Fundur í málefnahópi um lýðræðislegt hagkerfi, 22. sept. 2011 kl. 20:30 í Grasrótarmiðstöðinni Brautarholti 4.

Mætt voru Guðmundur D. Haraldsson, Guðni Karl Harðarson, Júlíus Valdimarsson, Guðmundur Ragnar Guðmundsson, Guðmundur Ágúst Sæmundsson, Bjarki Hilmarsson, Þorvaldur Þorvaldsson, Sólveig Alda Halldórsdóttir (sem stýrði fundi) og Björn Þorsteinsson (sem ritaði fundargerð).

1. Stytting vinnutíma. Guðmundur D. reifaði hugmyndir sínar um málið. Ræddi um rannsóknir sem gerðar hafa verið á málinu og leiða m.a. í ljós að framleiðni sé afar lág á Íslandi. Nokkrar umræður spunnust um samspil tækniframfara og lengdar vinnutíma. Þorvaldur benti á að vandinn fælist ekki í skorti á framleiðslugetu. Rætt um áhugaleysi verkalýðsforystunnar á að stytta vinnutímann. Guðmundur D. hefur sett röksemdir sínar skipulega fram í grein sem hann hyggst birta, og hyggur síðan á öflugt kynningarstarf innan verkalýðshreyfingarinnar og víðar. Rætt var um að stofna sérstakan verkefnishóp um málið innan Öldu. Ákvörðun um það frestað, en ákveðið að leggja Guðmundi lið við frágang og birtingu greinar sinnar. Guðmundur D. sendir jafnframt þær blaðagreinar sem hann hefur þegar birt um málið á málefnahópinn.

2. Um stefnuplagg málefnahópsins. Sólveig fór yfir stefnuna (sjá http://alda.is/?p=374). Miklar umræður spunnust um markaðinn og það í hvaða skilningi hann ætti að vera hluti af gangvirki samfélagsins. Menn voru á einu máli um að markaður án fjármagnskapítalisma væri raunhæfur kostur. Sólveig lagði til að á næstu fundum hópsins verði unnið að nánari útfærslu stefnunnar, lið fyrir lið og var það samþykkt.

Öðrum dagskrárliðum var frestað. Fundi slitið kl. 22:00.