Alda óskar almenningi á Íslandi til hamingju með hænuskref í átt að alvöru lýðræði sem felst í rétti til þess að boða til borgarafunda og atkvæðagreiðslna í sveitarfélögum um einstök mál. Þann 1. janúar síðastliðinn tóku gildi ný sveitarstjórnarlög hvar almenningi er veittar eftirfarandi heimildir:

  • 10% íbúa sveitarfélags mega kalla saman borgarafund í sveitarfélaginu um tiltekið mál.
  • 20% (eða allt að 33% skv. ákvörðun sveitarstjórnar) íbúa mega boða til ráðgefandi (sveitarstjórn er heimilt að atkvæðagreiðsla sé bindandi til loka kjörtímabils) atkvæðagreiðslu um einstök mál.

Þessi réttindi hefur almenningur ekki haft til þessa hér á landi. Alda sendi Alþingi umsögn við frumvarp að nýjum sveitarstjórnarlögum og benti á að ýmis ákvæði vantaði í lögin og sömuleiðis að sum þeirra gengu ekki nægilega langt í því að koma á alvöru lýðræði. Þess má geta að ekki var tekið tillit til athugasemda Öldu heldur athugasemda Sambands íslenskra sveitarfélaga og frekari skorður settar við þann rétt sem þó var gert ráð fyrir í frumvarpinu. Meðal þess sem Alda saknar í lögunum eru ákvæði um heimild fyrir slembivali, heimild fyrir því að ákvarðanir séu færðar í lýðræðisleg ákvörðunarferli með þátttöku almennings (s.s. eins og þátttökufjárhagsáætlunargerð), að niðurstöður atkvæðagreiðslu og borgarafunda séu bindandi (enda almenningur valdhafinn), nauðsynlegt sé að lækka það hlutfall sem þarf til að boða til atkvæðagreiðslu þannig að það sé að hámarki 8%, að öll mál geti komið til kasta atkvæðagreiðslu (en t.d. fjárhagsmálefni voru undanskilin í lögunum) – svo eitthvað sé nefnt. Þónokkuð er því enn í land í þessum efnum. Alda hvetur þingmenn til þess að taka málið upp að nýju og koma í gegn þeim breytingum sem þörf er á til þess að koma á alvöru lýðræði á sveitarstjórnarstiginu.

Lykilatriði í allri lýðræðisvæðingu er að tryggja almenningi rétt til þess að taka ákvarðanir beint og milliliðalaust í lýðræðislegum ferlum. Rannsóknir sýna að þar sem þáttur almenning er ráðgefandi hafi hann síður áhuga á þátttöku. Ætli þingmenn hefðu áhuga á því að sitja daginn út og inn á Alþingi og taka þátt í ráðgefandi atkvæðagreiðslum? Best er að lýðræðisleg ferli feli í sér samræðu almennings á jafnræðisgrundvelli og að kosningar séu úrræði sem nýtt eru þegar önnur hafa verið reynd til þrautar.

Alda hvetur almenning til þess að nýta sér þessa farvegi og þrýsta á um að farið sé að vilja almennings. Að öðrum kosti eru ákvæðin aðeins til málamynda.

Nánari upplýsingar