Hrunið leiddi í ljós hvernig völd þjappast á hendur fárra þegar ekki er gætt að reglum lýðræðisins. Stjórnmálamenn og bankastjórar sögðu allt í himnalagi. Ráðamenn blekktu almenning. Fundir að næturlagi voru sagðir ósköp eðlilegir. Svo hrundi allt saman og sannleikurinn kom fram í dagsljósið. Ekki einu sinni ráðherra bankamála fékk að vita hvað var að gerast. Aðkoma almennings var og er engin, enda hagkerfið undanskilið leikreglum lýðræðisins og vald ríkisvaldsins í höndum örfárra stjórnmálamanna. Byrðarnar af hruninu lentu svo að sjálfsögðu á herðum almennings en einkavæddi gróðinn liggur að stórum hluta óhreyfður og safnar vöxtum á bók. Brestirnir í lýðræðinu blöstu við og í búsáhaldabyltingunni var kallað eftir nýju lýðræði. Nú eru liðin tæp þrjú ár frá hruninu og og rétt að fara yfir stöðu mála.
Byrjum á hagkerfinu. Öll fyrirtækin, hagkerfið sjálft er undanskilið leikreglum lýðræðisins; að allir hafi jöfn áhrif, séu metnir jafnt, eitt atkvæði á mann. Í hagkerfinu er það þannig að peningar eru atkvæði og fámennur hópur á mest af peningunum og þar með miklu fleiri atkvæði en langstærstur hluti almennings. Atkvæðavægi er ójafnt. Þar fyrir utan hefur almenningur engin völd í þeim fyrirtækjum og stofnunum sem hann starfar hjá, þar eru öll atkvæðin hjá eigendum fyrirtækisins, engin hjá starfsmönnum. Í lýðræðisríkjum nýtur hagkerfið undanþágu frá reglum lýðræðisins.
Svo er það ríkisvaldið. Sú leið að almenningur kjósi á fjögurra ára fresti fulltrúa úr stjórnmálaflokkum er ein veikasta mynd lýðræðis sem völ er á. Rannsóknir sýna að völd þjappast saman í stjórnmálaflokkum þar sem lokaðir hópar há valdabaráttu. Stjórnmálaflokkarnir eru að miklu leyti háðir fjárstyrkjum frá fyrirtækjum. Þrískipting ríkisvaldsins á að tryggja lágmarksdreifingu á valdi. Á Íslandi er þessi lágmarksdreifing ekki tryggð því stjórnmálaflokkarnir við völd á Alþingi (löggjafarvaldið) skipa ráðherra (framkvæmdarvaldið) og dómara (dómsvaldið). Löggjafar-, framkvæmdar- og dómsvaldið er beint og óbeint í höndum fámenns hóps stjórnmálamanna. Aðkoma almennings að sameiginlegum ákvörðunum er lítil sem engin. Við fáum ekki einu sinni að fylgjast með þar sem fundir stjórnmálamanna eru lokaðir, engar fundargerðir haldnar og allar upplýsingar um ákvarðanatökuna undanskildar upplýsingalögum.
Er þetta lýðræði? Getum við ekki gert betur? Má ekki dreifa valdinu ögn betur og tryggja aðkomu almennings að ákvarðanatöku? Auðvitað er það mögulegt! Til eru fjölmargar leiðir til þess að dýpka lýðræðið – leiðir sem hafa verið reyndar með góðum árangri erlendis. Tökum þrjú dæmi.
Í Porto Alegre í Brasilíu ákveður almenningur í gegnum lýðræðislegt ferli hvernig fjármunum borgarinnar er varið. Reynslan er sú að fjármunir hafa færst frá ríkari svæðum til fátækari, grasrótarstarf efldist og spilling hvarf enda ferlið gagnsætt og opið. Í Bresku-Kólumbíu í Kanada var skipað borgaraþing með slembivali og jöfnum kynjahlutföllum sem vann tillögur að breytingum á kosningalöggjöfinni.
Stjórn skólamála í Chicago er að stórum hluta í höndum kjörinna hverfisráða, þar sem foreldrar, almenningur, kennarar og nemendur ráða skólastjóra og móta stefnu skólanna. Lýðræðisfélagið Alda hefur sent Stjórnlagaráði tillögur um hvernig megi dýpka og efla lýðræðið. Tillögurnar má lesa á vefsvæði félagsins (lydraedi.wordpress.com) eða á vef Stjórnlagaráðs.
Kristinn Már Ársælsson,
Stjórnarmaður í Lýðræðisfélaginu Öldu
Greinin birtist í Fréttablaðinu 26. maí 2011.