Fundur í málefnahóp um lýðræðislegt hagkerfi var haldinn 16. feb. 2011. Á dagskrá fundar var að hefja vinnu við ný samvinnufélagslög. Fundur hófst kl. 20:00.

Fundinn sóttu Metúsalem Þórisson, Júlíus Valdimarsson, Stefanía Arna Marinósdóttir, Gústaf A.B. Sigurbjörnsson, Björn Þorsteinsson, Guðmundur Ágúst Sæmundsson, Þórarinn Einarsson og Helga Kjartansdóttir.
Gústaf stýrði fundi og Björn ritaði fundargerð.

1. Ný samvinnufélagslög
Rætt um íslensku samvinnufélagalögin. Starfsmannasamvinnufélög bar á góma. Í lögunum er lágmarksfjöldi félaga í samvinnufélagi 15 (4. gr., 5. mgr.). Skv. lögunum mega starfsmenn ekki vera í stjórn.

Rætt um alþjóðleg samvinnufélög og samtök þeirra. Talað er um að 800 milljónir manna séu félagar í samvinnufélögum á heimsvísu. Íslendingar eiga engin aðildarfélög að samtökum samvinnufélaga um þessar mundir.
Rætt um ákvæði um sérhæfingu samvinnufélaga og hvort slík ákvæði væru nauðsynleg. Helga rifjaði upp umræðu Braga Halldórssonar um að félagar þyrftu að hafa áhuga á starfseminni og sameiginlegan hag af henni. Guðmundur Ágúst benti á að allar ákvarðanir um breytingar á starfssviði yrðu að vera teknar með almennu samkomulagi (consensus). Júlíus talaði um að eðlilegt væri að samvinnufélög gætu tekið breytingum. Metúsalem benti á að þá væri kannski eðlilegast að þeir sem hefðu hag af nýju starfseminni tækju sig saman og stofnuðu um það nýtt félag (dæmi: leikskóli fyrir starfsmenn tiltekins samvinnufélags).

Rætt um það hvort lögin ættu að vera afgerandi varðandi það hvort samvinnufélög megi ráða starfsfólk sem ekki gerist um leið félagi í þeim. Helga talaði um aðlögunartíma nýrra starfsmanna. Guðmundur Ágúst talaði um að fyrirtækin mættu a.m.k. ekki ráða sér starfsmenn „utan félags“ í hagnaðarskyni. Þórarinn nefndi möguleikann á stigskiptri aðild. Guðmundur Ágúst benti á að efnisleg rök þyrftu að vera fyrir því að skerða frelsi manna innan samvinnufélaga.
Gústaf talaði um lýðræðisvæðingu samfélagsins alls. Þórarinn lýsti þeirri skoðun sinni að engin fyrirtæki yrðu samkeppnishæf við samvinnufélögin. Guðmundur Ágúst tók undir þetta og taldi að ekki ætti að banna kapítalísk fyrirtæki. Metúsalem talaði um lýðræðisleg fyrirtæki sem ekki væru samvinnufélög. Stjórnvöld gætu stutt við slík fyrirtæki. Guðmundur Ágúst ítrekaði að stefnan mætti ekki vera of einstrengingsleg. Metúsalem benti á að það þyrfti t.d. að vera skilyrði að starfsmenn fengju að ráða því hvernig hagnaði væri varið.

Björn benti á ákvæði um að öll fyrirtæki eigi að vera lýðræðisleg í tillögum Öldu til stjórnlagaþings. Fundarmönnum leist almennt vel á það en nokkur umræða spannst um það hvort ákvæðið væri of róttækt og hvort það gegndi einungis strategískum tilgangi.

Júlíus talaði um nýjustu fregnir af aðbúnaði aldraða og Gústaf rifjaði upp hvernig þessum málum er háttað í Québec.
Júlíus vakti máls á þekkingarstjórnun og því hvernig starfsmenn skortir oft hvata til að láta þekkingu sína uppskáa. Björn ræddi um þann anda sem einkenna ætti vel heppnuð lýðræðisleg fyrirtæki. Rætt var um Argentínu og verksmiðjur sem starfsmenn og önnur fyrirtæki tóku yfir eftir hrunið þar.
Metúsalem varpaði fram því úrlausnarefni hvernig mætti breyta fyrirtækjum úr kapítalísku rekstrarformi yfir í lýðræðislegt form. Eignaupptaka hafi ekki gefist vel. Spænskur verkfræðingur, Burgos, hefur sett fram líkan af því hvernig þetta verði gert. Þórarinn nefndi vaxtalaust hagkerfi og hlaut sú hugmynd einkar góðar viðtökur.
Stefanía velti því upp hvort lýðræði væri orðið útjaskað hugtak og nokkur umræða spannst um það atriði. Júlíus talaði um inntak orðsins og mikilvægi þess að vinna út frá því.

Gústaf spurði hvort öll lýðræðislega rekin fyrirtæki ættu að vera starfsmannasamvinnufélög. Guðmundur Ágúst svaraði því neitandi fyrir sitt leyti og nefndi að verslanir (kaupfélög) henti ekki vel sem slík félög. Þar gæti því þurft sérstakar reglur til að tryggja hag starfsmanna. Helga vakti máls á því hvort tiltekin störf, t.d. á kaffihúsum, yrðu láglaunastörf. Guðmundur Ágúst taldi mun auðveldara að kaffihús væru starfsmannasamvinnufélög heldur en kaupfélög. Minna kapítal þyrfti til að koma kaffihúsi af stað. Björn lýsti hugmyndum Schweickarts um almenna sjóði sem veita fjármagni til stofnunar fyrirtækja. Guðmundur Ágúst lýsti efasemdum um það.

Guðmundur Ágúst ræddi um sláturfélög og aðra milliliði. Ekki víst að samfélagsleg ábyrgð verði virk í slíkum tilvikum. Stefanía nefndi banka í þessu sambandi og velti upp möguleikanum á peningalausu hagkerfi. Rætt um það hvernig tryggja mætti hag neytenda í kerfi sem þessu. Stefanía talaði um takmarkanir á stærð fyrirtækja. Júlíus talaði um það hvernig og hvar þarfir eru framleiddar – best væri að neytendur hefðu eitthvað um það að segja. Rætt um „fair trade“ og útvötnun þess hugtaks í stórmörkuðum.
Björn spurði í framhaldi af þessari umræðu hvort fundarmenn vildu taka tillit til allra „stakeholders“ í lögunum eða binda hugsunina við starfsmannalýðræði. Gústaf talaði um að meginatriðið væri að opna möguleikann á lýðræðislega reknum fyrirtækjum við núverandi aðstæður. Rætt var um „að kjósa með peningunum“. Þórarinn talaði um misvægi þeirra atkvæða og ræddi um fésektir í því sambandi. Stefanía benti á að ekki hefðu allir slík fjárráð að þeir gætu greitt hverju sem er atkvæði með peningunum sínum.

Gústaf benti á að tillaga okkar að lagafrumvarpi ætti að tala inn í núverandi aðstæður. Fundarmenn töldu ekkert að því að notast við samvinnufélagahugtakið. Guðmundur Ágúst benti á að aðalatriðið væri að tryggja að slík félög væru lýðræðisleg. Guðmundur Ágúst og Björn lýstu þeirri skoðun sinni að gömlu samvinnufélagalögin væru nothæf sem grunnur en bent var á að starfsmannasamvinnufélög væru ekki möguleg samkvæmt þeim. Guðmundur Ágúst talaði um „backwards compatibility“, þ.e. að lögin þyrftu að vera þannig gerð að það sem fyrir er virki áfram. Mikilvægast sé að setja lög um starfsmannasamvinnufélög.

Samþykkt að Björn fari í gegnum samvinnufélagalögin og vinsi úr það sem er nýtilegt og leggi fram á næsta fundi.
Guðmundur Ágúst talaði um hvort leyfa ætti almenna fjárfestingu í samvinnufélögum (í anda svokallaðs B-hluta samvinnufélaga skv. lögunum) . Því yrði þá að setja skýrar reglur. Rætt var um nauðsyn þess að verja samvinnufélög fyrir gráðugum fjárfestum, sbr. ýmis dæmi úr sögunni (t.d. Rochdale). Júlíus minnti á að Mondragon tók fyrst að vaxa fyrir alvöru eftir að fyrirtækið stofnaði banka. Guðmundur Ágúst talaði um rannsóknir Ívars Jónssonar á íslenskum samvinnufélögum. Rætt um að fá hann til að fræða félagsmenn um sögu samvinnuhreyfingarinnar.

Helga bauðst til að taka saman „heimspekina“ á bak við samvinnufélög og var það samþykkt.

Gústaf bauðst til að fara yfir forskriftir að samvinnufélagalögum sem finna má á vefsíðunni www.copac.coop. Var það samþykkt.

2. Önnur mál
Stefanía spurði um „complementary currencies“. Rætt um innlánsdeildir samvinnufélaga. Þórarinn talaði um möguleikann á því að leggja vinnuframlag inn í slíkan „banka“.

Húsnæðismál Öldu: Þórarinn velti upp þeim möguleika að frjáls félagasamtök sameinist um húsnæði. Mörg slík samtök eru á hrakhólum um þessar mundir. Rætt um kosti þess að mörg slík samtök starfi undir sama þaki.

Fundi slitið kl. 22:15.

One Thought to “Fundargerð – Lýðræðislegt hagkerfi 16. feb. 2011”

 1. Bragi Halldórsson

  Varðandi húsnæðismál Öldu er í gangi akkúrat núna vinna við að reyna að koma öllum grasrótar hreyfingunum undir eitt þak. Þau félög sem voru í Húsinu hafa tímabundið fengið að vera í Útgerðinni en þurfa að fara þar út um mánaðarmótin.

  Ég er ásamt fleirum að kanna hug allra félaganna til húsnæðis, hversu mikið hvert félag þarf og hvaða burði hvert þeirra hefur til að greiða leigu.

  Ákveðið húsnæði er til skoðunar akkúrat núna og fyrir liggur vilyrði borgarinnar til þess að bakka félögin upp með því að veita eiganda húsnæðisins tryggingu fyrir tveggja mánaðar leigu ef illa fer og starfsemin stendur ekki undir sér.

  Því vil ég endilega að þetta sé skoðað í alvöru.

  kveðja
  Bragi Halldórsson

Comments are closed.