Fundur verður í málefnahópi um lýðræðislegt hagkerfi mánudaginn 11. apríl kl. 20:30 í Hugmyndahúsinu. Rætt verður um meðfylgjandi drög að stefnu, þar sem segir m.a.: Eðli málsins samkvæmt munu lýðræðislega rekin fyrirtæki miða að öðru en sem mestum skammtímahagnaði. Þau munu miða að sjálfbærum rekstri, atvinnuöryggi, launajöfnuði og góðum félagslegum aðbúnaði starfsmanna.

Lýðræðisfélagið Alda – málefnahópur um lýðræðislegt hagkerfi

Stefnumál (drög)

Meginhugsjónir Lýðræðisfélagsins Öldu eru lýðræði og sjálfbærni.

Markmið Lýðræðisfélagsins Öldu er að lýðræði nái til allra sviða þjóðfélagsins. Þar er svið efnahagslífsins engin undantekning. Raunar sýna fordæmin að það er ekki síst á því sviði sem lýðræðisumbóta er þörf.

Samfélag sem einkennist af óheftri útþenslu og hundakúnstum fjármagnsins verður aldrei lýðræðislegt í raun. Valdið færist frá fólkinu til þeirra sem véla um fjármagnið. Úr verður fámennisstjórn auðmanna og taglhnýtinga þeirra. Útþenslu fjármagns fylgir óhjákvæmilega sóun á auðlindum með tilheyrandi umhverfisspjöllum og röskun á vistkerfi og náttúru.

Lýðræðisleg fyrirtæki

Gegn þessari afbökun lýðræðisins teflir Lýðæðisfélagið Öldu einfaldri grunnhugmynd sem er trú innsta kjarna hugmyndarinnar um lýðræði: Að fyrirtæki og stofnanir lúti lýðræðislegri stjórn starfsmanna, eitt atkvæði á mann. Skipulagið verður eins og í lýðræðisríki. Starfsmenn kjósa sér fulltrúa sem stjórna fyrirtækinu. Umboð stjórnenda þarf að endurnýja reglulega. Starfsmenn búa þar að auki yfir úrræðum til að víkja stjórnendum frá þegar þörf krefur og til að leggja einstök mál í dóm starfsmanna með almennum atkvæðagreiðslum.

Eðli málsins samkvæmt munu lýðræðislega rekin fyrirtæki miða að öðru en sem mestum skammtímahagnaði. Þau munu miða að sjálfbærum rekstri, atvinnuöryggi, launajöfnuði og góðum félagslegum aðbúnaði starfsmanna.

Félagslegt bankakerfi

Til að markmiðið um lýðræðislegt hagkerfi náist þarf að setja útþenslu fjármagnsins verulegar skorður. Lýðræðisfélagið Alda stefnir að því að öll hlutabréfaviðskipti og fjármálagerningar sem grundvallast á ávöxtun fjármagns heyri sögunni til. Fyrirtæki greiði leiguskatt sem renni til fjármögnunar fyrirtækja og nýsköpunar. Leiguskatti er dreift til byggðarlaga miðað við höfðatölu. Þar taka lýðræðislegar og faglegar bankastofnanir við fjármunum og veita styrki til atvinnureksturs. Umsóknir um styrki sem skapa atvinnu hafa forgang.

Markaðurinn áfram

Markaðir fyrir vörur og þjónustu verða áfram líkt og hingað til. Markaðurinn þjónar þeim tilgangi að miðla upplýsingum um framboð og eftirspurn svo fyrirtækin geti tekið skynsamlegar ákvarðanir um framleiðslu. Samkeppnin byggi ekki lengur á því að komast í einokunarstöðu heldur á skynsamlegri framleiðslu.

Velferðarkerfi

Til staðar verði öflugt velferðarkerfi með jöfnum aðgangi að menntun, heilbrigðisþjónustu og lífeyri. Atvinnuleysi verður ekki lengur talið eðlilegt. Stefnt er að fullri atvinnu. Bankakerfið hefur það grundvallarmarkmið að skapa atvinnu, og ríkisvaldið ræður fólk til að halda uppi öflugu velferðarkerfi og styrkja innviði samfélagsins.

Styttri vinnutími – sanngjörn laun

Í dag er tekjumunur innan fyrirtækja jafnvel 500 á móti 1. Í lýðræðislegu hagkerfi má gera ráð fyrir tekjumun innan fyrirtækja upp á u.þ.b. 9 á móti 1. Starfsmönnum gefst loks færi á því að velja á milli hærri launa eða meiri frítíma því ekki er lengur þrýstingur á að vinnandi fólk starfi sem lengst fyrir sem minnst. Markmiðið er sjálfbært hagkerfi jöfnuðar en ekki botnlaus auðsöfnun og auðlindasóun í þágu fárra.