Lýðræðisfélagið Alda býður til málþings laugardaginn 30. apríl kl. 14 til að ræða tillögur félagsins að breytingum á stjórnarskrá við stjórnlagaráðsfulltrúa og alla áhugasama. Kristinn Már Ársælsson mun kynna tillögurnar fyrir hönd félagsins. Þá mun stjórnlagaráðsfulltrúarnir Katrín Oddsdóttir og Andrés Magnússon fjalla stuttlega um tillögurnar. Að loknu kaffihlé verður opnað fyrir almennar umræður.

Málþingið hefst kl. 14 í fyrirlestrasal Listaháskóla Íslands Skipholti 1 á gatnamótum Skipholts og Stórholts. Gengið er inn í húsið Skipholtsmegin.

Málþingið er öllum opið og eru félagsmenn sem aðrir eindregið hvattir til að mæta og taka þátt samræðu almennings og stjórnlagaþingsfulltrúa um lýðræði og stjórnarskrá Íslands.

Þann 6. apríl sendi lýðræðisfélagið Alda inn tillögur að breytingum á stjórnarskrá til stjórnlagaráðs. Tillögurnar eru tólf talsins og þar er t.d. lagt til að valda forseta sé stórlega skert, að róttækar breytingar verði gerðar á vali á Alþingismönnum, ráðherrum og dómendum, að fyrirtæki verði lýðræðisvædd, að stjórnlagaþing verði haldið með reglulegu millibili, að almenningur geti krafist þjóðaratkvæðagreiðslu og að hömlur séu settar við auðsöfnun og kosningaáróðri frambjóðenda til Alþingis og sveitastjórna.

Nánari upplýsingar um tillögurnar er að finna á heimasíðu félagsins: http://lydraedi.wordpress.com/2011/04/06/tillogur-til-stjornlagarads/#more-340