Lýðræðisfélagið Alda sendi allsherjarnefnd Alþingis nýlega erindi varðandi mál sem nefndin hafði til umfjöllunar. Engin viðbrögð bárust frá nefndinni og málið var afgreitt á Alþingi. Félagið spurðist þá fyrir um afgreiðslu erindisins og fékk þá þau svör að “þingnefndir svara ekki erindum sem þeim berast.” Þótti félaginu það ótrúlegt að engin leið væri fyrir almenning að fá upplýsingar um efnislega afgreiðslu erinda til þingnefnda, sem ætla mætti að störfuðu í umboði og þágu almennings, og sendi fyrirspurn til nefndarinnar:
“Er það rétt að þeir sem senda erindi á þingnefnd geti sem sagt ekki með neinum hætti komist að því hvort fjallað hafi verið efnislega um erindi þeirra í nefndinni?” og einnig “eru fundargerðir nefndanna opinberar og aðgengilegar?”
Svörin frá nefndarritara fyrir hönd nefndarinnar voru skýr og á þá leið að það sé þannig að nefndir svari ekki erindum, fundir séu lokaðir öðrum en nefndarmönnum, ekki séu haldnar fundargerðir hjá þingnefndum heldur gerðarbækur sem tiltaka aðeins hvaða mál voru á dagskrá og að gerðarbækurnar séu ekki birtar á vefnum.
Þannig er þá mál með vexti að engin leið er fyrir almenning að fá upplýsingar um efnislega meðferð þeirra erinda sem send eru til þingnefnda kjörinna fulltrúa almennings þar sem fjallað er um málefni er varða almenning. Almenningur má ekki mæta á fundina og fylgjast með umræðum. Ekki eru haldnar fundargerðir á fundunum og það litla sem skráð er um þessa fundi er ekki birt á vefnum.
Lýðræðisfélagið Alda telur þetta óásættanlegt enda eigi lýðræðið á að vera opið en ekki lokað. Auðvitað eiga þingnefndir að fjalla um erindi frá almenningi og greina frá þeirri umfjöllun. Auðvitað eiga að vera haldnar fundargerðir um fundi þar sem teknar eru ákvarðnir af fulltrúum almennings um opinber mál. Auðvitað eiga fundirnir að vera opnir almenningi.
Því miður er þetta aðeins eitt af fjölmörgum dæmum um brestina í lýðræðinu okkar. Aldan telur nauðsynlegt að breyta stjórnmálakerfinu með margvíslegum hætti og hefur sent ítarlegar tillögur til stjórnlagaráðs m.a. um aðgengi að upplýsingum, kjör til Alþingis, slembivalsfulltrúa, persónukjör, þjóðaratkvæðagreiðslur, borgaraþing, kjör ráðherra og ráðningu dómara svo fátt eitt sé nefnt. Einnig hefur félagið mótað tillögur um lýðræðisvæðingu stjórnmálanna.
Það er fyrir löngu tímabært að gera breytingar á stjórnmálakerfinu enda hefur vantrauststillaga á stjórnmálakerfið ítrekað verið samþykkt á undanförnum þremur árum þar sem traust á Alþingi hefur jafnvel farið undir 10% og stór hluti kjósenda treystir sér ekki til að velja flokk eða mun skila auðu.
Þess má svo geta að allir fundir hjá Öldunni eru opnir og alltaf haldnar fundargerðir sem eru svo birtar á vef félagsins. Hver sem er má mæta og koma með tillögu á fundum sem eru þá ræddar og gert grein fyrir þeim umræðum. Þannig á það líka að vera.
Tillögur Öldunnar til stjórnlagaráðs
Stefna Öldunnar um lýðræðisvæðingu stjórnmálanna
Stefna Öldunnar um lýðræðisvæðingu hagkerfisins
Nánari upplýsingar um samskiptin við allsherjarnefnd
Félagsmenn vildu benda kjörnum fulltrúum í nefndinni á þá leið í stjórnlagaþingsmálinu, sem nefndin hafði til umfjöllunar, að það mætti slembivelja fulltrúa á stjórnlagaþing, slíkt hefði verið reynt erlendis með góðum árangri – þannig mætti sleppa því að endurtaka kosningar en á sama tíma framkvæma í fyrsta sinn á Íslandi slembival á fulltrúum sem margir horfa til sem nauðsynlegrar lýðræðisumbótar.
Félagið sendi nefndinni bréf, það er að segja formanni nefndarinnar og nefndarritara. Svar barst um hæl frá nefndarritara, stutt og laggott: “Mótt.” Í erindi kom m.a. fram að félagsmenn væru reiðubúnir að veita frekari upplýsingar um erindið. Nú líður tíminn og loks kemur að því að málið er afgreitt í þinginu en ekkert hafði heyrst frá nefndinni varðandi erindi félagsins. Sendi félagið þá fyrirspurn á nefndina og spurði hvernig hefði háttað með afgreiðslu erindisins? Svarið var einfalt: “þingnefndir svara ekki erindum sem þeim berast.”
Félagsmenn áttu bágt með að trúa þessu. Getur það virkilega verið að það sé engin leið fyrir almenning að fá upplýsingar um hvernig fjallað var um erindi af hálfu þingnefndarinnar? Að fólk sem sendir sjónarmið eða erindi á þingnefnd fái engin viðbrögð? Hver er þá tilgangurinn með því að senda erindi á þingnefndir ef fólk stendur frammi fyrir sömu tilfinningu og því að henda einhverju ofan í hít eða svarthol?
Skilaboðin voru of ótrúleg, þetta hlutu að vera mistök og því ítrekuðum við fyrirspurnina: Nefndarritari svaraði með því að vísa í 19. grein þingskapa um að fundir nefnda séu lokaðir öðrum en nefndarmönnum og starfsmönnum þeirra nema nefnd ákveði annað. Svo var greint frá því að ekki séu haldnar fundargerðir hjá nefndum heldur gerðarbækur þar sem ekki kemur fram efnisleg umræða heldur aðeins hvaða mál voru tekin fyrir, hverjir komu á fundinn og svo ákvarðanir nefndar. Þessar gerðarbækur eru svo ekki birtar á vefnum.
Svo má líka segja frá því að Aldan sendi sama erindi mánuði áður á þingmannanefnd á vegum forsætisráðuneytisins sem fjallaði um næstu skref varðandi stjórnlagaþingið. Fyrst var erindið sent á forsætisráðuneytið og óskað eftir því að erindinu yrði komið til nefndarinnar en það var ekki hægt að finna neitt um nefndina á vefnum. Aldrei fékkst svar við því erindi, ekkert. Svo var erindið sent á nefndarmennina þegar upplýsingar voru gefnar upp í fjölmiðlum um hverjir sátu í nefndinni. Þaðan bárust heldur engin svör.