Í dag var opinn fundur um styttingu vinnutíma hjá Bandalagi Háskólamanna (BHM). Á fundinum kynnti fulltrúi Öldu hugmyndir félagsins um styttingu vinnutíma, hvers vegna stytting væri nauðsynleg og hvernig ætti að koma þeim í framkvæmd.
Fundurinn var vel sóttur og stóð yfir í um klukkustund. Góðar umræður voru á fundinum og tóku fundargestir vel í hugmyndirnar.
Kjarabarátta hefur að langstærstum hluta snúist um kaupmáttar- og hagvaxtaraukningu sem og atvinnuþátttöku, enda hafði tekju- og framleiðsluaukning umtalsverð áhrif til þess að auka lífsgæði og hamingju. En breyting hefur orðið á: Rannsóknir benda til þess að þetta gildi ekki lengur, því í ríkari löndum eru lítil tengls milli tekju- og framleiðniaukningar og bættra lífsgæða og hamingju. Aðrir þættir vega nú þyngra en áður í því að auka lífsgæði og hamingju og má þar nefna sérstaklega þrjá þætti: félagsleg tengsl, jöfnuð og umhverfisgæði. Stytting vinnutímans gerir okkur kleift að rækta félagsleg tengsl, taka þátt í samfélaginu og njóta umhverfisgæða. Sömuleiðis er stytting vinnutímans líkleg til þess að draga úr streitu sem hefur neikvæð heilsuáhrif og þar með auka lífsgæði.
Alda hefur því lagt til að:
* Venjuleg vinnuvika verði stytt í 30-32 vinnustundir á tveggja ára tímabili.
* Tryggja þurfi að aukin framleiðni skili sér í fleiri frístundum hjá vinnandi fólki. Þessu markmiði skal vera náð fyrir árslok 2015.
* Fyrrgreindum markmiðum skal náð þannig að kaupmáttur standist í stað eða aukist.
Í ljósi þessa er vonandi að stéttarfélögin í landinu taki sig til og geri styttingu vinnutíma að baráttumáli í komandi kjarasamningum.
Nánar má lesa um stefnu félagsins varðandi styttingu vinnutíma hér.