Vonleysi og átök einkenna þessi áramót. Hart er barist á sviði stjórnmálanna þar sem ríkisstjórnin stendur höllum fæti og deilur loga innan flokka sem og milli þeirra. Trú almennings á flokkafulltrúalýðræðinu er enn lítil sem engin en traust á Alþingi hefur mælst í kringum 10% í lengri tíma. Stór hluti almennings hefur ekki áhuga á því að kjósa þá fjórflokkinn svokallaða. Ofan á þetta bætist svo að staða fjármálakerfis heimsins er í besta falli í óvissu. Frá sjónarhóli lýðræðissinna er ljóst að enn er langt í land í því að færa völd og ákvarðanir til almennings. Valdi er þjappað saman á sviði stjórnmála og efnahagslífs.

Þrátt fyrir að mörgum virðist útlitið dökkt er ýmislegt sem gefur ástæðu til bjartsýni.

Stjórnlagaráð

Á árinu 2011 var í fyrsta sinn haldið borgaraþing (e. citizen assembly) hérlendis þar sem almenningur kom beint að því að leggja til stjórnarskrá. Og þótt ýmislegt hafi gengið á í aðdraganda þess ferlis og margt hafi mátt setja út á framkvæmd stjórnlagaráðs (eins og Alda hefur bent á) er ljóst að tilraunin er merkileg og áhugaverð á heimsmælikvarða. Umræðurnar í ráðinu voru að mati flestra málefnalegri en menn eiga að venjast úr stjórnmálunum og ferlið opnara, þótt nokkuð hafi skort upp á. Niðurstöður ráðsins voru að mestu fyrirsjáanlegar og fólu í sér hófsamar breytingar í átt að alvöru lýðræði. Fyrst og fremst rötuðu í tillögurnar þær hugmyndir sem höfðu verið í loftinu árin á undan, s.s. persónukjör og þjóðaratkvæðagreiðslur. Enn vantar þá í stjórnarskránna ákvæði um slembivalsfulltrúa og borgaraþing – möguleika almennings á að færa ákvarðanatöku í þátttöku- og umræðuferli. Eitt ákvæði ber þó að nefna sérstaklega og fagna:

66. gr. Þingmál að frumkvæði kjósenda

Tveir af hundraði kjósenda geta lagt fram þingmál á Alþingi.

Tíu af hundraði kjósenda geta lagt frumvarp til laga fyrir Alþingi. Alþingi getur lagt fram gagntillögu í formi annars frumvarps. Hafi frumvarp kjósenda ekki verið dregið til baka skal bera það undir þjóðaratkvæði svo og frumvarp Alþingis komi það fram. Alþingi getur ákveðið að þjóðaratkvæðagreiðslan skuli vera bindandi.

Atkvæðagreiðsla um frumvarp að tillögu kjósenda skal fara fram innan tveggja ára frá því málið hefur verið afhent Alþingi.

Því miður er valdið enn í höndum fulltrúanna en ekki fært í hendur almennings sem skilgreiningunni samkvæmt er valdhafinn í lýðræðisríkjum: Alþingi ákveður hvort niðurstöður þjóðaratkvæðisgreiðslu séu bindandi eður ei. En almenningi gefst þarna færi á að koma til meðferðar þingmálum og þeim farvegi ber að fagna.

Ýmislegt má nefna sem vantar í tillögur stjórnlagaráðs til viðbótar við áðurnefnd ákvæði um slembival og borgaraþing, .t.d. að ákvörðun um fyrirkomulag endurskoðunar á stjórnarskránni er látið eftir í höndum þingsins en betur hefði farið á því að kveða á um að stjórnarskrá skyldi ætíð unnin í lýðræðislegu þátttökuferli almennings. Einnig má nefna að gagnsæi var ekki tryggt nægilega vel og of lítil skref tekin í átt að aukinni þrískiptingu ríkisvalds og möguleikum almennings á að velja sér framkvæmdarvald.

Það á þó eftir að samþykkja tillögur stjórnlagaráðs og óljóst hver niðurstaða þess máls verður í meðförum þingsins.

Ný sveitarstjórnarlög

Breytingar voru gerðar á í þá átt að gera almenningi kleift að kalla saman borgarafundi og boða til atkvæðagreiðslu um einstök mál. Því miður gengu þær tillögur of skammt til þess að teljast annað en hófsamur áfangasigur fyrir lýðræðið. Þingmenn meirihlutans á Alþingi gerðu breytingar á málinu á lokastigi þess með þeim hætti að draga úr þeim takmörkuðu áhrifum sem veita átti almenningi. Eftir sem áður mun almenningi frá og með 1. janúar 2012 vera þetta heimilt skv. lögum nr. 138/2011:

  • Ef minnst 10% af þeim sem kosningarrétt eiga í sveitarfélagi óska borgarafundar skv. 105. gr. skal sveitarstjórn verða við því svo fljótt sem unnt er. Um framkvæmd borgarafundar fer eftir ákvæði 105. gr.
  • Ef minnst 20% af þeim sem kosningarrétt eiga í sveitarfélagi óska almennrar atkvæðagreiðslu skv. 107. gr. skal sveitarstjórn verða við því eigi síðar en innan árs frá því að slík ósk berst.

Þessi réttindi hefur almenningur hingað til ekki haft. Því miður er það sveitarstjórnin sem ræður því hvort niðurstöður borgarafundar og atkvæðagreiðslu séu bindandi og þá aðeins til loka kjörtímabils. Og reynslan erlendis frá sýnir að þátttaka almennings er líkleg til að verða minni ef álit hans er eingöngu ráðgefandi en ekki bindandi. Við getum því átt von á vonbrigðum þar sem ekki er tekið tillit til afstöðu almennings. En þrátt fyrir það hefur almenningur nú loksins viðurkennda farvegi til þess að koma að málum með beinum hætti á sveitarstjórnarstiginu. Fleiri ákvæði vantar, s.s. um slembivalsfulltrúa og ákvæði sem tryggja rétt almennings til að færa ákvarðanir í þátttöku- og umræðuferli. Áherslan er enn um of á kosningalýðræði.

Nýjar námsskrár

Á árinu voru samþykktar nýjar aðalnámsskrárallra skólastiga þar sem lýðræði og sjálfbærni verða meðal sex grunnþátta menntakerfisins frá leikskóla til háskóla. Markmið námsskránna eru þessi:

Sjálfbærni: Sjálfbærni snýst um að hugsa um samspil umhverfis, efnahags, samfélags og velferðar. Algengasti skilningur á hugtökunum sjálfbærni og sjálfbær þróun felur í sér að við skilum umhverfinu til afkomendanna í ekki lakara ástandi en við tókum við því og við leitumst við að mæta þörfum samtíðar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að mæta þörfum sínum. Efnahagskerfi samfélaga skipa stórt hlutverk þegar kemur að skynsamlegri nýtingu auðlinda og sanngjarnri skiptingu þeirra. Þannig er mikilvægt að efnahagsvöxtur byggi hvorki á, né leiði til, óhóflegs ágangs á náttúruna. Framleiðsla og neysla eru órjúfanlegir þættir samfélags og um leið efnahags hvers einstaklings. Skilningur á eigin vistspori, vistspori samfélaga og þjóða stuðlar að sjálfbærri þróun og hófsemi.

Lýðræði: Í lýðræði taka einstaklingar afstöðu til siðferðilegra álitamála og virkan þátt í mótun samfélagsins. Í lýðræðisríki þurfa borgararnir að búa við mannréttindi og ráða öllum meiriháttar málum sínum sameiginlega. Forsenda lýðræðis er samábyrgð, meðvitund og virkni borgaranna sem gerir þá færa um að taka þátt í að móta samfélag sitt og hafa áhrif nær og fjær. Lýðræði er mikilvægt á vettvangi skólans. Í fyrsta lagi þurfa skólar að taka mið af því að barna og ungmenna bíður að taka þátt í lýðræðissamfélagi og því er mikilvægt að börn læri um þess háttar samfélög. Í öðru lagi þurfa skólar að taka mið af því í öllum starfsháttum að borin sé virðing fyrir manngildi hvers og eins. Gert er ráð fyrir því að börn og ungmenni læri til lýðræðis með því að læra um lýðræði í lýðræði.

Þessir grunnþættir eiga að fléttast inn í allt starf skólanna:

  • Efnisval og inntak kennslu, leiks og náms skal mótast af grunnþáttunum.
  •  Starfshættir og aðferðir sem börn og ungmenni læra eru undir áhrifum hugmynda sem fram koma í umfjöllun um grunnþættina.
  •  Vinnubrögð kennara og annarra sem starfa í skólum eiga að mótast af grunnþáttunum þannig að stuðlað sé að sjálfstæði, frumkvæði og þróun í skólastarfi .
  •  Þegar skólastarf er metið þarf að skoða hvort og hvernig grunnþættirnir hafi sett mark sitt á kennslu, leik og nám og skólastarfið í heild.

Nú liggur því fyrir skólunum og samfélaginu öllu að útfæra þessa nýju grunnþætti. Óhætt er að fullyrða að spennandi tímar eru framundan í menntakerfinu. Þátttaka í umræðu og lýðræðislegri ákvarðanatöku er nokkuð sem við sem samfélag höfum litla sem enga reynslu af. Það er því fagnaðarefni að menntakerfið eigi að grundvallast á slíkri hugsun og að nemendur hljóti þjálfun í lýðræðislegri umræðu og ákvarðanatöku.

Krafan um alvöru lýðræði og nýtt fjármálakerfi

Mótmæli fóru fram hérlendis og um allan heim á árinu þar sem hæst fóru kröfur um alvöru lýðræði og nýtt fjármálakerfi. Kröfurnar hafa notið víðtæks stuðnings meðal almennings en hlotið litlar undirtektir meðal ráðamanna hér á Vesturlöndum. Þann 15. október fóru fram ein umfangsmestu fjöldamótmæli sögunnar þar sem milljónir mótmæltu í yfir 1000 borgum um allan heim. Á Íslandi var mótmælt í Reykjavík og á Seyðisfirði.

Occupy hreyfingin í Bandaríkjunum fór vaxandi og breiddist út frá Wall Street um öll Bandaríkin. Stjórnvöld þar í landi hafa í vaxandi mæli beitt valdi til þess að kveða niður mótmælin. Eitt megineinkenni Occupy hreyfingarinnar í Bandaríkjunum eru borgaraþingin þar sem almenningur kemur saman og ræðir um aðgerðir og úrlausnarefni. Niðurstöðu er leitað í sátt og samlyndi eftir svokallaðri consensus aðferð. Mótmælin byggja þannig á lýðræðislegum grunni og eru fyrirmynd þess sem krafist er. Occupy Reykjavík var haldið um tíma síðla hausts á Austurvelli við erfiðar aðstæður þar sem lögregla og veður gerðu mótmælendum erfitt um vik. Því miður ákvað lögreglan í upphafi að vernda frekar lögregluákvæði um hvar megi tjalda en stjórnarskrárvarinn rétt til mótmæla.

Árið 2012

Ýmislegt fleira má nefna frá árinu 2011 sem að einhverju leyti gefur til kynna að mál þokist í rétta átt, s.s. að þjóðaratkvæðagreiðsla var haldin á árinu og virkni grasrótarhreyfinga sem leiddi m.a. til Grasrótarmiðstöðvarinnar.
Hugum næst að framtíðinni. Á árinu 2012 má gera ráð fyrir að fram fari forsetakosningar, þjóðaratkvæðagreiðsla um nýja stjórnarskrá og frekari mótmæli um allan heim svo eitthvað sé nefnt. Alda hefur lagt til að forsetaembættið verði lagt af enda markmið félagsins að dreifa völdum en ekki þjappa þeim á hendur fárra, eða eins. Í ljósi aðstæðna væri þó ákjósanlegt að kjörinn yrði forseti sem myndi fylgja eftir tillögum stjórnlagaráðs um rétt almennings til að boða til þjóðaratkvæðagreiðslna – að undirskriftir 10% landsmanna þurfi til þess. Alda telur að tillögur stjórnlagaráðs eigi að fara fyrir þjóðaratkvæði og að útfærslan verði að vera með þeim hætti að mögulegt verði að kjósa um hvert ákvæði fyrir sig.

Á árinu 2012 má einnig gera ráð fyrir því að kosningabaráttan fyrir Alþingiskosningarnar árið 2013 hefjist. Fjölmörg ný framboð eru í burðarliðnum og hefur Alda unnið tillögur að skipulagi stjórnmálaflokks í anda alvöru lýðræðis. Vonandi verða öll ný framboð í anda alvöru lýðræðis. Ekki væri verra ef einhver hinna hefðbundnu flokka tæki upp á því að stíga nokkur skref í þá átt. Líkur eru á að Alda muni einnig koma fram með tillögur að stefnu fyrir stjórnmálaflokka í lýðræðismálum.

Alda er með fjölmörg verkefni í vinnlsu sem ekki hafa þegar verið tiltekin og má þar nefna:

  • Tillögur að nýjum lögum um lýðræðisleg fyrirtæki/samvinnufélagslög
  • Borgarafundir um samfélagsmál
  • Lýðræðisvæðingu lífeyrissjóða
  • Gagnagrunnar um lýðræðisleg ferli sem hafa reynst vel erlendis
  • Vefsvæði um hvernig almenningur geti gert nýja stjórnarskrá
  • Sjálfbærniþorp
  • Samantekt á erlendum verkefnum sem hafa reynst vel til þess að koma á sjálfbærni
  • Rafrænt lýðræði

Öllum er frjálst að taka þátt í starfi félagsins og vinna að verkefnum til þess að auka lýðræði og sjálfbærni. Allir fundir eru öllum opnir og eitt atkvæði á mann á öllum fundum. Alda notar consensus aðferðinar og leitast við að fá fram niðurstöðu í sátt og samlyndi. Það er vissulega langt í land en tækifærin til þess að dýpka lýðræði og koma á sjálfbærni hafa ekki verið meiri svo áratugum skiptir. Það er því engin ástæða til annars en að ganga bjartsýn og glöð inn í árið 2012. Og það er ekki eftir neinu að bíða, fyrsti fundur í Öldu er á þriðjudaginn (3. janúar) kl. 20:30 í Grasrótarmiðstöðinni.

Takk fyrir árið sem er að líða og farsælt komandi lýðræðis- og sjálfbærniár!

Kristinn Már Ársælsson