kjördæmnu. Settar verði reglur sem jafni kynninguna.

    4.Alþingiskosningar fari þannig fram að sá frambjóðandi sem fær flest atkvæði í sínu kjördæmi verður þingmaður. Þannig veljast 27 þingmenn til þings.

    Þessir þingmenn eru ÞJÓÐKJÖRNIR og ekki fulltrúar síns kjördæmis, heldur þingmenn þjóðarinnar allrar. Í allri umræðu á Alþingi og viðræðum fjölmiðla og á opinberum vettvangi skulu orð þeirra og framkoma bera vitni um að þeir komi fram sem fulltrúar alls landsins, allrar þjóðarinnar. Þingmenn þessir eiga að mynda fyrirmyndar þing til að þjóðin verði fyrirmyndar þjóð.

    Þegar 4 ára kjörtímabili þeirra lýkur og næstu kosningar verða undirbúnar meiga alþingismenn vera í framboði á þeim lista sem slembi-úttakið myndar. Þar sem gera má ráð fyrir að sú kynning sem störf þeirra á þingi hafa fært þeim gefi þeim forskot fram yfir frambjóðendur í úttakinu, þá verður vægi atkvæða fyrverandi þingmans skert um 30% (ákveðið hlutfall sem reynslan kennir). (hugsunin er sú að ef þessi þingmaður afi reynst mjög góður þá geti hann verið valinn í eitt skipti í viðbót)

    Alþingi setur lög fyrir þjóðina.
    Þegar alþingismenn hafa greitt atkvæði um mál á Alþingi, þá geri hver alþingismaður grein fyrir atkvæði sínu í setingu eða málsgrein, sem verður aðgegnileg á vef Alþingis fyrir kjósendur að kynna sér og leggja mat á þingmanninn í næstu kosninum.
    Þeir sem nefndir eru til að vera í kjöri sem hæstaréttardómarar og hafa tilskylda menntun skulu valdir eftir manngildi, heiðarleika, réttsýni, reynslu og öðrum þeim mannkostum sem slíka menn ættu að prýða. Fyrirmyndar einstaklingar.
    Alþingi kýs hæstaréttardómara. Til að hann ná kjöri þarf aukinn meirihluta atkvæða 2/3 atkvæða.
    Alþingismenn leggi sig fram um að stjórna þjóðinni með því að vera góð fyrirmynd. Reynsla og lífsferill er jafn mikilvægt og skólaganga og titlar
    Allar lagasetningar skulu metnar með tilliti til þess að vera til fyrirmyndar og hafa engar neikvæðar aukaverkanir.
    Opinberar framvæmdir, Sjúkrahús, skólar vegagerð og þess háttar skal metið og sett í forgangsröð með tilliti til nýtingu og hagkvæmni, með tilliti til velferðar þjóðarinnar í bráð og lengd.
    Opinber fyrirtæki eins og til dæmis Landsvirkjun eru á ábygð Alþingis. Stjórnendur slíkra fyrirtækja og rekstur þeirra skal stefna að sömu markmiðum, að vera til fyrirmyndar á allan hátt þannig að þjóðin geti veri stolt en einnig auðmjúk og þakklát fyrir þær auðlindir sem landið færir þjóðinni.
    Alþingi fari með stjórn fjármála þjóðarinnar.
    Alþingi rekur og stjórnar seðlabanka og fylgist með fjármstreymi, skuldum og eignum þjóðarinnar. Aðrir bankar eru þjónustuaðilar sem lúta fjármálastjórn seðlabankans.
    Gjaldmiðill íslensku þjóðarinnar „krónan“ er „sameign þjóðarinnar“ Hún er ætluð til að nota af þjóðinni innanlands og fyrir ferðamenn og smáviðskipti erlendis.
    Íslenska krónan er ekki spilapeningur fyrir kauphallir, banka eða fjármagnsmarkaði erlendis.

    Við höfum margra áratuga reynslu í því hvernig ekki á að nota gengi íslensku krónnnar sem stjórntæki Við höfum einnig reynslu af því hvernig bankaveldi og fjármagnsmarkaðir spila á hana.Nú notum við kosti hennar til að stýra sveiflum sem stafa af utanaðkomandi breytingum og stýra atvinnustigi og þenslu innanlands. (með gætni og skynsemi) Það er hægt þegar rétt markmið eru notuð, Markmið, að vera til fyrirmyndar í öllu og sameinast um það.

    Hugleiðingar um störf og verkferla alþingis (landsstjórnar)

    Framkvæmdaþáttur Alþingis.

    Hugleiðingar um leiðir til þess að kjörnir fulltrúar beri ábyrgð á vegferð þjóðarinnar.

    Ég hef gert ráð fyrir 27 alþingismönnum. Það er auðvitað bara tala sem má breyta, en einhvers staðar þarf að byrja.

    Ráðherrar (Þetta er villandi heiti) eins og við höfum kallað þá hingað til, eru ráðnir af Alþingi eftir auglýsingu, ábendingum eða fyrri reynslu af þeim. Alþingi.
    Hver og einn þeirra þarf að hafa aukinn meirihluta alþingismanna á bak við sig. (2/3 atkvæða) (við val á ráðherrum gildir sama regla og við önnur mál sem Alþingi greiðir atlvæði um, það er að alþingismenn skrifi smá greinargerð um atkvæði sitt sem er aðgengilegt öllum)

    Muna þarf að alþingismenn eru valdir sem framúr skarandi einstaklingar sem eru að vinna að velferð þjóðarinnar í heild

    Þeir eru einskonar verkstjórar sem sjá um að ákvaðanir Alþingis í stjórn landsins nái fram að ganga.

    Stærð (fjöldi starfsmanna) í hverju ráðuneyti fer eftir því hve mikið álag er á viðkomandi ráðuneyti. Ráðherra kemur með Áætlanir tillögur og rök fyrir reksturskostnaði sjálfs ráðuneytisins. Sem alþingi samþykkir.

    Ráðherra er valdalítill, svona eins og verkstjóri í vinnuflokk hann getur samt haft áhrif með þeim tillögum sem hann setur fyrir Alþingi.
    Ráðherra þarf að svara fyrir störf sín gagnvart Alþingi þeegar eftir því er leitað.

    1. Takk fyrir þetta Nils. Ég vil endilega hvetja þig til að skrá þig í félagið! Þú gerir það með því að senda nafn og kennitölu í tölvupósti á netfangið solald@gmail.com
      Og minni svo á fundinn um stjórnlagaþingið í kvöld!

  2. Björn Leví

    Það er ekkert að embætti forseta nema skortur á starfslýsingu. Frekar en að leggja það niður þá á forseti að vera verndari stjórnarskrárinnar varðandi lagasetningar alþingis. Þess vegna kvittar hann undir lög alþingis, vegna þess að forsetaembættið telur þau ekki brjóta í bága við stjórnarskránna.

    Hæstiréttur á svo auðvitað lokaorð varðandi lögmæti hverrar setningar.

    Hver þingmaður þarf að safna styrktarlista til framboðs síns, rétt eins og forseti þarf. Hver og einn kýs einn þingmann af lista (ef þingmaður fær nægilega margar löglegar undirskriftir til framboðs ræður hann á hvaða lista hann skráir sig). Það atkvæði gefur bæði listanum atkvæði og frambjóðandanum. Atkvæði kjósenda raða þannig frambjóðendum listans í röð eftir fjölda atkvæða og heildarfjöldi atkvæða sem listinn fær tilgreinir hversu margir af listanum komast á þing.

    Þetta útrýmir uppröðunarspillingartækinu sem stjórnmálaflokkar stjórna.

    Einnig á ekki að mynda meirihlutaríkisstjórn. Það er tilgangslaust og þynnir lýðræðið. Þegar mál er fyrir alþingi þá er mjög einfalt já/nei kosningakerfi notað og óháð því hverjir hafa rottað sig saman verður alltaf meirihluti já eða nei.

  3. Nils Gíslason

    Til Bjarnar Leví. Ég skil ekki lýsingu þína. Þú talar alltí einu um lista, hvaða lista hvernig verðaþeir til og til hvers? Er þetta fjórflokkurinn Eða á að mynda hægri lista vinstri lista miðu lista gáfumannalista????

    Bestu kveðjur og fleiri tillögur og sjónarmið

    Nils

  4. Björn Leví

    Listi þarf ekkert að vera öðruvísi en hann er núna. Helsta vandamál listakerfisins eru þau spillingatæki sem þeir hafa … uppröðun á lista og rottupólitík (allir verða að vera sammála). Ef uppröðunin er framkvæmd jafnhliða kosningum og enginn sérstakur meirihluti myndaður þá koma kostir listakerfisins frekar fram… sem eru til dæmis að hjálpa frambjóðendum að kynna sig og kynnast ferlinu (frá framboði til starfa á alþingi). Listinn sem slíkur hefur engin áhrif á frambjóðandann því hver og einn frambjóðandi gengur fram með sína stefnuskrá og markmið. Líklegra en ekki er að aðalmarkmiðin séu svipuð og sá listi sem viðkomandi skráir sig í… ef ekki þá skiptir það ekki máli því ef viðkomandi kýs gegn meginstefnu flokksins en samkvæmt stefnuskrá sinni… hvað er þá að því?

    Ef hann kýs hins vegar gegn eigin stefnuskrá, þá er greinilega eitthvað að og skýringa þörf (jafnt innan listakerfis eða ekki).

    Annar kostur listakerfisins er alhæfing. Það er auðveldara fyrir kjósendur að kynna sér meginmálefni og svo smærri áherslur innan þeirra. Svona útilokunarhjálp fyrir kjósendur.

Comments are closed.