Reykjavík, 10. desember 2024
Alda hvetur alla stjórnmálaflokka til að huga sérstaklega að lýðræði, velferð, jöfnuði og bankakerfinu í stjórnarmyndunarviðræðum. Framþróun er mikilvæg í þessum málaflokkum til að styrkja samfélagið til framtíðar.
Lýðræði
Traust á stjórnmálaflokkum og stofnunum hins opinbera á Íslandi hefur dvínað verulega á nokkrum áratugum. Þá telja minna en 30% landsmanna samkvæmt OECD að stjórnvöld myndu fylgja eftir afstöðu almennings í samráðsferli. Félagið telur meginskýringu þessa vera að stjórnvöld séu mun líklegri til að taka til greina hagsmuni stórra fyrirtækja, fjármálafyrirtækja og efnameira fólks en almennings. Slíkt gerist ítrekað og dregur úr trausti og tiltrú á lýðræðinu.
Félagið hvetur stjórnmálaflokka landsins til huga að tvennu sérstaklega:
- Innleiðingu borgaraþinga til að dýpka samráð við almenning. Á borgaraþingum hittast handahófsvaldir fulltrúar almennings og setja saman tillögur. Reynsla af borgaraþingum er að þau gefast vel til að sætta ólík sjónarmið í samfélaginu, en má nefna lög um þungunarrof á Írlandi sem dæmi. Á Íslandi má hugsa sér að borgaraþing takist á við spurningar um gjald af auðlindum.
- Halda áfram með endurskoðun stjórnarskrárinnar. Mikilvægt er t.a.m. að endurskoða forsetakafla stjórnarskrárinnar, sem er mjög úreltur og ekki í samræmi við framkvæmd. T.d. þarf að afnema vald forseta til að veita undanþágu frá lögum. Félagið hvetur til að borgaraþing verði kallað saman til að endurskoða valda kafla stjórnarskrárinnar.
Framangreint getur orðið til að styrkja lýðræðið, minnka áhrif sérhagsmunahópa og auka völd almennings.
Bankakerfið
Alda telur einsýnt að einkavæðing Landsbankans sé hættuleg stöðugleika og ekki neytendum eða landsmönnum til góða, líkt og raunin sýnir. Félagið telur að ríkið eigi að umbreyta Landsbankanum í samfélagsbanka sem starfi sjálfstætt og veiti hinum bönkunum samkeppni og lækki verð, ásamt því að draga úr áhættu vegna bankakerfisins. Félagið hvetur stjórnmálaflokka til ábyrgrar langtímahugsunar í bankamálum.
Velferð og jöfnuður
Alda hvetur stjórnmálaflokkana til að leggja áherslu á aukna velferð og réttindi launafólks.
Félagið hvetur stjórnmálafólk til að huga að eftirfarandi:
- Að auka efnahagslegan jöfnuð, enda er ójöfnuður á Íslandi of mikill. Sem dæmi áttu tekjuhæstu 10% landsmanna meira fé í banka en 50% tekjulægstu landsmanna árið 2022. Þá eru konur með laun undir 500 þúsundum á mánuði líklegri en aðrar til neita sér um mat, til að tryggja að börn þeirra fái að borða, auk þess sem geðheilsa þeirra er lakari. Sem samfélag eigum við ekki að sætta okkur við þetta ástand. Alda leggur áherslu á jöfnun auðs sem lykilatriði.
- Styrkja þarf heilbrigðis- og velferðarkerfi. Ljóst er að styrkja þarf þessi kerfi og það er vilji almennings. Það dregur úr áhrifum ójöfnuðar í samfélaginu.
- Samþykki uppfærð lög um vinnutíma og hvata til frekari styttingar hans. Á liðnum árum hefur náðst góður árangur með styttingu vinnutíma á Íslandi, sem hefur hlotið heimsathygli. Ísland er eina land Evrópu þar sem hefur náðst markverður árangur í styttingu vinnutímans á liðnum árum. Alda telur mikilvægt að frumvarp um 35 stunda vinnuviku sé samþykkt til að tryggja réttinn til styttri vinnutíma með lögum, en jafnframt sé hugað að hvötum til frekari styttingar. Rétt er að geta þess að styttri vinnutími eykur lífsgæði og hefur jákvæð áhrif á framleiðni, auk þess að geta haft jákvæð áhrif á neysluhegðun og þar með loftslagsbreytingar.
***
Alda leggur áherslu á að ofangreint vinni saman að bættum lífskjörum landsmanna, efli samstöðu og félagslíf. Slíkt er forsenda þess að samfélagið í sameiningu geti tekist á við álitamál framtíðarinnar, svo sem loftslagsbreytingar og hækkandi hlutfall aldraðra í landinu.
Fulltrúar Öldu eru reiðubúnir til samtals og samstarfs um ofangreint hvenær sem er.
Fyrir hönd stjórnar Öldu,
Guðmundur D. Haraldsson, stjórnarmaður