Alda hvetur Alþingi til þess að leggja tillögur Stjórnlagaráðs í dóm almennings, sem vert er að minna á að er æðsti valdhafi landsins, með þeim hætti að kjósendur geti sagt hug sinn um hvert ákvæði fyrir sig. Alþingi gangi að þeirri kosningu lokinni frá þeim ákvæðum sem hlutu náð almennings með þeim hætti að staðfesta megi sem nýja stjórnarskrá að loknum næstu Alþingiskosningum. Hafi Alþingi áhuga á því að gerðar verði frekari breytingar á stjórnarskránni en eru í tillögum Stjórnlagaráðs skal það gert með því að skipa nýtt Stjórnlagaráð sem fjallar um þær tillögur. Slíkt ráð má skipa með slembivali eins og reynt hefur verið erlendis með góðum árangri – en sú leið er ekki eins kostnaðarsöm og almennar kosningar.

Alda fagnar starfi Stjórnlagaráðs sem sýndi svo ekki verður um villst að almenningur er fullfær um að semja stjórnarskrá og ljúka við flókin viðfangsefni með málefnalegum hætti. Ekki var við öðru að búast enda hefur reynslan sýnt erlendis frá að svo sé. Ýmislegt má bæta í umgjörð og starfi ráðsins, s.s. að því hefði þurft að gefa meiri tíma og starf þess hefði þurft að vera opnara og umfangsmeira.