Félaginu hafa borist eftirfarandi lagabreytingartillögur. Áður höfðu drög að lagabreytingum birst hér á vefsvæðinu. Hér er tengill á núgildandi lög.

1. Í stað „Lýðræðisfélagið Alda“ í 1. gr komi „Alda – félag um sjálfbærni og lýðræði.“

2. Við bætast setningar á eftir fyrstu setningu 6. gr. laganna sem hljóði svo: „Tveir stjórnarmenn skulu valdir með slembivali úr röðum félagsmanna. Félagsmönnum býðst að óska þess að vera ekki með í valinu áður en valið fer fram. Nýkjörin stjórn framkvæmir slembivalið að loknum aðalfundi. Sé hlutfall karla og kvenna í stjórn félagsins ójafnt skal nota slembival til jöfnunar.“

3. Brott falli fyrsta setning 6. gr. laganna og í staðinn komi: „Í stjórn félagsins skulu sitja 9 menn.“ Lagt er til afbrigði sem felur í sér að ákvæðið taki gildi við samþykki þess og að kosið verði á þessum aðalfundi í samræmi við það.

4a. Sé tillaga 2 samþkkt: Önnur setning 6. gr. laganna falli brott og í staðinn komi: „Sjö Stjórnarmenn eru kjörnir úr hópi félagsmanna. Stjórnarmenn eru talsmenn félagsins og bera ábyrgð á starfsemi þess. Stjórn skiptir með sér verkum.“ Lögð eru til afbrigði sem fela í sér að kjörnir skulu níu stjórnarmenn beinni kosningu á aðalfundi félagsins 2011.

4b. Sé tillaga 2 felld: „Stjórnarmenn eru kjörnir úr hópi félagsmanna. Stjórnarmenn eru talsmenn félagsins og bera ábyrgð á starfsemi þess. Stjórn skiptir með sér verkum.“ Lögð eru til afbrigði sem fela í sér að ákvæðið taki gildi þegar við samþykki þess og að kosið skuli í samræmi við það á aðalfundi 2011.

5. Brott falli fimmta setning 6. gr. laganna og í staðinn komi: „Hætti fimm stjórnarmenn eða fleiri stjórnarmenn milli aðalfunda skal boða til félagafundar þar sem kosnir eru jafn margir nýir stjórnarmenn og sagt höfðu af sér; nema 30 dagar eða skemmri tími eru þar til heimilt er að boða til aðalfundar.“

6. Brott falli síðasta setning 6. gr. laganna.

7. Brott falli eftirfarandi hluti þriðju setningar 7. gr. laganna: „og telst stjórnarfundur lögmætur ef meirihluti stjórnarmanna situr fund.“

8. Við 7. gr. laganna bætist á eftir áttundu setningu: „Á stjórnarfundum hafa allir viðstaddir félagsmenn atkvæðisrétt og ræður einfaldur meirihluti.“

9. Við 5. gr. laganna bætist: „1. Kosning fundarstjóra“ og „6. Kosning kjörnefndar.“ Brott falli 5. liður. Aðrir töluliðir taki breytingum í samræmi við röðun.

10. Við 5. gr. laganna bætist á eftir dagskrá: „Kjörskrá á aðalfundi skal miðast við félagatal félagsins eins og það var þegar gengið er til kosninga. Kjörnefnd skal skipuð þremur mönnum sem hafa umsjón með framkvæmd kosningu til stjórnar. Gera má tillögu að kjörnefnd sem telst samþykkt ef enginn hreyfir andmælum, sé það gert skal slembivelja í kjörnefnd úr fulltrúum á aðalfundi.“

11. Á eftir annarri setningu 7. gr. laganna bætist: „Stjórnarmanni er heimilt að vísa ákvörðunum stjórnarfunda, sem hann telur stangast á við samþykktir félagsins, til félagafundar og tekur ákvörðunin þá ekki gildi fyrr en með staðfestingu félagafundar en fellur annars úr gildi.“

12. Brott falli önnur setning efnisgreinar á eftir dagskrá aðalfundar í 5. gr. og í stað komi: „Lagabreytingatillögur skulu berast félaginu a.m.k. fimm dögum fyrir aðalfund og kynntar á vefsvæði félagsins og með tölvupósti til félagsmanna a.m.k. fjórum dögum fyrir aðalfund.“

13. Brott falli síðasta setning 5. gr. og í stað komi: „Framboð til stjórnar skulu berast stjórn félagsins a.m.k. fimm dögum fyrir aðalfund og kynnt á vefsvæði félagsins og með tölvupósti a.m.k. fjórum dögum fyrir aðalfund.“

Greinargerð með tillögunum

1. Lögð er til breyting á nafni félagsins sem gerir báðum hugmyndafræðilegum stoðum þess jafn hátt undir höfði. Á ensku myndi félagið heita Alda – Association for Sustainable Democracy.

2. Lagt er til að tveir stjórnarmenn verði valdir með slembivali en sú leið hefur reynst vel við að koma hópum að í ákvarðanatöku sem almennt hafa ekki átt upp á pallborðið. Gefið er færi á því að félagsmenn skrái sig frá því að vera með í valinu og þá valið milli þeirra sem eftir standa. Jafnrétti kynjanna er mikilvægur þáttur lýðræðisins og því skal nýta slembival til jöfnunar sé þess þörf.

3. Tillagan gerir ráð fyrir fækkun í stjórn félagsins af gefinni reynslu um að 13 sé óþarflega fjölmenn starfsstjórn í eins virku og sveigjanlegu félagi og Öldu. Samhliða öðrum lagabreytingum sem fela í sér að allir félagsmenn hafi jafnan atkvæðisrétt á stjórnarfundum er í raun gerð sú breyting á inntaki stjórnarsetu að í henni felist fyrst og fremst ábyrgð á framkvæmd félagsins, virkni og rekstri og að koma fram fyrir hönd félagsins, vera forsvarsmenn þess.

4a. Tillagan gerir ráð fyrir að samþykkt hafi verið tillaga um slembival og skýrir þá hversu marga stjórnarmenn skal kjósa á aðalfundi. Skýrt er nánar hlutverk stjórnarmanna.

4b. Tillagan gerir ráð fyrir að hafnað hafi verið tillögu um slembival og skýrir þá hversu marga stjórnarmenn skal kjósa á aðalfundi. Skýrt er nánar hlutverk stjórnarmanna.

5. Gerð er tillaga að ákvæði sem kveður á um að ef aðeins eru fjórir starfandi stjórnarmenn skuli kjósa nýja stjórnarmenn. Hafi rúmlega helmingur stjórnarmanna sagt af sér er stjórnin óstarfhæf og nauðsynlegt að kjósa nýja stjórnarmenn í stað þeirra sem hættu. Áður var gert ráð fyrir að stjórnin gæti skipað nýja stjórnarmenn og er lagt til að það ákvæði falli brott enda ekki brýn nauðsyn að skipa nýja stjórnarmenn þótt einn til fjórir hætti og lýðræðislegra að kjósa nýjan stjórnarmann á félagsfundi.

6. Ákvæðið gerði ráð fyrir heimild félagsmanna til þess að óska eftir kjöri á nýjum stjórnarmanni ef stjórnarmaður sagði af sér. Skv. 5. tillögu að ofan er gert ráð fyrir að nauðsynlegt sé að boða til félagafundar til þess að kjósa nýja stjórnarmenn og ákvæðið því óþarft.

7. Lagt er til að hluti málsgreinarinnar falli brott vegna 8. tillögu þar sem gert er ráð fyrir að meirihluti félagsmanna sem sækja stjórnarfundi ráði niðurstöðu mála á þeim. Í því ljósi er ekki þörf á ákvæði sem kveður á um lágmarksmætingu stjórnarmanna.

8. Lögð er til sú breyting að á stjórnarfundum gildi sú einfalda regla, eitt atkvæði á félagsmann sem mættur er á fundinn. Tillagan er í anda félagsins sem miðar að aukinni þátttöku og valddreifingu.

9. Mikilvægt er að festa í lög ákvæði um kjörskrá til að eyða öllum vafa um við hvað skuli miða í þeim efnum. Í ljós kom að í lagagreinina um fundarsköp aðalfundar vantaði liði fyrir kosningu fundarstjóra og kosningu kjörnefndar og er því lagt til að þeim liðum sé bætt við. Lagt er til að brott falli 5. liður þar sem stefna félagsins, ályktanir og tillögur eru unnar og samþykktar í opnum ferlum innan félagsins. Sé sérstök ástæða til þess að aðalfundur samþykki eða taki til umræðu slík atriði er svigrúm til þess undir öðrum málum.

10. Lagt er til ákvæði sem tilgreinir hvernig kjörnefnd skuli valin og skipuð. Lagt er til að tilnefna megi í nefndina en rísi ágreiningur skal slembivelja í nefndina.

11. Ákvæðið er til þess að tryggja að sé uppi vafi um að ákvörðun stjórnarfundar sé í samræmi við samþykktir félagsins og vilja félagsmanna að þá geti stjórnarmaður vísað ákvörðun til félagsfundar sem úrskurðar í málinu.

12. Skilgreind eru tímamörk fyrir því að leggja fram lagabreytingartillögur enda rétt að svo mikilvægar breytingar liggi fyrir og félagsmenn geti kynnt sér þær.

13. Skilgreind eru tímamörk fyrir því að bjóða fram til stjórnar enda rétt að félagsmenn geti kynnt sér framboðin.