Haldinn var stjórnarfundur 6. desember síðastliðinn. Mættir voru: Guðmundur D. Haraldsson (er stýrði fundi), Júlíus Valdimarsson, Hjalti Hrafn Hafþórsson, Sólveig Alda Halldórsdóttir, Hulda Björg Sigurðardóttir, Sigrún Birgisdóttir, Björn Þorsteinsson, Guðni Karl Haraldsson, Þórarinn Einarsson og Kristinn Már Ársælsson (er ritaði fundargerð).

1. Skipulag stjórnmálaflokks í anda alvöru lýðræðis. Mikil umræða um flokksræði og fulltrúalýðræði. Almennt voru fundarmenn á því að fulltrúar flokka hefðu of mikil völd og störfuðu ekki í anda þess að vera fulltrúar stjórnmálaflokka. Valdið þyrfti að færa til flokksfélaganna. Flokkakjörnir fulltrúar á Íslandi lytu lögmálum sem eiga við um persónukjörna fulltrúa. Mikilvægt væri að sækja stefnu til flokksfélaganna.  Rætt var um þátttökulýðræðisferli og mikilvægi þeirra. Alda leggur áherslu á slík ferli. Minnt var á að fjölmörg lýðræðisleg fyrirtæki byggi á opnum lýðræðislegum ferlum til ákvarðanatöku, t.d. Mondragón samsteypan sem telur um 100.000 starfsmenn. Þar séu ákvarðanir teknar í lýðræðislegum ferlum. Tillagan er búin til sem fyrirmyndarflokkur út frá núverandi kerfi. Mikilvægt að fram kæmi að Alda ætli sér ekki í framboð. Verkefnið var gert vegna eftirspurnar. Nokkur umræða var um kosti slembivals og nauðsyn þess að kynna þá hugmynd betur. Hvatt var til þess að félagsmenn skrifuðu greinar um slembival. Nokkur umræða var um borgaralega skyldu og m.a. velt upp þeirri spurningu hvers vegna það teldist eðlilegt að skylda borgara til hernaðar en ekki til uppbyggilegrar þátttöku í ákvörðanatöku um málefni samfélagsins. Nánari upplýsingar um verkefnið, skipulag stjórnmálaflokks í anda alvöru lýðræðis, má finna hér á vef Öldu.

2. Rætt var um drög að verklagsreglur varðandi fjármál fyrir Öldu. Snorri Stefánsson, fyrrum stjórnarmaður í Öldu hafði unnið drögin.

Niðurstaða umræðunnar á fundinum leiddi m.a. til breytinga á fjárhæðum og viðbótar um skyldu að hærri upphæðir fari fyrir félagsfund. Reglurnar verða ræddar að nýju á næsta stjórnarfundi og þá afgreiddar formlega.

Reglur um móttöku fjárframlaga

1. gr.
Öldu skal heimilt að taka við fjárframlögum frá innlendum og erlendum aðilum til starfsemi félagsins. Berist Öldu framlag frá óþekktum aðila skal gefa styrkinn til líknarsamtaka skv. ákvörðun stjórnar enda sé hann hærri en 10.000 krónur og ómögulegt að komast að því hver gefandinn sé. Hið sama á við ef samanlögð fjárhæð styrkja frá óþekktum aðilum fer yfir 10.000 krónur á hverju almanaksári.

2. gr.
Heimilt skal að taka við styrkjum sem nema allt að 250.000 krónum á ári frá einstaklingum og lögaðilum. Móttaka hærri framlaga skal þá og því aðeins heimil að gefandinn deili markmiðum Öldu eða að með öðrum hætti sé ljóst að styrkurinn muni ekki hafa áhrif á stefnu eða markmið félagsins. Skal stjórn fjalla sérstaklega um móttöku slíkra styrkja eða boða til almenns félagsfundar til þess að ræða styrkveitinguna. Móttaka framlaga yfir 1.000.000 króna skal ætíð hljóta samþykki félagsfundar. Þegar metin er hámarksupphæð skal telja saman einstaklinga og hlutafélög sem hann tengist. Telja skal veitta afslætti, eftirgjöf krafna og allan anna tilflutning á verðmætum sem styrk í þessu samhengi.

3. gr.
Félagsmenn skulu ávallt hafa aðgang að upplýsingum um styrktarmenn félagsins, form styrksins og verðmæti hans. Alda skal jafnframt birta opinberlega lista yfir styrktaraðila og verðmæti styrkja.

4. gr.
Reikingar Öldu skulu útbúnir með skýrum og greinargóðum hætti. Í þeim skal getið um samtölu styrkja. Skal jafnframt getið um styrki sem ekki hafa áhrif á reikninga félagsins svo sem notað lausafé eða aðrar gjafir sem erfitt er að telja sem fjárhagsleg verðmæti. Skal fylgja ársreikning listi yfir styrkveitendur.

5. gr.
Verði rekstrarafgangur af starfsemi Öldu skal hann færður í sjóði félagsins. Skal við slit félagsins gefa þá fjármuni sem Alda kann að eiga til líknarfélaga. Endurvinnanlegu lausafé skal koma til endurvinnslu.

3. Kynning á hópastarfi. Lýðræðislegt hagkerfi ætlar að dýpka stefnuna. Klausur um raunhæfar möguleika á að ná markmiðum. Lagabreytingatillögur. Gjaldþrot til starfsmanna. Bjóða samvinnufélagalögin til lögfræðings. Tryggð grunnframfærsla. Módel fyrir lýðræðisleg fyrirtæki. Fundur 13. desember. Kynningarefni á verkalýðsfélög. Æðislegt hópastarf.

4. Starfið í nóvember. Fjallað var að mestu um starfið í lið 3. að ofan en að öðru leyti vísað til upplýsinga á vefsvæði félagsins.

5. Rætt var um stjórnarskrármál. Vísað var til nýlegrar umsagnar félagsins til þingnefndar Alþingis er fjallar um tillögur Stjórnlagaráðs og kynna má sér á vefsvæði félagsins. Spurst var fyrir um hvað væri að frétta af boði þingnefndarinnar til Öldu að koma á fund hennar. Því var til að svara að ekki hefði heyrst aftur frá nefndinni síðan tilkynning barst um að fundi hefði verið frestað. Samkvæmt fregnum er meirihluti í þingnefndinni fyrir því að ráðgefandi kosning fari fram samhliða forsetakosningum á næsta ári.

6. Rétturinn til mótmæla. Nokkrar umræður voru um rétt almennings til mótmæla sem brotinn hefur verið út um allan heim að undanförnu og ekki síst í Bandaríkjunum. Hérlendis hefur lögregla brotið upp stjórnarskrárvarin mótmæli, m.a. á vegum Occupy Reykjavík á Austurvelli. Samstaða var um að tryggja beri réttinn til mótmæla, sem sé stjórnarskrárvarinn réttur eins og ýmis annar réttur, s.s. ferðafrelsi og jafnræði. Séu einhverjir meinbugir á því í stjórnarskrá eða löggjöf þurfi að taka á því. Samþykkt var að taka fyrir formlegar ályktanir hvað þetta varðar á næsta stjórnarfundi í janúar.

7. Önnur mál. Tillögur komu fram um að stytta stjórnarfundina og reyna að halda þeim við tvo tíma. Hugsanlega þurfi þá að funda oftar. Einnig því velt upp hvort færa eigi fundina til kl. 20.00. Engar ákvarðanir teknar í þessum efnum.

Fundi slitið rétt fyrir kl. 23.