Alda

Málefnahópur um skilyrðislausa grunnframfærslu

Mætt voru: Hjalti Hrafn, Júlíus Valdimarsson, Arndís, Einar, Gauti Arnþórsson, Jón Lárusson

Fundur var settur kl 20:30 í Grasrótarmiðstöðinni 11. Apríl 2012

Fundargerð ritaði Hjalti Hrafn

Fundurinn hófst á því að menn kynntu sig. Síðan hófust umræður um skilyrðislausa grunnframfærslu sem stóðu í góða stund.

Jón sagði frá sinni sýn á réttmæti skilyrðislausrar grunnframfærslu og hvernig hana ætti að framkvæma. Hann lýsti muninum á peningum og verðmætum, lausnin á að útfæra skilyrðislausa grunnframfærslu væri ekki að taka pening hér eða þar heldur grundvallarbreyting á peningakerfinu.

Júlíus lagði áherslu á tengslin við lýðræðið og vitnaði meðal annars í Carol Pateman. Samfélag er ekki raunverulega lýðræðislegt nema það sé samfélag sjálfráða einstaklinga. Menn eru hinsvegar ekki sjálfráða svo lengi sem þeir eru háðir því að semja við vinnuveitendur um lífsviðurværi sitt.

Gauti tók til máls og sagði frá hugmyndum C.H. Douglas um social credit, hugmyndum Margrit Kennedy, og sínum eigin hugmyndum um Borgaralaun. Hann lýsti því meðal annars hvernig hægt væri að tryggja grunnframfærslu með neikvæðum tekjuskatti.

Hjalti sagði frá því sem gerst hafði síðan á seinasta fundi málefnahópsins. Það var skrifuð grein inn á heimasíðu Öldu sem fékk góðar viðtökur og það var tekið viðtal við hópmeðlim í útvarpsþættinum Víðsjá. Einnig var búið að hafa samband við ritara Götz Werner og bera fram fyrirspurn um hvort hann gæti haldið fyrirlestur á Íslandi. Kappinn var hugsanlega til en fyrirlesturinn yrði á Þýsku. Rætt var hvort að annar maður kæmi til greina, til dæmis væri gaman að fá Philippe Van Parij. Velt var upp þeim möguleika að halda allsherjar Öldu málþing í ljósi þess að hópur um lýðræðislegt hagkerfi er í svipuðum pælingum með að flytja inn fyrirlesara.

Ákveðið var að halda næsta fund snemma í Maí.

Fundi var slitið klukkan 10:00