Lýðræðisfélagið hefur sent inn eftirfarandi tillögur til stjórnlagaráðs. Hverri tillögu fylgir greinargerð og fordæmi ef finnst. Tillögurnar eru tólf talsins og snúa að ákvæðum um forseta, kosningakerfi, dómendur, borgaraþing, fyrirtæki, stjórnlagaþing, þjóðaratkvæðagreiðslur, opið lýðræði ofl.

Forseti

Alþingi kýs forseta og varaforseta úr röðum ráðherra einu sinni á ári. Enginn má sitja sem forseti lengur en eitt ár í senn. Forseti stýrir ríkisstjórnarfundum og kemur fram fyrir Íslands hönd við hátíðleg tækifæri. Hann hefur engin völd umfram aðra ráðherra og sinnir ráðherraembætti sínu á meðan hann er forseti.

Greinargerð:
Lýðræðisfélagið Alda hefur valddreifingu að leiðarljósi. Það er því andstætt markmiðum félagsins að viðhalda forsetaembættinu í núverandi mynd. Félagið leggur til að tekið verði upp sama kerfi og í Sviss þar sem dregið er úr völdum forseta og hann gerður að fundarstjóra á ríkisstjórnarfundum og táknrænum fulltrúa ríkisins. Forseti hefur engin völd umfram aðra ráðherra. Alþingi kýs forseta einu sinni á ári og þannig dreifast skyldur hans á fleiri hendur. Vald hans til að leggja lagafrumvörp í dóm almennings er fært yfir til almennings og þingmanna. Hér má kynna sér stjórnarskrá Sviss á ensku (http://www.admin.ch/org/polit/00083/index.html?lang=en)

Kosningakerfi

Á Alþingi eiga sæti 42 þjóðkjörnir þingmenn og 21 sem valdir eru með slembivali úr röðum allra íslenskra ríkisborgara á aldrinum 18-70 ára. Þjóðkjörnir þingmenn eru kosnir leynilegri hlutbundinni kosningu. Helmingur þeirra skal valinn með persónukjöri og aðrir með listakosningu. Kjósandi getur valið frambjóðendur af mismunandi listum. Slembival fer fram þegar úrslit kosninga liggja fyrir. Aðeins má muna einum á fjölda þingmanna af hvoru kyni, af listakosningu, persónukjöri og af slembivalsfulltrúum. Allir þingmenn eru kjörnir til 4 ára.

Greinargerð
Jafnrétti er forsenda lýðræðis og mikilvægt að sem flestir hópar komi að borðinu. Því þykir Lýðræðisfélaginu Öldu mikilvægt, til að byrja með, að kynjaskipting þingmanna endurspegli kynjahlutföll meðal landsmanna allra. Því leggur félagið til að aðeins megi muna einum á fjölda þingmanna af hvoru kyni, af listakosningu, persónukjöri og af slembivalsfulltrúum. Einnig er æskilegt að leitað sé leiða til að tryggja þátttöku annarra minnihluta- og jaðarhópa, t.d. hinsegin fólks, fólks með skerðingar og láglaunafólk svo dæmi séu tekin. Rannsóknir sýna að ýmsir hópar samfélagsins hafa hlutfallslega mun færri málsvara við opinbera ákvarðanatöku. Nauðsynlegt er í lýðræðisríki að gæta þess að allir hópar samfélagsins eigi beinan þátt í ákvarðanatöku. Því skal ríkisvaldinu skylt að móta reglur um kjör þingmanna sem virða réttindi einstaklinga með kynvitund sem fellur ekki að hefðbundinni tvíhyggju í hugsun um kyn.
Hér er mælt með að Alþingi starfi í einni deild. Einnig kæmi til greina að það starfaði í tveimur deildum. Í neðri deild yrðu þjóðkjörnir þingmenn en efri deild eingöngu skipuð slembivals-fulltrúum. Rannsóknir hafa sýnt fram á að nokkur munur er á hagsmunatengslum og því hverju ráði ákvarðanatöku fulltrúa sem valdir eru með ólíkum hætti, s.s. flokkakjöri, persónukjöri og slembivali. Slembivalsfulltrúar líta að jafnaði á sig sem beina fulltrúa allra meðan flokkakjörnir eru fulltrúar sinna eigin kjósenda. Af þeim sökum kann að vera skynsamlegt að í efri deild sitji slembivalsfulltrúar sem gæti heildarhagsmuna. Með því er ekki verið að segja að ein tegund fulltrúa sé betri en önnur heldur að ólíkum aðferðum við val á fulltrúum fylgi kostir og gallar.

Dómendur

Settar skulu reglur um hæfni þeirra sem sækja um dómarastöðu. Slembivalsnefnd hæstaréttardómara metur hæfi umsækjenda skv. þeim reglum. Valið er á milli hæfra umsækjenda með hlutkesti. Aðeins má muna einum á milli kynja.

Greinargerð
Það er mikilvægt að þeir sem fara með dómsvaldið séu valdir með fagleg sjónarmið að leiðarljósi, án afskipta framkvæmdavaldsins og löggjafarvaldsins. Því leggur Lýðræðisfélagið Alda til að slembivalsnefndum hæstaréttarlögmanna sé fengið það hlutverk að meta hæfi umsækjenda um stöðu hæstaréttardómara. Hlutkesti sker síðan úr um hver hlýtur dómaraembættið. Þannig er komið í veg fyrir óeðlilega íhlutun framkvæmdavaldsins í skipan dómara. Kynjaskipting skal vera jöfn meðal dómara og aðeins má muna einum milli kynja. Því er í sumum tilfellum aðeins valið milli umsækjenda af öðru kyninu.

Borgaraþing

Löggjafarvaldinu er heimilt að framselja vald sitt að hluta til borgaraþinga sem mönnuð eru öðrum en kjörnum fulltrúum og slembivalsfulltrúum á þingi. Fulltrúar á borgaraþing skulu valdir með hlutbundinni kosningu og/eða slembivali. Þriðjungur þingmanna og 8% atkvæðisbærra manna geta krafist borgaraþinga um brýn málefni.

Greinargerð
Í sönnum lýðræðisríkjum á aðkoma almennra borgara að ákvarðanatöku að vera tryggð. Sem stendur hefur almenningur fá úrræði utan almennra þingkosninga fjórða hvert ár. Víða um heim eru haldin borgaraþing þar sem ákvarðanir eru færðar í opið lýðræðislegt ferli með aðkomu almennra borgara og má í því sambandi nefna tvö dæmi:

a. Stór hluti fjárhagsáætlunar brasilísku borgarinnar Porto Alegre hefur verið ákveðinn í þátttökuákvörðunarferli þar sem um 8% borgarbúa taka árlega þátt í ferlinu. Í borginni búa um 1,4 milljónir manna og hefur þessi aðferð verið notuð frá lokum 9. áratugar síðustu aldar með góðum árangri.
Meðal þeirra breytinga sem leitt hafa af lýðræðisvæðingunni eru:
I. Spilling hvarf, enda ferlið opið og gagnsætt – engar leiðir innan kerfisins til þess að lauma fjármagni til tengdra aðila.
II. Fjármagn fluttist í meira mæli til fátækari svæða frá ríkari svæðum.
III. Grasrótarstarf efldist verulega, fólk tók sig saman um að stofna félög um forgangsröðun verkefna innan hverfa og svæða borgarinnar.

b. Í Bresku Kólumbíu í Kanada var ákveðið að gera breytingar á kosningalöggjöfinni og farin sú leið að skipa slembivalsþing. Þar voru valdir með handahófi úr þjóðskrá 160 borgarar (með jöfnu kynjahlutfalli) sem komu saman og unnu tillögu sem svo var lögð fram í fylkiskosningu.

Í íslensku stjórnarskránni eru engin ákvæði sem heimila ríkisvaldinu að framselja vald sitt til lýðræðislega kjörinna borgaraþinga. Mikilvægt er að slíku ákvæði verði komið inn í stjórnarskrá til að tryggja möguleikann á lýðræðislegri ákvarðanatöku í þátttökuferlum og/eða slembivalsþingum.
Gert er ráð fyrir að borgararþing sé kölluð saman þegar ræða þarf stór mál sem krefst víðtækara samráðs við almenning en Alþingi býður upp á. Þá eru haldnir umræðu- og kynningarfundir um allt land, víðtæk umræða og kynning fer fram í fjölmiðlum, fulltrúar valdir til þess að endurspegla ólíka hópa meðal almennings og langur tími gefinn til þess að ljúka ferlinu. Mælst er til þess að borgaraþing séu einnig kölluð saman í málum á sveitastjórnarstigi.

Fyrirtæki

Fyrirtæki, félög og stofnanir lúti lýðræðislegri stjórn þeirra sem hjá þeim starfa: Hver starfsmaður hafi eitt atkvæði. Starfsmenn reka fyrirtækið í sameiningu, ákvarða stefnu þess og skipulag.

Greinargerð
Stærstan hluta lífs okkar erum við undir einveldi eða fámennisstjórn í vinnunni en fyrirtæki og stofnanir lúta ekki leikreglum lýðræðis. Of margar ákvarðanir og of stór hluti stofnana samfélagsins er undanskilinn lýðræðislegu skipulagi. Því er rétt að færa þær ákvarðanir í hendur almennings með beinum hætti. Rannsóknir sýna að lýðræðisleg fyrirtæki eru a.m.k. jafn hagkvæm og kapitalísk fyrirtæki en koma betur út félagslega. Til þess að lýðræðisríki geti staðið undir nafni er nauðsynlegt að lýðræðisvæða efnahagslífið.
Dæmi um lýðræðisleg fyrirtæki eru Mondragón (http://www.mondragon-corporation.com/) sem er sjöunda stærsta fyrirtæki Spánar og tímaritið New Internationalist (http://www.newint.org/) sem hefur verið samvinnurekið frá árinu 1970.
Lýðræðisfélagið Alda leggur til að öll fyrirtæki með fleiri en fimm starfsmenn séu samvinnurekin þannig að allir starfsmenn komi að stjórn og ákvarðanatöku fyrirtækisins. Hver starfsmaður hafi eitt atkvæði óháð starfi og stöðu. Mögulegt er að fyrirtækjum með fimm starfsmenn eða færri sé stjórnað á annan hátt og er það gert til að auðvelda sprotafyrirtækjum að komast á legg. Mikilvægt er að girða fyrir að fyrirtæki fari á svig við þessa meginreglu með því að ráða fólk sem vinnur að kjarnastarfsemi fyrirtækisins sem verktaka eða nýta sér starfsmannaleigur með óeðlilegum hætti.
Nánari upplýsingar um samvinnufyrirtæki hjá International Co-operative Alliance: (http://www.ica.coop/coop/statistics.html)

Kjördæmi

Kjördæmi skulu ákvarðast af fjölda íbúa og landfræðilegri stærð. Þau geta ekki verið fleiri en 21 en að öðru leyti útfærð í kosningalöggjöf.

Greinargerð
Lýðræðisfélagið Alda leggur áherslu á að jafna atkvæðavægi eins og kostur er. Hins vegar þykir félaginu einnig mikilvægt að sem flestir mismunandi hópar komi að borðinu og að raddir frá mismunandi byggðarlögum fái að heyrast á Alþingi. Því leggur félagið til að kjördæmum verði haldið í stjórnarskrá en kjördæmaskipan útfærð á þann hátt að unnt verði að jafna atkvæðavægi sem mest hverju sinni án þess að búa til of stór kjördæmi eins og t.d. Suðurkjördæmi er nú.
Tveir þættir skulu takmarka stærð kjördæma. Landfræðileg stærð má ekki fara yfir ákveðin mörk og fjöldi íbúa í hverju kjördæmi skal einnig takmarkaður. Þannig er viðbúið að Reykjavík skiptist í fleiri en tvö kjördæmi og fjölmennustu hverfin jafnvel einnig. Þó þykir rétt að takmarka hversu mörg kjördæmi geta verið og er hér miðað við að þau verði eigi fleiri en 21.

Stjórnlagaþing

Stjórnlagaþing skal haldið á 20 ára fresti. Einnig getur meirihluti þingmanna og 16% atkvæðisbærra manna krafist stjórnlagaþings. Kjörnir fulltrúar geta ekki setið á stjórnlagaþingi.

Greinargerð
Íslenska stjórnarskráin er grundvallartexti íslenskrar stjórnskipunar. Því þykir Lýðræðisfélaginu Öldu brýnt að stjórnarskráin sé lifandi skjal sem taki mið af raunveruleika íslensks samfélags hverju sinni. Því leggur félagið til að Alþingi framselji vald sitt til að semja stjórnarskrá til stjórnlagaþings fimmta hvert kjörtímabil til að fara yfir stjórnarskrána og gera nauðsynlegar breytingar á henni. Stjórnlagaþing skal vera borgaraþing með lýðræðislega kjörnum fulltrúum almennings. Alþingi og almenningur skal einnig geta kallað saman stjórnlagaþing líkt og önnur borgaraþing. En þar sem stjórnarskráin er grundvallarplagg og þegar er gert ráð fyrir stjórnlagaþingi á 20 ára fresti þykir réttast að herða skilyrði varðandi fjölda þeirra þingmanna og almennra borgara sem geta knúið fram stjórnlagaþing.

Þjóðaratkvæðagreiðslur

a. Með söfnun undirskrifta geta almennir kjósendur knúið fram bindandi þjóðaratkvæðagreiðslu um
1. afnám gildandi almennra laga eða lagaákvæða,
2. frumvarp til laga sem þeir sjálfir leggja fram,
3. tillögu að breytingum á ákvæðum stjórnarskrár, annarra en mannréttindaákvæðum.

b. Undirskriftasöfnun telst gild ef 8% kosningabærra manna krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu með undirskrift sinni og söfnunin uppfyllir að öðru leyti ákvæði almennra lag.

c. Einfaldur meirihluti kjósenda ræður úrslitum í þjóðaratkvæðagreiðslu.

d. Sveitarfélögum landsins skulu sett lög sem gera íbúum kleift að kalla fram allsherjaratkvæðagreiðslur.

e. Þriðjungur þingmanna getur knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslur.

Greinargerð
Lýðræðið grundvallast á að almenningur og fulltrúar hans fari með stjórn ríkisins. Því er afar mikilvægt að til séu úrræði sem geri almenningi kleift að hafa bein áhrif á löggjöf landsins. Þjóðaratkvæðagreiðslur eru meðal slíkra úrræða. Þær færa valdið frá ríkisvaldinu til almennings og tryggja honum ríkari rétt til þátttöku í stjórn landsins.
Möguleiki almennings til þess að kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslur felur ekki í sér að stöðugt gangi á með þjóðaratkvæðagreiðslum. Almennt er álitið að stjórnvöld séu líklegri til þess að hafa almannahagsmuni að leiðarljósi og ganga fram af hófsemi og tillitssemi, ef þau vita að almenningur getur hvenær sem er skorist í leikinn. Hópar sem eru í veikri stöðu geta beitt sér með því að höfða til réttlætiskenndar almennings. Eins getur almenningur komið málum á dagskrá sem rótgrónir pólitískir flokkar vanrækja eða láta sig litlu varða. Síðast en ekki síst geta þjóðaratkvæðagreiðslur verið leið til þess að gera út um umdeild mál þannig að allir megi við una.
Rétt er að hafa þjóðaratkvæðagreiðslur sem kjósendur kalla fram bindandi, þannig að þeir séu hvattir en ekki lattir til að lýðræðislegra athafna. Allar leiðirnar (I, II og III) til að kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslu byggjast á því að kjósendur sjálfir eigi frumkvæðið. Það er rökrétt þar sem bindandi þjóðaratkvæðagreiðslur fela í sér að kjósendur taka ákvörðunarvaldið í einstökum málum úr höndum fulltrúa sinna. Það fyrirkomulag útilokar ekki aðrar leiðir, svo sem að tilteknum minnihluta fulltrúa á löggjafarþingi sé tryggður réttur í stjórnarskrá til þess að vísa málum til þjóðarinnar eða að tiltekin mál séu ávallt borin undir þjóðaratkvæði. Gert er ráð fyrir ítarlegri almennri löggjöf um allar nefndar leiðir til að kalla fram þjóðaratkvæðagreiðslur. Leiðirnar þrjár segja að nokkru leyti fyrir um með hvaða hætti þjóðaratkvæðagreiðslu getur borið að.

a. Ákvæðið gerir ráð fyrir að almenn löggjöf verði sett um undirskriftasafnanir sem tilgreini nákvæmlega hvaða skilyrði slíkar safnanir skuli uppfylla og hver skuli úrskurða þær gildar eða ógildar. Í sambandi við þátttöku í slíkum söfnunum, þá er óráðlegt að fara fram á undirskriftir fleiri en sem nemur 8% kosningabærra manna. Dæmi má finna um mun lægra hlutfall og mun hærra, eins og vikið er að síðar í greinargerðinni. Ekki er ástæða til að gera kröfur um fleiri undirskriftir við safnanir sem miða að því að fá fram þjóðaratkvæðagreiðslu um breytingar á stjórnarskrá (liður a) III að ofan). Með almennri löggjöf má skilyrða slíka undirskriftasöfnun, sem og aðrar, t.d. með kröfum um tiltekna landfræðilega dreifingu undirskrifta.

b. Almennt séð er lýðræðislegt að þeir sem láta sig mál varða ráði úrslitum þess, en ekki þeir sem láta sig það engu varða eða ekki nógu miklu til þess að mæta á kjörstað. Ákvæðið skýrir sig að öðru leyti sjálft.

c. Rétt er að tryggja kjósendum stærstu sveitarfélaga sambærileg tækifæri til lýðræðislegra áhrifa og kjósendum er tryggður á landsvísu.

d. Rétt er að tryggja að minnihluti þingmanna geti vísað málum til þjóðarinnar og þannig komið í veg fyrir að meirihlutinn knýi umdeild frumvörp í gegn.

Fordæmi
Sviss varð fyrst ríkja til þess að taka upp þjóðaratkvæðagreiðslur að frumkvæði almennings árið 1891. Mörg ríki Bandaríkjanna tóku upp allsherjaratkvæðagreiðslur um svipað leyti. Tilgangur beggja var sá hindra að peningaöfl eða valdamiklir sérhagsmunahópar næðu undirtökunum í samfélaginu í gegnum fulltrúastofnanir þess.
Þjóðaratkvæðagreiðslur að frumkvæði almennings er að finna í 37 löndum, aðallega í Evrópu og Suður-Ameríku. Sum lönd sem ekki gera ráð fyrir slíkum þjóðaratkvæðagreiðslum á landsvísu gera það svæðisbundið. Það á við um stór sambandsríki á borð við Bandaríkin og Þýskaland. Í um helmingi ríkja Bandaríkjanna getur almenningur knúið fram allsherjaratkvæðagreiðslur. Sama á við um sambandslönd Þýskalands. Þau sambandslönd sem bættust við eftir sameiningu þýsku ríkjanna árið 1990 tóku öll upp sama fyrirkomulag.
Nokkuð algengt virðist að þjóðaratkvæðagreiðslur að frumkvæði almennings séu teknar upp í nýfrjálsum ríkjum og ríkjum sem hafa ratað í ógöngur fyrir ofríki og spillingu stjórnmálaafla. Þýskaland og Ítalía eru augljós dæmi um hið síðarnefnda. Af nýfrjálsum ríkjum í Evrópu má nefna Króatíu, Ungverjaland, Slóvakíu, Lettland og Litháen. Í hinu gamalgróna lýðræðisríki Sviss getur almenningur knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslur um breytingar á stjórnarskrá.
Í flestum löndum og ríkjum þar sem almenningur getur kallað fram þjóðaratkvæðagreiðslur eða allsherjaratkvæðagreiðslur er sá möguleiki einnig fyrir hendi á sveitarstjórnarstigi. Almennt séð er ekki lýðræðislegt að undanskilja málefni sem leggja má í þjóðaratkvæði, önnur en mannréttindi. Slíkt er þó gert í sumum löndum. Rétt er þá að undanskilin málefni séu nákvæmlega tilgreind í stjórnarská, þannig að þau verði ekki valin að geðþótta valdhafa hverju sinni.
Varast ætti að gera óhóflegar kröfur um fjölda undirskrifta til að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslur. Í löndum þar sem kröfur eru gerðar um að 15% kjósenda þurfi til eru slíkar atkvæðagreiðslur nánast orðin tóm. Í Hvíta-Rússlandi er gerð krafa um undirskriftir 33% kjósenda. Í Sviss geta á hinn bóginn um 2% kjósenda knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um stjórnarskrárbreytingar. Á Ítalíu getur um 1% kjósenda knúið fram þjóðaratkvæðagreiðslu um afnám tiltekinnar löggjafar. Kröfur um hátt hlutfall undirskrifta hygla almennt séð sterkum pólitískum öflum og valdamiklum sérhagsmunahópum.
Víða eru sett skilyrði um lágmarksþátttöku í þjóðaratkvæðagreiðslum, sérstaklega þeim sem varða breytingar á stjórnarskrá. Í Lettlandi og Litháen þarf að lágmarki helmingur kosningabærra manna að samþykkja stjórnarskárbreytingar en 25% í Ungverjalandi. Í lögskipuðum þjóðaratkvæðagreiðslum í Sviss ræður hins vegar einfaldur meirihluti. Á Ítalíu ræður einnig einfaldur meirihluti þeirra sem kýs en kosningaþátttaka þarf að ná 50%.
Skilyrðum um lágmarksþátttöku fylgir sá ókostur að kosningabarátta getur farið að snúast um að hvetja kjósendur til afskiptaleysis, að hunsa lýðræðislegar kosningar. Slíkt gengur þvert gegn einu meginmarkmiðinu með þjóðaratkvæðagreiðslum, sem er að hvetja almenning til afskipta af samfélagi sínu og lýðræðislegra dáða.
Þjóðaratkvæðagreiðslur að frumkvæði almennings eru nánast undantekningalaust lagalega bindandi.

Opið lýðræði

Fundir Alþingis og allir fundir hins opinbera skulu ávallt haldnir í heyranda hljóði. Allar upplýsingar og fundargögn skulu vera aðgengileg almenningi með skilvirku móti. Öll opinber gögn skulu aðgengileg og engar reglur gilda sem leyfa frávik frá þeirri reglu aðrar en þær sem lúta að vernd persónuupplýsinga. Almenningi er heimilt að ávarpa Alþingi reglulega, t.d. á tilteknum tíma í viku hverri.

Greinargerð
Ein af grunnstoðum lýðræðisins er gagnsæi í ákvarðanatöku, þar sem öllum er frjálst að kynna sér forsendur og ferli ákvarðanatökunnar. Takmarkanir á aðgengi að upplýsingum koma í veg fyrir að almenningur hafi tækifæri til að kynna sér forsendurnar og eiga hlutdeild í þeim ákvarðanatökum sem fram fara.
Samfélagsgerð sem kennir sig við lýðræði hlýtur að byggja á opinni og gagnsærri ákvarðanatöku þar sem aðgengi að fundum og upplýsingum er varða ákvarðantöku fyrir hönd almennings séu hverjum sem er opið og einfalt. Erfitt er að átta sig á hvernig hagsmunum almennings er betur borgið í lýðræðisríki með því að ákvarðanir séu teknar í ógagnsæu og lokuðu ferli – líklegra er að slíkt ferli þjóni hagsmunum annarra hópa.
Lýðræðisfélagið Alda leggur til að allir opinberir fundir verði opnir almenningi og öll gögn varðandi ákvarðanatöku fyrir hönd almennings séu gerð aðgengileg á skilvirkan hátt þannig að almenningur eigi auðvelt með að fá yfirsýn yfir opinber gögn og finna þær upplýsingar sem hann sækist eftir. Þó má gera ráð fyrir takmarkanir á aðgengi almennings að upplýsingum sem falla undir ákvæði um vernd persónuupplýsinga og að gögnum sem tengjast beint opnum lögreglurannsóknum.
Félagið leggur einnig til að almenningi sé gert kleift að koma skoðunum sínum og tillögum á framfæri á beinan hátt við þá sem hann hefur kosið til að fara með vald sitt. Alþingi skal gera ráðstafanir til að almenningur geti nýtt sér þennan rétt, t.d. með að hafa fasta tíma í viku hverri þar sem almenningur fær að stíga í ræðustól.

Ráðherrar

Kosið er um ráðherra almennri kosningu samhliða kosningum til Alþingis. Kosið er milli fjögurra umsækjenda um hvert ráðherraembætti, tveggja kvenna og tveggja karla, sem valdir eru af nefnd. Í nefndinni sitja sjö kjörgengir borgarar valdir með slembivali. Ráðuneytum er skylt að vera nefndum innan handar með upplýsingar og aðstoð. Hlutfall ráðherra af hvoru kyni skal vera jafnt. Reynist kynjahlutfallið ójafnt skal það leiðrétt með því að varpa hlutkesti sem ákvarðar í hvaða ráðuneyti/um ráða skuli atkvæðahæsta umsækjandann af því kyni sem hallar á. Ekki er heimilt að vera í framboði til Alþingis og til ráðherraembættis samtímis. Ráðherrar hafa ekki frumkvæðisrétt á Alþingi.

Greinargerð
Samkvæmt núgildandi kerfi er framkvæmdavaldið og löggjafarvaldið samofið. Almenningur fær ekkert að segja um skipun ráðherra. Þetta kerfi býður upp á að flokkshagsmunir séu settir framar hagsmunum almennings. Lýðræðisfélagið Alda leggur til róttækar breytingar á kosningakerfinu þar sem aðeins þriðjungur þingmanna er kosinn í nafni ákveðinna stjórnmálaflokka. Því til samræmis þarf að skipuleggja skipan ráðherra upp á nýtt með þrískiptingu ríkisvaldsins að leiðarljósi.
Farin er sú leið að láta kjósendur kjósa um ráðherra úr hópi tveggja kvenna og tveggja karla sem slembivalsnefnd með fulltrúum almennings hefur valið sem hæfustu einstaklinga úr hópi umsækjenda. Er það gert til að færa ákvarðanatökuna frekar til almennings þannig að hagsmunir almennings ráði ríkjum við ráðherraval, ekki flokkshagsmunir. Slembivalsnefndum er í sjálfs vald sett hvaða þættir eru hafðar að leiðarljósi við val á fjórum umsækjendum en séu gerðar sérstakar kröfur til menntunar og reynslu skal það koma fram þegar auglýst er eftir umsækjendum. Nefndarfundir skulu opnir öllum og öll gögn um störf nefndar sömuleiðis aðgengileg hverjum sem er og almenningi þannig mögulegt að eiga hlutdeild í valinu. Lýðræðisfélagið leggur þannig til að framkvæmdavaldið sé aðskilið frá löggjafarvaldinu og því sé eðlilegt að ráðherrar hafi ekki frumkvæðisrétt á Alþingi.
Lýðræðisfélagið Alda telur jafnframt að jafnrétti sé forsenda lýðræðis og því skuli aldrei muna nema einum í kynjaskiptingu ráðherra. Til að gæta allrar sanngirni skal hlutkesti ráða hvaða ráðherrar þurfi að víkja sæti fyrir hæfasta einstaklingi af gagnstæðu kyni ef kynjaskipting ráðherra reynist skökk.

Fjármál stjórnmálaflokka

a. Stjórnmálasamtök, sem beint eða óbeint bjóða fram í kosningum til Alþingis eða sveitarstjórna, mega taka við fjárhagslegum stuðningi frá öðrum en lögaðilum og félagasamtökum upp að tiltekinni heildarfjárhæð. Stuðningur hins opinbera skal felast í öðru en beinum fjárframlögum.

b. Frambjóðendum í alþingiskosningum og í kosningum til sveitarstjórna skal heimilt að taka við fjárhagslegum stuðningi frá öðrum en lögaðilum og félagasamtökum. Þeim skal heimilt að eyða tiltekinni hámarksfjárhæð í kosningabaráttu.

c. Fjárframlög til stjórnmálasamtaka og frambjóðenda í kosningum til Alþingis og sveitarstjórna skulu ávallt opin almenningi til skoðunar og háð opinberu eftirliti.

Greinargerð
a. Ákvæðið felur í sér að stjórnmálasamtök geti aðeins þegið fjárhagslegan stuðning frá einstaklingum og hinu opinbera. Með því að taka fram að átt sé við stjórnmálasamtök sem beint eða óbeint bjóða fram í kosningum, er reynt að tryggja að ekki verði skilið á milli tiltekinna stjórnmálasamtaka og framboðs eða framboða á þeirra vegum. Stuðningur hins opinbera með öðru en fé felur í sér að hið opinbera getur samt sem áður búið stjórnmálasamtökum aðstöðu til að sinna lýðræðislegu hlutverki sínu. Ætla má að slíkur stuðningur geti fremur orðið til þess að jafna aðstöðu flokka en beinn fjárhagslegur stuðningur. Ákvæðið skýrir sig að öðru leyti sjálft. Með því að tiltaka heildarfjárhæð eru settar hömlur á fjárstreymi til stjórnmálasamtaka og jafnframt þarf löggjafinn að svara því hvað þarf til þess að heyja lýðræðislega kosningabaráttu. Eðlilegt er að takmarka það fé sem hverjum einstökum stuðningsmanni er leyft að leggja stjórnmálasamtökum til, þannig að þau geti ekki talist á vegum eins eða fárra fjársterkra einstaklinga.

b. Ákvæðinu er ætlað að hemja fjárþörf frambjóðenda og hindra að þeir verði háðir tilteknum fyrirtækjum eða félagasamtökum.

c. Ákvæðið felur í sér að almenningur geti fengið upplýsingar um fjárframlög til frambjóðenda og stjórnmálasamtaka hvenær sem þess er óskað.

Almennar forsendur
Í leiðbeiningum svokallaðrar Feneyjanefndar Evrópuráðsins (The European Commission for Democracy through Law, eða The Venice Commission) segir, að ástæða geti verið til að banna fjárframlög til stjórnmálaflokka frá fyrirtækjum í viðskiptum og atvinnulífi. Ætla verður að Ísland sé meðal þeirra landa sem þurfi að huga einmitt að slíkum ráðstöfunum.
Áttunda bindi skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis ber heitið Siðferði og starfshættir í tengslum við fall íslensku bankanna 2008. Í kafla II. 3 Samskipti stjórnmála og efnahagslífs segir: „Eitt augljósasta tæki viðskiptalífsins til að hafa áhrif á stjórnmálamenn eru bein fjárframlög, bæði til stjórnmálaflokka og einstakra stjórnmálamanna“. Í niðurlagi kaflans, þar sem ályktað er um þá lærdóma sem draga þurfi af ógöngum landsins, segir ennfremur: „Leita þarf leiða til þess að draga skýrari mörk á milli fjármálalífs og stjórnmála. Ekki er líðandi að gæslumenn almannahagsmuna gangi erinda einkafyrirtækja með þeim hætti sem gert var í aðdraganda bankahrunsins.“
Dagana 8.-15. september 2010 kannaði Capacent Gallup afstöðu almennings til styrkja frá fyrirtækjum og einstaklingum til stjórnmálamanna og stjórnmálasamtaka. Afgerandi meirihluti, eða 68%, sagðist andvígur því að íslenskum stjórnmálamönnum og stjórnmálasamtökum sé heimilt að taka við fjárframlögum frá fyrirtækjum. Þá sögðust 79% þjóðarinnar andvíg því að stjórnmálamönnum og stjórnmálasamtökum sé heimilit að taka við fjárframlögum frá einstaklingum án þess að nafn þess einstaklings sem veitir styrkinn sé gefið upp.
Íslenskum stjórnmálaflokkum hefur verið lýst sem „tómum skeljum“. Meiningin er sú að þeim sé stjórnað af tiltölulega fámennum hópi fólks og að lýðræðislegt starf innan flokkanna sé bágborið. Ýtt er undir slíkt ástand með því að stjórnmálaflokkarnir hafa lítið orðið til almennra félaga að sækja. Flokkarnir, þeir gamalgrónu, eru orðnir sjálfum sér nægir eftir að hafa tryggt sér fé úr sjóðum almennings og fjársterkra aðila í viðskiptalífi.
Ráðandi stjórnmálasamtök hverju sinni eru, eðli máls samkvæmt, óheppileg og vanhæf til þess að setja grundvallarreglur sem ofangreind ákvæði fela í sér.
Af áðurnefndum ástæðum er brýn nauðsyn að setja í grundvallarlög skýr ákvæði sem tryggja að Alþingi setji lýðræðislega löggjöf um fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda í almennum kosningum.

Fordæmi
Tvö meginsjónarmið eru uppi um fjármögnun stjórnmálaflokka í Evrópu. Annars vegar er litið svo á að flokkarnir séu eins og hver önnur frjáls félagasamtök. Þeir eigi því að stóla á framlag almennra félaga til þess að reka sig frá degi til dags, en hið opinbera aðstoði þá við að heyja lýðræðislega kosningabaráttu.
Hitt sjónarmiðið er að flokkarnir gegni svo mikilvægu hlutverki í samfélaginu að þeir eigi í raun að vera á framfæri hins opinbera. Sú tilhögun er algeng í mörgum helstu ríkjum Evrópu, en það er alls ekki einhlítt. Þannig bannaði Frakkland styrki frá fyrirtækjum til stjórnmálaflokka árið 1995, eftir að það fyrirkomulag tók að vekja úlfúð og tortryggni almennings.
Síðarnefnda sjónarmiðið er ríkjandi á Íslandi, og hefur síst orðið til heilla fyrir land og þjóð, eins og skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis vitnar um. Flokkarnir hafa orðið sífellt frekari til opinbera fjárins en samt sótt ótæpilega í fé fyrirtækja og annarra lögaðila.
Stjórnmálaflokkarnir virðast jafnframt líta orðið á sjálfa sig sem hluta af stjórnskipan landsins. Þannig þykir ekki, svo dæmi sé tekið, tiltökumál að setja lög sem mæla fyrir um að Alþingi greiði 50% álag á þingfararkaup tiltekinna þingmanna, af því að þeir gegni formennsku í stjórnmálaflokki. Hæpið er að það komi Alþingi beinlínis við hvaða embætti þingmaður kýs að gegna í stjórnmálasamtökum sem hann sjálfur hefur kosið að ganga til liðs við.
Taka þarf mið af aðstæðum á Íslandi og fenginni reynslu, svo sem skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis mælist til að sé gert. Bregðast þarf við hömlulausri fjárþörf stjórnmálaflokkanna með róttækum hætti, og ýta um leið almennt undir lýðræðislega starfshætti þeirra. Aðeins þannig munu þeir geta gengt sínu lýðræðislega hlutverki.

Aðgengi að fjölmiðlum

a. Framboðum í Alþingiskosningum skal tryggður jafn, nákvæmlega tilgreindur og víðtækur aðgangur að útvarpi og sjónvarpi, og öðrum áhrifaríkustu fjölmiðlum hverju sinni, til þess að kynna stefnumál sín.

b. Framboðum í Alþingiskosningum og í kosningum til sveitarstjórna skal heimilt að ráðstafa tiltekinni hámarksfjárhæð í pólitískar auglýsingar í kosningabaráttu, það er á tilteknu tímabili í aðdraganda kosninga.

Greinargerð
a. Útvarp og sjónvarp eru áhrifaríkustu fjölmiðlar samtímans. Með því að tiltaka einnig áhrifaríkustu fjölmiðla hverju sinni, er tryggt að löggjafinn geti brugðist við breytingum í fjölmiðlun og metið stöðuna á hverjum tíma. Víðtækur aðgangur felur í sér að löggjafinn þurfi hugsanlega að leggja lýðræðislegar skyldur á herðar fleiri fjölmiðlum en þeim sem eru í eigu hins opinbera. Kosningar í fjölmennustu sveitarfélögum landsins eru undirorpnar sömu baráttuaðferðum og kosningar til Alþingis og þurfa því að lúta svipuðum reglum. Að öðru leyti skýrir ákvæðið sig sjálft.

b. Ákvæðið er sett til þess að hemja fjárþörf stjórnmálasamtaka og framboða, og stuðla að því að pólitískum sjónarmiðum sé ekki mismunað um of í krafti peninga. Ákvæðið skýrir sig að öðru leyti sjálft.

Almennar forsendur
Auglýsingar í sjónvarpi og útvarpi eru dýrar, og peningar og valdaaðstaða geta ekki ráðið úrslitum í kosningabaráttu, eigi slík barátta að heita lýðræðisleg. Jafnræði er grundvallaratriði. Eins mega áhrifamestu fjölmiðlar ekki verða háðir auglýsingatekjum frá tilteknum stjórnmálasamtökum. Þessi sjónarmið eru almennt viðurkennd í lýðræðisríkjum og af fræðimönnum.
Ísland sker sig algerlega úr í hópi Evrópuríkja að því leyti að hér er stjórnmálasamtökum heimilt að auglýsa í ljósvakamiðlum án nokkurra takmarkana. Slíkt fyrirkomulag hefur leitt til andlýðræðislegrar mismununar og espað fjárþörf stjórnmálaflokka óeðlilega.
Gamalgrónu stjórnmálaflokkarnir hafa tekið sér sífellt meira fé úr almannasjóðum og skuldsett sig ótæpilega í kosningum. Almennt hafa þeir gert sig háða peningaöflum í samfélaginu með hörmulegum afleiðingum. Við því þarf að bregðast.
Ný framboð til Alþingis standa við þessar aðstæður afar illa að vígi. Hiklaust má segja að um kerfisbundna útilokun nýrra framboða sé að ræða. Jafnvel má tala um valdaeinokun gamalgróinna stjórnmálaflokka í þessu sambandi.
Ráðandi stjórnmálasamtök hverju sinni eru, eðli máls samkvæmt, óheppileg og vanhæf til þess að setja grundvallarreglur sem fyrrnefnd ákvæði fela í sér.
Af ofangreindum ástæðum er brýn nauðsyn að setja í grundvallarlög skýr ákvæði sem tryggja að sett verði almenn lýðræðisleg löggjöf um pólitískar auglýsingar og kynningar í öflugustu fjölmiðlum.

Fordæmi
Bandaríkin, og örfá ríki önnur, leyfa að stjórnmálaflokkar kaupi sér pólitískar auglýsingar í útvarpi og sjónvarpi í kosningabaráttu. Slíkar auglýsingar eru yfirleitt bannaðar eða um þær gilda strangar reglur. Danmörk, Svíþjóð og Noregur eru dæmi um lönd sem banna slíkar auglýsingar alveg.
Pólitískar auglýsingar í útvarpi og sjónvarpi geta sannarlega unnið gegn lýðræðislegum tilgangi kosninga og lýðræði almennt. Hins vegar má gagnrýna hve illa öflugustu fjölmiðlar samtímans eru nýttir til þess að efla lýðræði. Með sjónvarpi og útvarpi er hægt að virkja almenning til þátttöku í lýðræðislegu starfi og kosningum svo um munar. Fjölmiðlar geta stuðlað að betri upplýsingagjöf og almennt upplýstari kjósendum, ef rétt er að málum staðið.
Í Bretlandi eru keyptar pólitískar auglýsingar í útvarpi og sjónvarpi bannaðar. Hins vegar er stjórnmálaflokkunum úthlutað tilteknum tíma í helstu ljósvakamiðlum til þess að kynna stefnumál sín og sjónarmið. Svipað fyrirkomulag er t.d. á Írlandi og í Frakklandi. Í Portúgal er lögð sú lýðræðislega skylda á alla ljósvakamiðla að gefa stjórnmálaflokkum tiltekið pláss til kynningar. Svipuð regla var tekin upp á Ítalíu árið 2002. Í Grikklandi mega stjórnmálaflokkar eyða tiltekinni hámarksfjárhæð í auglýsingar, sem þó má ekki má nema meiru en 20% af heildarútgjöldum við kosningabaráttu.
Á þennan hátt má fara land úr landi í Evrópu og allt ber að sama brunni: Ísland er viðskila við önnur ríki álfunnar þegar kemur að pólitískum auglýsingum í ljósvakamiðlum, þessum grundvallarþætti í hverju lýðræðisríki.