Félaginu hafa borist eftirfarandi framboð til stjórnarsetu 2011 – 2012.  Þau birtast hér í handahófskenndri röð. Vinsamlegast athugið að frestur til að skila inn framboðum rennur út við setningu aðalfundar. Enn er því tími til stefnu. Framboð skulu send á solald@gmail.com

Helga Kjartansdóttir 

Ég, Helga Kjartansdóttir, óska eftir endurkjöri í stjórn Öldu, félags um sjálfbærni og lýðræði veturinn 2011-2012. Síðastliðinn vetur sat ég í stjórn félagsins og átti því þátt í að hrinda starfsemi félagsins úr vör. Það hefur verið sérstaklega ánægjulegt og skemmtilegt að starfa innan Öldunnar og vil ég gjarnan fá að halda áfram að taka þátt í því göfuga og þarfa starfi að lýðræðisvæða íslenskt samfélag. Þess fyrir utan er ég með Ba. gráðu í heimspeki, starfa sem leiðbeinandi á leikskóla og er sérlegur áhugamaður um lýðræði.

Sólveig Alda Halldórsdóttir

Ég býð mig fram til áframhaldandi stjórnarsetu í lýðræðisfélaginu Öldu 2011-2012. Ég átti frumkvæði að stofnun félagsins og vil eindregið fá að halda áfram að berjast fyrir lýðræði og sjálfbærni. Við erum rétt að byrja og ég vil leggja mitt að mörkum til að sjá breytingar í samfélagsgerðinni og tel að Alda sé vettvangurinn til þess. Ég hef unnið í málefnastarfi félagsins og að heimasíðu. Ég er myndlistarmaður, söngkona og móðir.

Halldóra G. Ísleifsdóttir

Er grafískur hönnuður, lektor og fagstjóri í grafískri hönnun við Hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands. Ég hef verið stjórnarmaður í Öldu fyrsta starfsár félagsins og starfað í málefnahópum sem og unnið að gerð heimasíðu félagsins og annarri miðlun þess.
Aukið lýðræði er eina leiðin út úr þeim ógöngum sem landið og heimurinn stendur frammi fyrir. Hugmyndum og lausnum sem leiða til lýðræðislegra og betra samfélags þarf að miðla og þær þarf að ræða á breiðum grunni til að samstaða og sátt geti náðst. Ég vil leggja mitt
af mörkum til að svo geti orðið og tel að aðferðafræði hönnunar og sérþekking mín á miðlun sem og tengsl inn í samfélag skapandi einstaklinga á Íslandi sé gagnlegt í því samhengi.

Hjalti Hrafn Hafþórsson

Ég er menntaður í heimspeki en starfa nú sem leikskólakennari. Ég býð mig fram til stjórnarsetu í Öldu næsta árið vegna þess að ég hef óbilandi trú á þeim málefnum sem Alda stendur fyrir og þeim hugsjónum sem félagið heldur á lofti. Ég tel að Alda sé einstaklega þörf rödd í íslenskri þjóðfélags umræðu og að félagið hafi gífurlega möguleika til að breyta samfélaginu til hins betra. Það var sönn ánægja að starfa með Öldu fyrsta árið og ég vil ljá félaginu eins mikið af starfskröftum mínum og atorku og mér er auðið á ári númer tvö.

Kristinn Már Ársælsson

Ég átti frumkvæði að stofnun Öldu og hef setið í fyrstu stjórn félagsins. Hrunið bauð upp á rými til þess að vinna markvisst að valddreifingu, alvöru lýðræði og sjálfbærni. Ég er með BA í heimspeki, MA í félagsfræði og diplóma til kennsluréttinda. Ég hef nokkra reynslu af félagsstörfum. Síðastliðið ár tók ég þátt í starfi Öldu, sérstaklega í stefnumótun fyrir Stjórnlagaráð og lýðræðisvæðingu stjórnmálanna. Einnig hef ég komið fram fyrir félagið í fjölmiðlum og skrifað greinar á opinberum vettvangi um lýðræðismál. Ég býð mig fram til þeirra verka sem þörf er á til þess að koma á alvöru lýðræði. Áfram Alda.

Sigrún Birgisdóttir

Sigrún Birgisdóttir er arkitekt og starfar sem fagstjóri og lektor í arkitektúr við Listaháskóla Íslands. Hún er einn af stofnendum Vatnavina sem vinnur að sjálbærri uppbyggingu heilsutengdrar ferðaþjónustu á landsvísu.  Manngert umhverfi er mótandi rammi um allt daglegt líf samfélagsins. Samtíminn kallar á að endurskoða ríkjandi rýmismyndun og rýmisframleiðslu sem svarar félagslegum, efnahagslegum og umhverfislegum áskorunum framtíðarinnar.

Björn Þorsteinsson

Ég hef fullan hug á að gefa kost á mér til áframhaldandi stjórnarsetu í Öldu, félagi um sjálfbærni og lýðræði. Ég er heimspekingur að mennt og hef brennandi áhuga á félagslegu réttlæti og róttæku lýðræði. Ég hef setið í stjórn Öldu síðastliðið ár.

Magnús Björn Ólafsson

Ég, Magnús Björn Ólafsson, býð mig fram til setu í stjórn Öldu, félags um sjálfbærni og lýðræði, veturinn 2011-2012. Ég hef um árabil starfað sem stuðningsfulltrúi ungs fólks með þroskahamlanir auk þess sem ég hef fengist við ýmiskonar ritstörf. Ég er mastersnemi í heimspeki og hef lokið BA prófi í stjórnmálafræði.

Valgerður Pálmadóttir

Ég býð mig fram í stjórn Lýðræðisfélagsins Öldu starfsárið 2011-2012. Ég hef fylgst með félaginu úr fjarlægð frá stofnun þess og líst vel á stefnu þess og framtak og vil gjarnan geta lagt mitt af mörkum um áframhaldandi þróun þess. Ég er nýflutt aftur heim til Íslands frá Svíþjóð þar sem ég var við nám og störf og nú stunda ég nám við menntavísindasvið Háskóla Íslands því mig langar til þess að verða kennari. Ég hef mikinn áhuga á virku lýðræði og þátttöku borgara í mótun samfélagsins. Ég hef einnig áhuga á kvenfrelsi og jafnrétti kynjanna.

 

One Thought to “FRAMBOÐ 2011”

  1. Methúsalem Þórisson

    Það gleður mitt gamla 😉 hjarta að sjá ungt menntafólk á Íslandi sem er róttækt og lýðræðissinnað .. vona alþjóðasinnað líka. (ekki að vísa til ESB) – Áfram Alda!!
    Methúsalem Þórisson

Comments are closed.