Árið 2013 var þriðja heila starfsár félagsins og viðburðaríkt líkt og fyrri ár. Félagið sendi frá sér í fyrsta sinn ályktun vegna málefna hælisleitenda og flóttafólks í kjölfar opinnar umræðu. Alda tók þátt í fjölmörgum opnum fundum og var meðal skipuleggjenda að Grænu göngunni þann 1. maí. Samþykkt var stefna í umhverfismálum og tillögur að bráðaaðgerðum í efnahagsmálum. Þá hélt félagið málþing til heiðurs Herði Bergmann áttræðum um ný leiðarljós.
Árið hófst á stjórnarfundi þann 9. janúar 2013.
Félagið gaf út stuttar leiðbeiningar um hvernig félagsmenn úti á landi geti tekið þátt í starfi félagsins og látið til sín taka.
Alda tók þátt í málþingi Húmanista þann 9. febrúar um hvort þörf væri á hugarfarsbreytingu þar sem Hjalti Hrafn flutti erindi.
Kristinn Már tók þátt í borgarafundi á vegum Dögunar um áherslur í stjórnmálum fyrir kosningar.
Alda sendi Starfsgreinasambandinu erindi þann 21. febrúar þar sem hvatt var til þess að vinnutími yrði styttur verulega.
Þann 24. febrúar sendi félagið frá sér ályktun um málefni hælisleitenda og flóttafólks þar sem krafist var tafarlausra endurbóta á regluverki og vinnuferlum sem að þeim lúta. Stjórnvöld hafa því miður ekki enn gengið í málið eins og sjá má reglulega í fréttum.
Félagið hélt opinn fund með stjórnmálaflokkunum í aðdraganda kosninga þar sem rætt var um áherslur Öldu og afstöðu flokkanna hvað varðar hagkerfið. Á fundinum voru umræður þar sem setið var í hring í stað hefðbundinna fyrirlestra fulltrúa.
Kristinn Már var viðmælandi í Silfri Egils sunnudaginn fyrir kosningar til Alþingis 2013.
Vinnuhópur um nýtt hagkerfi sendi frá sér tillögur um bráðaaðgerðir í efnahagsmálum. Þar var m.a. lagt til að fyrirtæki skyldu rekin lýðræðislega, að innlánsstarfsemi og fjárfestingarstarfsemi banka verði aðskilin, skattar á efnameiri hækkaðir, leiðum í skattaskjól verði lokað og lágmarks- sem hámarkslaun lögfest.
Málefnahópur um sjálfbærni sendi frá sér stefnu fyrir stjórnmálaflokka um sjálfbærni og umhverfismál. Í stefnunni er farið ítarlega yfir þau skref sem nauðsynlegt er að taka strax til þess að draga úr ofálagi á vistkerfi jarðar. Má þar nefna t.d. að öll framleiðsla og neysla skuli vera sjálfbær, lagðir verði á grænir skattar, að dregið skuli úr losun mengandi efna sem og losun gróðurhúsalofttegunda.
Þann 1. maí tók Alda þátt í Grænu göngunni ásamt fjölmörgum umhverfis- og náttúrverndarsamtökum. Gangan var afar fjölmenn og gaf skýr skilaboð um mikilvægi umhverfismála.
Sama dag, þann 1. maí, flutti Kristinn Már erindi á Rás 1 í tilefni dagsins.
Félagið svaraði nokkrum umsagnarbeiðnum á árinu, fyrst og fremst var þó um að ræða eldri þingmál og ítrekanir á fyrri umsögnum og ályktunum félagsins.
Alda heimsótti bæði leik- og grunnskóla á árinu þar sem kynntar voru hugmyndir um lýðræðisvæðingu í menntakerfinu.
Guðmundur D. Haraldsson hélt erindi á opnum fundi BHM um styttingu vinnutíma í aðdraganda kjaraviðræðna.
Aðalfundur félagsins, Aldamót, var haldinn þann 5. október. Á honum var m.a. kynnt skýrsla fráfarandi stjórnar. Ný stjórn var kjörin og slembivalin á fundinum.
Björn Þorsteinsson og Sólveig Alda tóku þátt í heimspekispjalli í Hannesarholti undir yfirskriftinni: Hvert er hlutverk gagnrýninnar hugsunar í þjóðfélagi sem vill kenna sig við lýðræði? – Hvernig má koma á alvöru lýðræði?
Félagið hélt ásamt Landvernd málþing til heiðurs Herði Bergmann áttræðum. Flutt voru fjölmörg fróðleg erindi um ný leiðarljós með áherslu á lýðræði og sjálfbærni. Málþingið var haldið í Þjóðminjasafninu og var vel sótt.
Í byrjun desember sendi félagið frá sér ályktun vegna fjöldauppsagna og niðurskurðar á RÚV. Þar var þess krafist að stofnunin yrði lýðræðisvædd, eitt atkvæði á mann, og henni tryggðar forsendur til að sinna lýðræðislegri skyldu sinni.
Ljóst er að mörg brýn verkefni liggja fyrir dyrum sem Alda hlakkar til að takast á við á næsta ári. Félagsmenn eru hvattir til þess að vera með og láta í sér heyra hvað varðar sjálfbærni og lýðræði á nýju ári. Gleðilegt nýtt ár!