Lýðræðisleg fyrirtæki og leiðin að betri framtíð

Hjalti Hrafn Hafþórsson

 

 

I

Vandi kapítalismans

Kapítalismi er bannorð í pólitískri umræðu á Íslandi. Þessi óskrifaða regla hefur verið nánast ófrávíkjanleg í rúm 20 ár eða síðan Sovétríkin féllu. Í hugum flestra er kapítalisminn óhjákvæmilegur hluti af veruleikanum sem við lifum í, jafn sjálfsagður og lögmál eðlisfræðinnar, og þar af leiðandi ekki þess virði að ræða um. Það var aldrei nema einn annar valmöguleiki í boði og eftir að harðræði og óskilvirkni hins ríkisrekna skriffinnskubákns sovét-kommúnismans leið undir lok vildu fáir leiða hugann að þeim möguleika. Kapítalisminn varð ríkjandi viðmið í allri samfélagshugsun. Kapítalismi er í dag ramminn sem hugsað er innan en aldrei útfyrir og það gildir einu hvort að vinstri eða hægri stjórn er við völd. En það er kominn tími til að rjúfa þögnina, það er kominn tími til að ræða um kapítalisma, þau vandamál sem kapítalísk hagkerfi hafa í för með sér og mögulegar úrbætur sem ganga lengra og hefja sig yfir hefðbundnar vinstri/hægri kreddur í pólitík.

Byrjum á að skoða kapítalisma í mjög stuttu máli og greina megin vanda kapítalísks hagkerfis. Slík greining gæti auðvitað fyllt margar bækur og mörg þúsund blaðsíður en verður hér afgreidd í nokkrum málsgreinum í þágu þess að komast að megininntaki þessarar greinar. Öðrum möguleikum og annarskonar samfélagsgerð.

Kapítalismi er ein aðferð við að skipuleggja framleiðslu og einkennist aðallega af ákveðnu formi stéttaskiptingar (annað bannorð í íslenskri umræðu) og af frjálsum markaði. Eignarréttur á fyrirtækjum, framleiðslutækjum og jafnvel auðlindum er í höndum einkaaðila sem mynda stétt kapítalista. Aðrir sem starfa innan fyrirtækja, eða vinna við nýtingu auðlinda, mynda stétt verkamanna. Sú mýta er algeng að stéttaskipting kapítalismans sé mun mannúðlegri í dag en hún var á öldum áður en hvern þann sem heldur þeirri skoðun á lofti vil ég biðja um að athuga hvar flestar þær vörur sem hann notar dags daglega eru framleiddar og kynna sér aðstæður í verksmiðjum á viðkomandi stað. Líkur eru á að flestar vörur sem finnast á íslensku heimili séu framleiddar í Kína eða einhverstaðar í þriðja heiminum við hræðileg skilyrði. Íslenska millistéttin er til vegna arðráns verkamanna annarstaðar í heiminum. Staðreyndin er sú að grunnstoð kapítalísks hagkerfis er arðrán og slíkt fyrirkomulag er bæði óréttlátt og óhagkvæmt (fyrir alla nema kapítalistann sem augljóslega græðir).

Innan kapítalsísks hagkerfis myndast einnig sterkir hvatar til að hámarka gróða fyrirtækja óháð neikvæðum afleiðingum á samfélag og umhverfi. Nú þegar hafa kapítalísk hagkerfi gengið svo nærri auðlindum og vistkerfum jarðarinnar að það stefnir í umhverfisslys af óþekktri stærðargráðu á næstu áratugum. Þrátt fyrir það er krafan um gróða slík að vöxtur fyrirtækja og hagkerfa er í algerum forgangi bæði hjá fyrirtækjum og hjá flestum stjórnvöldum (sem mæla allt út frá hagvexti). Það þarf ekki mikla yfirsýn eða gagnrýna skoðun til að sjá að hagkerfi geta ekki vaxið endalaust á einni plánetu með takmarkaðar auðlindir sem er nú þegar nálægt þolmörkum.

Því skal þó ekki neitað að kapítalismi hefur í gegnum söguna skapað velmegun. En sú velmegun tilheyrir að mestu aðeins lítilli stétt í ákveðnum heimshluta. Auðlegð kapítalismans hefur í raun dreifst á afskaplega fáar hendur og er afleiðing ósjálfbærs kerfis sem ekki er hægt að viðhalda. Ég leyfi mér að halda því fram að kapítalismi hafi einnig skapað á kerfisbundinn hátt ómælda þjáningu sem hægt væri að koma í veg fyrir með annarskonar skipulagi. Hugmyndin sem ég vil varpa fram er einföld, hún er sú að við brjótum upp efnahagslega valdapýramída nútímans á sama hátt og pólitískir valdapýramídar fyrri tíma voru brotnir. Með lýðræði! Lýðræðisvæðum fyrirtækin! Lýðræðisvæðum hagkerfið!

 

 

II

Lýðræðisleg samvinnufyrirtæki

Lýðræðisleg samvinnufyrirtæki eru fyrirtæki sem eru sameiginlega rekin af starfsmönnum sínum og eru í sameiginlegu eignarhaldi starfsmanna. Í rekstri fyrirtækisins og allri ákvarðanatöku gildir ein megin regla: Eitt atkvæði á mann. Þetta er ekki ný hugmynd, grunnurinn að hugsjóninni var lagður í Rochdale á Englandi árið 1844. Samkvæmt ICA (International Co-operative Alliance) starfa yfir 100 miljón manns í slíkum fyrirtækjum á heimsvísu. Ef tekin eru með neytendasamvinnufyrirtæki, og fjármálasamvinnufyrirtæki þá eru meðlimir lýðræðislegra samvinnufyrirtækja um einn miljarður í heiminum í dag. Stærstu 300 samvinnufyrirtæki heimsins velta um það bil 1.600 milljörðum bandaríkjadala eða á við landsframleiðslu Kanada.

Það er grundvallarmunur á lýðræðislegu samvinnufyrirtæki og kapítalísku fyrirtæki. Í stað þess að gróði hluthafans sé megin markmið fyrirtækisins er það hagur starfsmanna eða meðlima samvinnufyrirtækis. Fólk sem vinnur innan slíkra fyrirtækja hefur meiri völd yfir sínu eigin lífi en þeir sem vinna innan kapítalísks fyrirtækis, það hefur lýðræðislega aðkomu að málum sem varða þeirra eigin atvinnu og áhrif fyrirtækisins á þeirra eigið samfélag. Það er einnig grundvallarmunur á lýðræðislega samvinnuforminu og sovét-kommúnismanum. Fyrirtækin eru raunverulega í eigu starfsmanna en ekki í eigu ríkisins og þau keppa innbyrðis á frjálsum markaði, jafnvel í samkeppni við kapítalísk fyrirtæki.

En gengur þetta módel upp? Hættir fólk ekki að vinna ef það vofir ekki yfir höfðinu á þeim uppsögn og atvinnuleysi? Getur þetta líka virkað í stórum fyrirtækjum? Þetta eru algengar spurningar sem vakna þegar byrjað er að ræða um lýðræðisleg samvinnufyrirtæki. Svarið er já, módelið gengur upp, í mörgum tilfellum jafnvel betur en sambærileg kapítalísk fyrirtæki. Fólk getur unnið sjálft, og hvatinn til að vinna vel er ennþá meiri þegar maður vinnur í sína eigin þágu, fyrir sinni eigin velferð, og sem partur af samfélagi sem maður er virkur og virtur meðlimur í. Eitt stærsta lýðræðislega samvinnufyrirtæki í heiminum er spænska fyrirtækið Mondragon sem hefur yfir 100.000 starfsmenn og er búið að starfa í meira en hálfa öld.

Samkvæmt skýrslu Alþjóðlegu vinnumálastofnunarinnar (ILO) frá 2009 er það þrautreynt að lýðræðisleg samvinnufyrirtæki standa betur af sér kreppur en sambærileg kapítalísk fyrirtæki. Ef kapítalísk fyrirtæki hætta að skila gróða, eða skila ekki nógu miklum góða, eru þau oftar en ekki lýst gjaldþrota um leið. Markmið samvinnufyrirtækis getur hins vegar verið að viðhalda atvinnu einstaklinga, styðja við ákveðið samfélag, eða framleiða ákveðna vöru sem þörf er á. Lýðræðisleg samvinnufyrirtæki vegna annarra áherslna standa þannig oft af sér kreppur og aðra efnahagslega storma sem eru óhjákvæmilegur hluti kapítalísks hagkerfis. Þeim mun stærri hluti hagkerfis sem rekinn er í lýðræðislegu samvinnuformi þeim mun stöðugra og traustara er viðkomandi hagkerfi. Lýðræðisleg samvinnufyrirtæki léku til dæmis lykilhlutverk í því að bjarga argentínska hagkerfinu eftir að það hrundi árið 2001. Alþjóðlega vinnumálastofnunin mælir þess vegna með því að ríki heimsins hlúi að lýðræðislegum samvinnufyrirtækjum og styðji við þetta form af rekstri þar sem það sé nauðsynlegur hluti af heilbrigðu hagkerfi.

Sameinuðu þjóðirnar hafa lýst því yfir að árið 2012 sé alþjóðlegt ár lýðræðislegra samvinnufyrirtækja. Úti um allan heim er verið að kynna lýðræðislega samvinnuformið, haldnar eru ráðstefnur, gefnir eru styrkir, lög og reglur eru endurskoðuð og betrumbætt. Íslensk stjórnvöld hafa hinsvegar ekkert gert til að kynna þetta form eða styðja við stofnun lýðræðislegra samvinnufyrirtækja á þessu ári.

Þó er ekki öll nótt úti enn, þróun sterkrar samvinnuhreyfingar getur átt sér stað óháð og fyrir utan hið pólitíska ferli. Lýðræðisleg samvinnufyrirtæki þrífast ágætlega í samkeppni við kapítalísk fyrirtæki og ef við í þessu litla samfélagi upplifum ákveðna vakningu gætu fleiri aðilar sem hafa hug á að stofna fyrirtæki skipulagt fyrirtækin sem lýðræðisleg samvinnufyrirtæki. Einnig mætti endurskipuleggja kapítalísk fyrirtæki sem hafa lýst sig gjaldþrota sem lýðræðisleg samvinnufyrirtæki. Það var það sem gerðist í Argentínu við upphaf aldarinnar. Fólk einfaldlega tók yfir verksmiðjurnar sem kapítalísk stórfyrirtæki höfðu lýst gjaldþrota og rak þær áfram lýðræðislega. Yfir 200 verksmiðjur og 160 fyrirtæki voru tekin yfir á þennan hátt og oft ekki átakalaust. Nú rúmum áratug síðar er lýðræðislega samvinnuhreyfingin talin ein af grunnstoðum argentínska hagkerfisins. Þetta er ekki sem verst að hafa í huga nú þegar flest útvegsfyrirtæki hér á klakanum segjast vera á barmi gjaldþrots.

En fyrir utan allt þetta þá eru lýðræðisleg fyrirtæki réttlætismál. Pólitík og peningar eru ekki aðskilin fyrirbæri, hvor tveggja eru aðeins ákveðið form af valdi. Við höfum örlitla lýðræðislega aðkomu að valdinu á sviði pólitíkur en búum flest við algera kúgun á sviði peninga. Raunverulegt lýðræði verður ekki til staðar á Íslandi fyrr en við höfum efnahagslegt lýðræði.

Kapítalisminn er úr sér genginn á heimsvísu og við mannkynið höfum ekki efni á honum lengur. Heimurinn þarfnast breytinga. Við þurfum nýja samfélagsgerð. Komandi kynslóðir þurfa samfélag réttlætis, jafnaðar og sjálfbærni. Að öðrum kosti verða engar komandi kynslóðir. Réttlæti og jöfnuður munu aldrei koma ofanfrá, það segir sig sjálft að jöfnuði verður aldrei dreift út af þeim sem eru yfir aðra settir. Þessi gildi verða aðeins að lifandi veruleika í samfélagi þegar valdefling borgara og minni hópa á sér stað. Þegar einstaklingar og hópar hafa efnahagslegar og pólitískar forsendur til að vera virkir gerendur í eigin samfélagi og þátttakendur í ákvarðanatökum og samningum. Sjálfbærni verður aldrei að veruleika fyrr en kapítalísk hagkerfi eru lögð af og við hættum að framleiða í þágu gróða og gengdarlausrar neyslu. Þegar við forgangsröðum manneskjum ofar gróða höfum við fyrst möguleika á að verða sjálfbær. En slíkt er ekki líklegt fyrr en þær manneskjur sem eru ábyrgar fyrir framleiðslunni sjálfri og jafnframt virkir gerendur í sínu nærsamfélagi taka ákvarðanir um framleiðsluaðferðir og nýtingu auðlinda.

 

Manneskjur ofar gróða! Samvinna ofar samkeppni!