Þig vill félag sem ætlar að fólkið hafi völdin. Þið. Þú. Við (meirihlutinn af okkur samkvæmt kúnstarinnar reglum). Félagið er ekki og ætlar ekki að verða stjórnmálaflokkur. Þess vegna er það (m.a.) kjörið fyrir félagafælna. Þetta er hópefli um mikilvægi þess að vera sérsinna.

Alda, félag um lýðræði og sjálfbærni, er til og vill gera raunhæfar breytingar á samfélagsgerðinni í átt að beinu (eða miklu, miklu meira en nú er) lýðræði og sjálfbærni á öllum sviðum. Þetta er félag sem er öllum opið og býður alla velunnara lýðræðisins velkomna. Ekkert leynimakk í boði. Félagið getur þess vegna illa verið án þín, vina þinna og fjölskyldu.

Og hugmyndin er, í afar stuttu máli: Eitt atkvæði á mann. Alltaf. Allsstaðar. Á öllum sviðum samfélagsins, í efnahagslífi jafnt sem stjórnmálum.

Lýðræðisfélagið leggur mikla áherslu á jafnrétti og sjálfbæra þróun. Að við hættum að sóa auðlindum jarðar og auðlindunum í kollum fólksins sem hana byggir. Meiningin er þó ekki að hætta allri starfsemi og viðleitni til hagsbóta, heldur þvert á móti að auðvelda framkvæmd góðra verka, án þess þó að eyða framtíðinni eða brjóta á öðrum. Ráðið er að krafan um hagvöxt víkji fyrir kröfunni um sjálfbærni; hagkerfið tileinki sér meiri nægjusemi og gefi sér tíma.

  • Að ganga í Ölduna kostar ekkert.
  • Þú þarft ekki að skrá þig sérstaklega í málefnahópa. Mátt bara mæta eins og þér hentar.
  • Hver og einn sem leggur félaginu lið er mikils virði.
  • Vinnuframlag félaga fer eftir vilja, getu og áhuga hverju sinni.
  • Nógu margir saman geta breytt öllu sem þeir vilja.

Skráðu þig hér á vefnum.

Í framhaldinu brestur að líkindum á með alvöru lýðræði og vænni framtíð. Að almenningur fái ráðið örlögum sínum að svo miklu leyti sem í mannlegu valdi stendur. Ekki á morgun og ekki hinn, en með tíð og tíma. Í rauninni eins fljótt og fólk kærir sig um að láta það gerast.

Ástæðan fyrir tilvist félagsins er að víða er pottur brotinn og vandséð hvernig tjasla á saman nema með því að brúka það sem virkar best og búa til nýtt úr heillegustu brotunum. Það er einlæg von félagsins, eiginlega bara sannfæring, að meira lýðræði sé límið sem þarf.

Félagið hefur sent frá sér stefnu og tillögur sem byggja á hugmyndum og aðferðum sem hafa reynst vel annars staðar. Nánari upplýsingar má finna undir liðnum Stefna sem hangir t.d. efst í vinsta horninu á heimasíðunni. Allar fundargerðir eru aðgengilegar þar líka, svo ef þú ert týpan sem hefur gaman að fundarsköpum eru fundargerðirnar skemmtilega sannar. Svo má skoða hvern Málefnahóp fyrir sig eða gramsa í gegnum Heilafóðrið eða lesa þær Greinar sem við eigum til. Okkur vantar alltaf fleiri og ef þú lumar á grein um lýðræði, sjálfbærni eða um aðra góða hluti,  eða langar einfaldlega að benda okkur á efni sem hæfir félaginu, þá láttu í þér heyra. Vinstra megin á síðunni er tengillinn Sendu okkur efni.  Svo láttu vaða og sendu okkur efni!

Allar hugmyndir sem félagið vinnur að eru ætlaðar samfélaginu til góðs. Við leggjum í púkk og hjálpumst að eftir föngum. Og gleðjumst yfir því þegar vex upp af fræi hvar sem það fellur í góðan jarðveg.

Neðst á síðunni er veftré og einnig efnisflokkar með lykilhugtökum til að einfalda leit.  Heimasíðan er í stöðugri vinnslu svo allar ábendingar eru vel þegnar. Síðan á að vera auðlesin, fróðleg og skemmtileg.

Bless og takk,
Alda