Á fundinn mættu: Harpa Stefánsdóttir, Björn Þorsteinsson, Dóra Ísleifsdóttir, Kristinn Már, Gústav A. B. Sigurbjörnsson, Hjalti Hrafn og Hjörtur Hjartarson.
Björn stýrði fundi og Kristinn Már ritaði fundargerð.
1. Tillögur til stjórnlagaráðs og samskipti við allsherjarnefnd
Tillögur til stjórnlagaráðs voru kynntar og verða sendar ráðinu formlega þann 6. apríl en þá tekur ráðið til starfa. Á vefsvæði stjórnlagaráðsins er innsendingarform fyrir tillögur og verður það notað. Einnig verða tillögurnar sendar fulltrúum beint. Almenn ánægja með tillögur félagsins og þá vinnu sem félagsmenn hafa lagt í þær. Vonast er til að þær verði allar að veruleika.
Einnig var rætt um samskipti félagsins við allsherjarnefnd. Félagið sendi erindi á þingmannanefnd er fjallaði um viðbrögð við niðurstöðu nefndar hæstaréttardómara um að kosningar til stjórnlagaþings væru ógildar, þess efnis að velja mætti fulltrúa á slíkt þing með slembivali. Félagið fékk engin viðbrögð við því erindi. Þá sendi félagið erindi á allsherjarnefnd er hafði til umræðu sama mál og fékk þar annars vegar bréf sem í stóð „mótt.“ og hins vegar, þegar spurt var hvort nefndin hefði fjallað um erindi félagsins, bréf þess efnis að nefndin svaraði því ekki. Þótti fundarmönnum viðbrögð nefndarinnar ekki í anda þess lýðræðis er félagið berst fyrir. Ákveðið var að Kristinn Már skyldi spyrjast nánar út í þessi vinnubrögð og að stjórnin myndi fylgja málinu eftir í von um að einhvern lærdóm mætti draga af þessu.
2. Tillögur málefnahópa
Kristinn Már kynnti tillögur frá málefnahópi um lýðræði á sviði stjórnmálanna. Tillögurnar byggja á tillögum til stjórnlagaráðs en eru almennari. Hópurinn mun nú vinna að því að koma tillögunum á framfæri með ýmsum leiðum.
Rætt var um þá grunnhygmyndafræði félagsins að tengja saman stefnu og raunhæfar leiðir og vísa til þess þar sem lýðræðisvæðing hefði heppnast vel.
Aðrir hópar voru ekki tilbúnir með tillögur og ákveðið var að boða til annars stjórnarfundar til að ganga frá tillögum málefnahópa. Ákveðið var að sá stjórnarfundur verði 19. apríl.
Einnig var ákveðið að halda fundi í málefnahópum í næstu viku
Hópurinn um lýðræðislegt hagkerfi mun funda 11. apríl kl. 20.30.
Fundur verður í sjálfbærnihópnum 13. apríl kl. 20.30.
Stjórnmálahópurinn heldur fund 14. apríl kl. 20.30.
Nánari upplýsingar um efni fundanna verða birtar von bráðar á vefsvæði félagsins.
3. Vefsíðan
Tillögur að nýju merki og vefsíðu. Góður gangur er í málinu. Haldinn verður fundur með Dóru, Sólveigu, Kára og Antoni sem
vinna áfram með málið.
4. Önnur mál
a. Umræður um húsnæðismál. Vakti það furðu fundarmanna að hugmyndahúsið hljóti ekki náð ráðamanna. Nauðsynlegt sé að húsnæði sé aðgengilegt fyrir grasrótar- og frumkvöðlastarf.
b. Rætt var um stofnun nýs hóps um Lýðræði og menntakerfi. Fundarmenn voru sammála um að beina kröftum félagsins í þá hópa sem eru að störfum en einnig að mikilvægt sé að fjalla um lýðræði á sviði menntakerfisins. Ákveðið var að taka fyrir lýðræðisvæðingu menntastofnana á vettvangi hóps um lýðræðislegt hagkerfi.
Enn rætt um skipun stjórnlagaráðs og svo voru stuttar umræður um IceSave.
Björn sleit prýðilegum fundi kl. 21:40