Fundur verður í málefnahópi um sjálfbærni fimmtudaginn 24. maí kl. 20 í Grasrótarmiðstöðinni, Brautarholti 4. Meginumfjöllunarefni fundarins eru tillögur Öldu að stefnu fyrir stjórnmálaflokka í sjálfbærnimálum (sjá drög að neðan).

Dagskrá

  1. Stefna stjórnmálaflokka um sjálfbærni (drög hér að neðan)
  2. Hönnun/endurhönnun
  3. Stefna félagsins í sjálfbærnimálum
  4. Önnur mál

Allir fundir hjá Öldu eru öllum opnir. Notast er við samhljóða ákvarðanatöku (e. consensus) en að öðrum kosti eitt atkvæði á mann. Allir geta tekið þátt, allir geta lagt hönd á plóg. Umsjónarmenn hópsins eru Halldóra Ísleifsdóttir, Kristinn Már Ársælsson og Sigrún Birgisdóttir.

Drög að stefnu fyrir stjórnmálaflokka í sjálfbærnimálum

Sjálfbærni og umhverfismál

Markmið

  • Ísland gangi ekki á auðlindir jarðar með ósjálfbærum hætti, hvorki hvað varðar framleiðslu né neyslu.
  • Ísland standi við markmið um að koma í veg fyrir loftslagsbreytingar af mannavöldum.
  • Neikvæð umhverfisáhrif af mannavöldum takmörkuð enn frekar og heilnæmt umhverfi manna og dýra tryggt.
  • Vernd og viðhald náttúru og dýralífs á landi, sjó, hafsbotni og lofti sé tryggð til handa komandi kynslóðum.
  • Slepping á erfðabreyttum lífverum verði bönnuð eins og mögulegt er og strangar kröfur settar um tilraunir.
  • Græn nýsköpun og hönnun studd sérstaklega og græn orka nýtt í grænan atvinnurekstur.
  • Allur úrgangur endurunninn hérlendis og endurnýting stórlega aukin.

Leiðir að markmiðum

Ísland gangi ekki á auðlindir jarðar, hvorki hvað varðar framleiðslu né neyslu

  • Vísindalegt mat liggi til grundvallar allri nýtingu auðlinda með sjálfbærni að leiðarljósi. Tekið skal mið af stöðu auðlinda í hnattrænu samhengi.
  • Vísindaleg óvissa afmörkuð og varrúðarreglu beitt.
  • Takmarkanir verði settar á nýtingu og neyslu óendurnýjanlegra hráefna – ósjálfbærni óheimil.
  • Grænir skattar verði lagðir á mengun sem og hráefni sem gengið er á með ósjálfbærum hætti.
  • Umhverfisvottun skilyrði fyrir framleiðslu á vöru og þjónustu.

Ísland standi við markmið um að koma í veg fyrir loftslagsbreytingar

  • Ísland segi upp þeim undanþágum sem fengnar hafa verið og standi við sambærilegar skuldbindingar og ESB og rúmlega það.
  • Ísland beiti sér fyrir því að önnur ríki standi einnig við skuldbindingar.
  • Losun gróðurhúaslofttegunda verði háð kvóta sem boðinn er upp og renni í auðlindasjóð.

Neikvæð umhverfisáhrif af mannavöldum takmörkuð enn frekar og heilnæmt umhverfi manna og dýra tryggt

  • Mengun verðlögð og tekjur af losun mengunar renni í auðlindasjóð.
  • Þak sett á heildarlosun tiltekinna efna, s.s. gróðurhúsalofttegunda og hættulegra mengandi efna. Ísland sé leiðandi í ETS.
  • Áhættumat liggi til grundvallar allri mengandi starfsemi þar sem tilgreind eru efri mörk mengunar sem kalli á takmörkun á starfsemi þar til skilyrði séu uppfyllt.
  • Leidd verði í lög heimild fyrir því að leggja á stjórnsýslusektir við brotum gegn lögum og reglum er varða mengun.
  • Eftirlit eflt og stjórnsýsla og upplýsingamiðlun gagnsæ.
  • Réttur almennings og starfsmanna efldur verulega hvað varðar heilnæmi og mengun í almannarými og á vinnustöðum.

Vernd og viðhald náttúru og dýralífs á landi, sjó, hafsbotni og lofti sé tryggð til handa komandi kynslóðum

  • Lokið sé við rammaáætlun þar sem heildaráhersla sé fremur á verndun fremur en nýtingu enda séu langtíma markmið í framleiðslu að draga úr henni fremur en auka. Sterk rök þurfa að liggja fyrir frekari virkjun jarðvarma og fallvatns.
  • Tryggt sé nægilegt fjármagn í vernd og viðhald friðlýstra svæða og þjóðgarða.
  • Gætt skal að forvörnum gegn mengun á hafi, s.s. með vákortum og skipulögðum siglingaleiðum. Einnig skal tryggt að eftirlit og viðbrögð við mengun séu ásættanleg.
  • Greina skal skaðleg áhrif af botnvörpuveiðum á lífríki á hafsbotni og grípa til viðeigandi ráðstafana.
  • Tryggja skal með löggjöf að nýtingarréttur á einstökum náttúruauðlindum sé takmarkaður og aukin áhersla lögð á að ljúka mikilvægum friðlýsingum.
  • Almannaréttur tryggður með ítarlegri hætti en nú er, s.s. með nánari takmörkunum á þeim hömlum sem setja má við umferð almennings.
  • Tryggðar skulu heimildir í lögum fyrir sektum og viðurlögum við skemmdum á lífríki og náttúru.

Slepping á erfðabreyttum lífverum verði bönnuð og strangar kröfur settar um tilraunir

  • Í ljósi þess í hversu stuttan tíma menn hafa stundað rannsóknir á erfðabreyttum lífverum er rétt að gætt sé varúðar og slepping í náttúru og/eða í lífverur sé takmörkuð eins frekast og kostur er.
  • Strangar kröfur séu gerðar til tilrauna með erfðabreyttar lífverur, s.s örverur og plöntur. Tryggt skal að þær berist ekki í náttúruna eða í aðrar lífverur.
  • Erfðabreytingar á flóknari lífverum bannaðar þar til nákvæmari rannsóknarniðurstöður liggja fyrir.

Græn nýsköpun og hönnun studd sérstaklega og græn orka nýtt í grænan atvinnurekstur

  • Ný stefna í orkumálum þar sem grænn atvinnurekstur eigi forkaupsrétt á grænni orku.
  • Stutt skal sérstaklega við fyrirtæki, jafnt ný sem eldri, sem setja sér markmið og áætlanir um að ná góðum árangri í umhverfismálum. T.d. með afslætti af grænum sköttum.
  • Sjálfbærni og græn hönnun höfð að leiðarljósi í framleiðslu, skipulagi og framkvæmdum. Viðmið og reglur settar það sem það á við.
  • Sérstaklega stutt við vöruþróun/vöruhönnun sem hefur endurnýtanleika og endingu að leiðarljósi.

Allur úrgangur sem fellur til á Íslandi endurunninn innanlands

  • Atvinnuskapandi tækifæri í endurnýtingu úrgangs nýtt til fulls, s.s. sem hráefni eða til orkunýtingar.
  • Allar úrgangur endurunninn eða fargað með viðeigandi hætti innanlands.
  • Áhersla lögð á að koma nothæfum vörum aftur í notkun í stað þess að þær fari í endurvinnslu eða förgun.