Stjórnarfundur í Öldu 3. apríl 2012 kl. 20:30 í Grasrótarmiðstöðinni.

Mætt voru Hjalti Hrafn, Valgerður, Björn, Kristinn Már, Þórarinn, Júlíus, Guðmundur D., Sólveig Alda og Guðmundur Á.

Hjalti Hrafn stýrði fundi og Björn ritaði fundargerð.

1. Málefnahópar.

A. Stytting vinnutíma.
Guðmundur D. greindi frá starfsemi hópsins undanfarnar vikur. Ályktun um styttingu vinnutíma liggur fyrir fundinum. Kynningarstarf að hefjast og beinist að verkalýðsfélögum, fjölmiðlum, samtökum ýmsum og stjórnmálaflokkum. Samþykkt að leggja áherslu á að ná til nýju framboðanna með tillögurnar. Lítilsháttar lagfæringar þarf að gera á ályktuninni. Guðmundur sér um það. Síðan verður hún endanlega borin upp til samþykktar í stjórn félagsins.

B. Lýðræðislegt menntakerfi.
Fundur haldinn nýlega í hópnum og unnið við mótun hugmynda. Rætt var um nýju aðalnámskrána. Næsti fundur verður eftir viku.
Júlíus benti á að mikil gerjun væri í menntamálum í Chile um þessar mundir. Valgerður nefndi til sögunnar lýðræðistilraunir í skólum í Chicago.
Hjalti talaði um að hópurinn væri að móta umsagnir um námskrár og að mikilvægt væri að hafa fram að færa vel útfærðar hugmyndir um lýðræðisvæðingu. Valgerður benti á að skólarnir hefðu mikið svigrúm skv. nýju námskránum. Talað væri um meginstoðirnar sjö, en framkvæmdin skilin dálítið eftir í lausu lofti.
Kristinn Már sagði frá beiðni frá Reykjavíkurborg um að fulltrúi Öldu tæki þátt í ráðstefnu leikskólakennara og fjallaði þá um lýðræði og/eða sjálfbærni m.t.t. leikskólanna. Hjalti bauðst til að
taka verkið sér; tekið vel í það og málinu að öðru leyti vísað til málefnahópsins.

C. Lýðræði á sviði stjórnmálanna.
Kristinn Már sagði frá starfsemi hópsins. Vinna við stefnu stjórnmálaflokks á sviði lýðræðismála er langt komin, greinargerð í bígerð. Lög lýðræðislegs stjórnmálaflokks verða bráðlega send flokkunum. Stefnu varðandi lýðræðislegt hagkerfi er vísað til þess málefnahóps. Vinnan við gagnagrunn um raunverulegt lýðræði er hafin.

D. Sjálfbærni.
Kristinn Már greindi frá starfsemi hópsins. Síðasti fundur var fjölmennur og mestur tíminn fór í að ræða stefnumál – bæði hvað Öldu og stjórnmálaflokka snertir. Fundur verður í síðari hluta maí um sjálfbærniþorp og fleiri mál. Í reynd vantar verkefnisstjóra í verkefnið um sjálfbærniþorp; þangað til hann fæstvinnst verkið hægt og bítandi.
Rætt var um hönnun og endurnýtingu og -notkun. Valgerður talaði um reynslu sína af Sorpu og „rétti þess sem hendir“ sem kemur fram í því að hlutir sem komnir eru í ruslagáma eru „friðhelgir“. Rætt um Góða hirðinn.
Björn stakk upp á því að Alda tæki að sér að kortleggja hinar óskráðu reglur sem gilda í Sorpu, sbr. ábendingu Valgerðar.
Nokkrar umræður urðu um hönnun og samvinnufélög, Slow Design-hreyfinguna og fleira.

E. Skilyrðislaus grunnframfærsla.
Júlíus og Hjalti sögðu frá starfsemi hópsins. Haldinn hefur verið einn fundur og undirtektir hafa verið afar góðar. Grunnvinna er farin af stað. Mikil umræða er um þessi mál í Þýskalandi og fer þar auðkýfingurinn Götz Werner framarlega í flokki. Ef til vill mætti fá hann til landsins. Grein á heimasíðu Öldu um skilyrðislausa grunnframfærslu hefur fengið 60 „deilingar“ á facebook.

F. Lýðræðislegt hagkerfi.
Sólveig Alda greindi frá starfseminni. Mikið fjör á fundum. Tekin hefur verið sú stefna að leggja minni áherslu á tæknilegar útfærslur og stefna frekar á kynningu á meginhugmyndunum. Halda ráðstefnu í haust og fá jafnvel erlenda fyrirlesara á borð við Schweickart og Olin Wright til að mæta. Jafnframt er stefnt að því að koma á dagskrá þingsályktunartillögu í samvinnu við Hreyfinguna.
Hjalti talaði um mikilvægi þess að fundir Öldu væru öllum opnir í reynd, þ.e.a.s. ekki of tæknilegir. Þegar fundir eru stimplaðir sem „vinnufundir“ verða þeir ekki eins „inklúsífir“. Hjalti benti á nauðsyn þess að skýra alltaf alla hluti vel út þannig að þau sem eru að mæta á fund í fyrsta sinn skilji hvað um er rætt. Ekki megi vera hrædd við endurtekningar. Þetta skapi góða dýnamík.
Kristinn Már tók undir þetta og lagði til að gengið yrði lengra ef hægt er. Engu að síður væri mikilvægt að hópurinn kæmi saman plaggi um lýðræðislegt hagkerfi. Sólveig og Hjalti bentu á að slíkt plagg lægi þegar fyrir, sjá t.d. heimasíðu Öldu. Hjalti sagði þingsályktunartillöguna vera að líta dagsins ljós líka. Kristinn Már benti á nauðsyn þess að skilgreina vel næstu skref og búta verkefnið niður.

Undir lok þessa dagskrárliðar vék Guðmundur D. talinu aftur að ályktun um styttingu vinnudagsins. Í framhaldi af því talaði Kristinn Már um hin meintu tengsl hagvaxtar og lífsgæðaaukningar sem stéttarfélögin standa ennþá rótföst í. Alda vill að lögð verði áhersla á aðra þætti.

2. Stjórnarskrármálið.

Mikil umræða varð um stöðu þessa máls í stjórnkerfinu. Júlíus spurði hvort Alda hefði lýst stuðningi við frumvarp Stjórnlagaráðs. Svo er ekki.
Björn og Hjalti ræddu um gallana sem voru á stjórnarskrárferlinu og vandræðaganginn í kringum málið. Hjalti talaði um að nær væri að gera þetta almennilega, halda þjóðfundi í hverjum landsfjórðungi og halda stjórnlagaþing með slembivöldum fulltrúum – skrifa stjórnarskrána í vönduðu, djúpu lýðræðisferli.
Kristinn Már tók undir þetta og lagði til að síðasta ályktun Öldu um málið yrði dregin fram og birt að nýju með lítilsháttar breytingum.
Sólveig Alda lýsti þeirri skoðun sinni að skerpa þyrfti orðalagið á ályktuninni. Björn tók undir það. Tala þarf um það hvernig stjórnmálaelítan hafi reynt að kæfa málið í fæðingu eða eyðileggja ferlið þannig að vilji þjóðarinnar fengi ekki komið fram fölskvalaust. Júlíus benti á það hvernig elítan hefði yfirtekið kröfuna sem fólst í Búsáhaldabyltingunni, komið henni á lymskulegan hátt fyrir innan tiltekins ramma.
Rætt var um fordæmi eða skort á þeim og afstöðu Stjórnlagaráðs, og félagsins, til slíks.
Þórarinn benti á tækifærin sem fælust í því að samfélagið á Íslandi væri lítið og boðleiðir stuttar.
Kristinn Már tók að sér að skerpa gömlu ályktunina og sendir textann á stjórnina til meðferðar.

3. Grasrótarmiðstöðin.

Kristinn Már reifaði málið, ekki síst í tilefni af fundi um málefni miðstöðvarinnar daginn eftir. Róttækar breytingar eru hugsanlega að verða á starfseminni þannig að ákveðin svæði verði á forræði Dögunar en lokuð fyrir öðrum. Jafnframt eru uppi hugmyndir um að fjárhagur ráði vægi atkvæða en ekki hin einfalda regla um eitt atkvæði á mann. Kristinn minnti á að Alda hefði haft milligöngu um að fé var veitt til miðstöðvarinnar í nafni allra grasrótarfélaga, og það samræmist ekki þeirri skipan mála að stór hluti hússins verði lagður undir einn stjórnmálaflokk.
Sólveig Alda og Kristinn Már töluðu um að þessar hugmyndir stönguðust ljóslega á við kjarnastefnu Öldu. Rætt var hvort Alda ætti að segja sig frá húsnæðinu ef þessar breytingar ganga í gegn.
Kristinn Már lýsti þeirri skoðun sinni að Alda hefði í raun engin önnur úrræði. Þó mætti e.t.v. segja að það væri kostur að greina starfsemi Dögunar frá annarri starfsemi í húsinu. En prinsippspurningin er þessi: getur Alda starfað á kosningaskrifstofu Dögunar?
Guðmundur Á. kvaddi sér hljóðs til að varpa ljósi á málið. Aldrei hafi verið rætt um að kosningamiðstöð verði í húsinu. Húsráðandi sé Rekstrarfélag Grasrótarmiðstöðvarinnar og Guðmundur situr í stjórn þess. Stöðugt er reynt að fá fólk til að taka þátt í mótun hugmynda um hvernig skipuleggja eigi húsnæðið, en undirtektir eru ekki miklar.
Kristinn Már benti á að borist hefði bréf frá einum forsvarsmanni Dögunar um að ákveðnum svæðum verði lokað af. Guðmundur benti á að viðkomandi væri ekki í stjórn Rekstrarfélagsins og hefði því ekki yfir þessum málum að segja.
Mikil umræða varð um málið. Júlíus talaði um mikilvægi fjölbreytninnar – Grasrótarmiðstöðin sé leikvöllur þjóðfélagsins sem við viljum sjá.
Kristinn Már spurði sig og aðra að því hvort Alda myndi vilja starfa í kjallara Valhallar.
Hjalti mælti fyrir því að fulltrúar Öldu mættu á fundinn daginn eftir með þessa umræðu í huga. Tekið vel í það. Alda kysi helst óbreytt rekstrarform og sættir sig ekki við hvað sem er.

4. Betri Reykjavík.

Málinu, þ.e. rafrænni íbúakosningu, fagnað.

5. Fjármál Öldu.

Kristinn Már lagði til að félagið sendi Ríkisskattstjóra umbeðnar skilgreiningar á forsvarsmönnum. Öll stjórnin verði skilgreind í forsvari.

6. Önnur mál.

Sólveig Alda lagði til að haldinn verði hátíðarstjórnarfundur upp úr hádegi 1. maí (sem ber upp á þriðjudag í ár og er því dagur fyrir stjórnarfund í Öldu skv. hefðinni). Samþykkt.

Þórarinn leitaði eftir samstarfi við Öldu í því að byggja upp nýtt líkan fyrir lífeyrissjóði, banka og tryggingafélög. Lýðræðislegur sparisjóður er í bígerð á höfuðborgarsvæðinu.
Hjalti greindi frá því að hann hefði mætt á fund hjá Félagi um samfélagsbanka sem einnig hefur áhuga á samstarfi við Öldu. Hjalti kvaðst hlynntur þessu, meira samstarf grasrótarhópa væri æskilegt.
Kristinn Már lagði til að Þórarinn og samfélagsbankamenn tækju upp beint samband við málefnahóp um lýðræðislegt hagkerfi. Guðmundur benti á að Alda gæti skrifað stefnu fyrir fyrirtæki sem þessi.

Kristinn Már sagði frá ráðstefnu Landverndar í lok apríl; þar verður hann með erindi um lýðræðisvæðingu á sviði umhverfismála, nánar tiltekið um vald (lítilla) sveitarfélaga í skipulagsmálum.

Hjalti vakti máls á erindi frá Róttæka sumarháskólanum. Málinu vísað til málefnahóps um lýðræðislegt hagkerfi.

Fleira gerðist ekki. Fundi slitið kl. 22:45.