20:00 › 23. FEBRÚAR 2011
„Við búum við samfélagsgerð sem er kölluð lýðræðisleg en er það alls ekki við nánari skoðun,“ segir Kristinn Már Ársælsson, einn af aðstandendum Lýðræðisfélagsins Öldu sem stofnað var í nóvember 2010, í samtali við blaðamann DV. Hann segir aðstandendur félagsins hafa þá framtíðarsýn að næsta skref eftir algjört hrun núverandi kerfis sé gagnger lýðræðisvæðing samfélagins. Ekki dugi að benda á það sem fór úrskeiðis, horfa verði á raunhæfar og praktískar leiðir til framtíðar.
Þetta unga félag er eitt margra grasrótarhópa sem sprottið hafa upp á Íslandi frá hruni. DV hefur nú þegar fjallað um Immi-hópinn sem beitir sér fyrir því að samþykktur verði lagapakki með það að markmiði að styrkja tjáningarfrelsi, málfrelsi, upplýsingamiðlun og útgáfufrelsi hér á landi. Þá hefur blaðið fjallað um hinn svokallaða IFRI-hóp sem komið hefur fram með hugmyndir um úrbætur á íslensku fjármálakerfi. Kristinn Már, einn talsmanna lýðræðisfélagins, segir í samtali við DV að lýðræðisvæðing fyrirtækja og sveitarfélaga hafi tekist með góðum árangri um allan heim, ekkert sé því til fyrirstöðu að á næstu árum og áratugum geti Ísland stefnt í sömu átt.
Fyrirtækin lýðræðisvædd
„Við höfum vanrækt lýðræðið. Ákvarðanir eiga að vera teknar af almenningi með hagsmuni heildarinnar að leiðarljósi. Kjarni lýðræðisins er að hver og einn hafi jafn mikið um málefni samfélagsins að segja, jafn mikil áhrif. Það er ekkert annað í stöðunni en að færa valdið, sem þjappast hefur saman á fárra hendur, til almennings. Eitt atkvæði á mann, flóknara er það ekki,“ segir meðal annars um stefnu félagsins á vefsíðunni lydraedi.wordpress.com. Þar segir jafnframt að lýðræðisreglan þurfi að vera ráðandi á öllum sviðum samfélagsins, jafnt í efnahagslífi sem og í stjórnmálum. „Við segjum að við búum við lýðræðiskerfi en svo mætum við til vinnu og hvað bíður okkar þar?“ Spyr Kristinn Már, en er sjálfur fljótur að svara: „Fámennisstjórn.“
Helstu hugmyndir lýðræðisfélagsins snúa að auknu lýðræði á helstu sviðum samfélagsins. Þannig er hvatt til þess að fyrirtæki lúti lýðræðislegri stjórn þeirra sem hjá þeim starfa, en það yrði að mati félagsmanna gert með því að veita hverjum starfsmanni fyrirtækis eitt atkvæði. Þannig geti starfsmennirnir rekið fyrirtækið í sameiningu, ákvarðað stefnu þess og skipulag.
Góð reynsla annarra
Kristinn segir fullt af lýðræðislegum fyrirtækjum úti um allan heim. Hann nefnir Mondrágon, sjöunda stærsta fyrirtæki Spánar, en því hefur verið stýrt á þennan hátt í yfir 50 ár og gengur vel. „Rannsóknir sýna að það er mun minni launamunur hjá slíkum samvinnufélögum. Hjá stórfyrirtækjum er launamunurinn til dæmis hundraðfaldur. Fyrir klukkustundar vinnu fá stjórnendur það sem aðrir fá á mánuðum. Hvaða skynsemi er í því?“ spyr Kristinn.
Á heimasíðu félagsins er tekið fram að rannsóknir sýni að lýðræðisleg fyrirtæki séu að minnsta kosti jafn hagkvæm og kapitalísk fyrirtæki en að þau komi betur út félagslega. „Lýðræði gengur út á að dreifa ákvarðanatökunni og að völd þjappist ekki á fárra manna hendur, ætti það ekki að eiga við um í fyrirtækjum rétt eins og annars staðar?“ spyr Kristinn.
Hann tekur annað dæmi af borginni Porto Alegre í Brasilíu en þar ákvarða íbúarnir í hvað fjármunum er varið. Svona hafi þetta verið þar í tuttugu ár: „Fyrstu breytingarnar sem menn sáu voru þær að auður dreifðist. Þátttökulýðræðinu fylgdi aukinn jöfnuður. Spilling hvarf vegna þess að allt var uppi á borðinu. Grasrótarstarf blómstraði og svo mætti áfram telja. Við erum að horfa á praktískar lausnir, eitthvað sem hefur verið prófað og reynst vel.“
Ný framtíðarsýn
Kristinn segir það vekja athygli hans að hér á landi hafi engin ný hugmyndafræðileg bylgja komið fram þrátt fyrir algjört hrun: „Hérna hrundi heilt fjármálakerfi. Heilt samfélag. Þetta er ekkert lítið mál. Samt sem áður á engin umræða sér stað þar sem rætt er um grunnskipulag kerfisins og breytingar þar að lútandi. Maður hefur lengi heyrt slökkvistarfsrökin – að hér þurfi að slökkva elda – en förum við ekki að verða komin lengra en það? Hvað eigum við að gera núna? Hvernig land verður Ísland eftir tíu, tuttugu ár? Ætla menn að lýðræðisvæða landið og ef svo er, hvað felst í því? Að þessu leyti er lýðræðisfélagið Alda ákveðið svar við hruninu. Þar er verið að takast á við þessar spurningar. Spurningar sem snúa að því kerfi sem við viljum byggja upp eftir algjört hrun.“
Hann tekur þó fram að kosningar til stjórnlagaþings hafi verið góðra gjalda verðar og að þar hefði átt að færa mikið vald til almennings. Framtíð stjórnlagaþingsins sé hins vegar óljós eftir úrskurð hæstaréttar. Á vefsíðu lýðræðisfélagins segir að dreifa þurfi valdinu á stjórnmálasviðinu, til dæmis með því að innleiða þar persónukjör og slembival. Vald hafi þjappast saman í fámenna valdakjarna innan stjórnmálaflokka. Kristinn segir að þrátt fyrir háværa kröfu um að losna við spillingu flokkaræðisins sé hvergi að finna konkret tillögur að breytingum. Lýðræðisfélagið Alda leggi til að blanda af persónukjöri, flokkakjöri og slembivali verði innleidd í almennum kosningum. Með því væri hægt að tryggja allt aðra dýnamík á þinginu.
Enginn formaður
Á heimasíðu lýðræðisfélagsins segir ennfremur að öll hlutabréfaviðskipti og fjármálagerningar sem grundvallist á því að ávaxta fjármagn skuli heyra sögunni til og að öll framleiðsla og neysla verði að vera sjálfbær. Kristinn segir málefnavinnuna vera vel á veg komna en opnir fundir eru haldnir svo gott sem vikulega í Hugmyndahúsi háskólanna.
Lýðræðisfélagið sjálft er formannslaust, en Kristinn segir enga þörf vera á formanni hjá félaginu, allir þrettán stjórnarmeðlimir séu talsmenn þess. Hann segir félagið vera opið og gegnsætt, og að hver sem er geti farið á hvaða fund sem er. Upplýsingar um fundi félagsins má nálgast á Facebook eða á heimasíðunni lydraedi.wordpress.com. „Félagið var ekki stofnað til skamms tíma. Því var komið á til langs tíma með það að markmiði að koma á lýðræðislegri og sjálfbærri samfélagsgerð,“ segir Kristinn ennfremur.
Jón Bjarki Magnússon (jonbjarki@dv.is)
Fréttin birtist í blaðinu 23. febrúar og er hægt að skoða hér