Traust á Alþingi mælist í kringum 9% og stór hluti kjósenda gefur til kynna í skoðanakönnunum að hann muni ekki ljá rótgrónum stjórnmálaflokkum atkvæði sitt í næstu kosningum. Út um allan heim standa yfir mótmæli hvar krafist er alvöru lýðræðis.
Undanfarið hefur Alda unnið að því að teikna upp skipulag stjórnmálaflokks í anda alvöru lýðræðis. Sú vinna var unnin í opnu ferli þar sem fólk kom sér saman um á hvaða forsendum slíkur flokkur ætti að grundvallast. Að starfinu kom bæði fólk sem hafði mikla reynslu af starfi stjórnmálaflokka og aðrir sem enga reynslu hafa af slíku starfi. Byggt var á hugmyndum og verkefnum sem reynst hafa vel víða um heim, s.s. eins og slembivalsþingum, lýðræðislegum þátttökuferlum, skipulagi stjórnmálaflokka og hreyfinga sem og auðvitað reynslunni af skipulagi Öldu.
Stjórnmálaflokkur í anda alvöru lýðræðis byggir á opinni umræðu þar sem öllum gefst færi á að taka þátt. Allir fundir skulu öllum opnir, enga lokaða fundi má halda (nema ákvæði laga um t.d. persónuvernd eigi við). Ákvarðanir og vald kemur að neðan, frá almennum flokksfélögum. Flokksfélagarnir vinna árið um kring að stefnumótun og ræða þau mál sem leysa þarf hverju sinni. Hjartað í slíkum flokki er málefnastarfið sem er unnið í opnu lýðræðislegu ferli þar sem réttindi flokksfélaganna eru tryggð, s.s. eins og eitt atkvæði á mann og tryggt aðgengi að ákvarðanatöku og gögnum. Ætíð skal reynt til hins ítrasta að komast að samhljóða niðurstöðu í málum án þess að til komi kasta atkvæðagreiðslu. Finna skal lausnir í samvinnu og samræðu. Komi til atkvæðagreiðslu þarf að jafnaði mikinn meirihluta til að samþykkja/synja máli.
Í mörgum stjórnmálahreyfingum er það því miður þannig að hinir almennu flokksfélagar koma lítið að mótun stefnu sinna flokka. Þar er stefna mótuð af fulltrúum flokksfélaga á stórum fundum þar sem almenn stefna er mótuð sem kjörnir fulltrúar flokksins svo túlka og vinna eftir (eða jafnvel gegn). Þannig er valdið í raun hjá fulltrúum flokkanna. Þetta er það sem í daglegu tali er nefnt foringjaræði eða fulltrúaræði.
Í tillögum Öldu er engann foringja að finna, það er bókstaflega enginn formaður eða leiðtogi. Kjörnir fulltrúar flokksins eiga að vinna eftir stefnu hans og leita umboðs til flokksins. Enda er það styrkur stjórnmálaflokka að þar komi saman margir, að nýta megi þekkingu og krafta fjölda fólks með margvíslega reynslu. Sérstakar reglur eru um að skipta skuli reglulega um fulltrúa og þess gætt að tækifæri til þess að vald þjappist saman eða klíkur myndist séu sem minnst.
Hugað er sérstaklega að því að sjónarmið sem flestra hópa í samfélaginu komist á framfæri, að sem flestir eigi hlutdeild í ákvarðanatöku. Í því skyni er meðal annars beitt slembivali í starfi flokksins í bland við almennar kosningar milli einstaklinga. Slembival hefur verið reynt víða um heim með góðum árangri að undanförnu þar sem taka þarf ákvarðanir. Má þar nefna t.d. nefna slembivalsþingið í Bresku-Kólumbíu. Slembival tryggir að allir hópar eigi hlutdeild í ákvarðanatöku og hvetur til þátttöku þar sem hver sem er getur verið valinn. Prófkjör henta t.d. sumum hópum betur, enda þekkt um allan heim að fremur einsleitir hópar eiga meirihluta fulltrúa í opinberum embættum. Reynslan bendir til þess að slembivalsfulltrúar séu ólíklegri til þess að verða fyrir áhrifum spillingar og líklegri til þess að hafa heildarhag að leiðarljósi en fulltrúar rótgróinna stjórnmálaflokka. Einnig er tekið sérstakt tillit til jafnréttis kynjanna með ákvæði um fléttulista í forvali, enda hefur jafnrétti kynjanna ekki verið náð. Jafnrétti er ein af grunnforsendum lýðræðisins.
Sérstakar reglur eru um fjármál og flokknum óheimilt að taka við styrkjum frá lögaðilum enda hafa lögaðilar ekki atkvæðisrétt í lýðræðisríkjum. Reynslan um allan heim á undanförnum árum sýnir að óeðlileg hagsmunatengsl hafa myndast milli fyrirtækja og stjórnmálaflokka þannig að grafi undan trausti og trúverðugleika. Hámark skal sett á fjárframlög frá einstaklingum og styrkir frá hinu opinbera skulu sérstaklega ræddir og samþykktir. Öll fjármál flokksins skulu opin og aðgengileg.
Fjölmörg önnur atriði eru að finna í tillögum Öldu sem hefur afgreitt lagaramma fyrir stjórnmálaflokk í anda alvöru lýðræðis og vinna við greinargerðir og skýringar stendur yfir. Drögin má kynna sér hér á vef Öldu. Öllum stjórnmálaflokkum er heimilt að nýta sér tillögur Öldu að vild, alveg ókeypis.
Kristinn Már Ársælsson